Nú eru einungis tvær vikur í Handverkshátíð og uppsetning svæðis er komin í gang. Þó er einungis brot af þeim
búnaði komið sem á eftir að koma hingað norður til okkar. Til gamans þá má nefna að hátíðin er að breytast
í skemmtilega blöndu af lífi og fjöri enda veitir ekki af að krydda svona viðburði vel. Allt gert með það fyrir sjónum ...
að gestir staldri lengur við og koma aftur og aftur og aftur.
Vel á annað hundrað sýnendur undirbúa nú komu sína norður en ásamt þeim verður fjöldinn allur af hópum og
félögum sem heimsækja okkur. Það sem ber auk þess að nefna er verksvæði handverksmanna sem nú verður á torginu,
tískusýningar, krambúð, sirkushópur, blöðrulist og andlitsmálun fyrir börnin, gríðarlega spennandi söguþorpi verður
komið upp og tímavél spunnin með handverksmönnum, landnámsmenn í miðaldatjöldum sýna verklag gamla tímans frá miðöldum
til baðstofustemningarinnar og svo til nútímamannsins. Vélrúningur Birgis Arasonar úr Gullbrekku þar sem ullin er svo spunnin í
réttinni og nú jafnvel jurtalituð í söguþorpinu verður alveg klárlega áhugavert að sjá. Félag landnámshænsna
verður með sýningu og sína dásamlegu fegurðarsamkeppni. Kajaksmíði og vélasýning eru svo punkturinn yfir i-ið svo allir finni
sér eitthvað skemmtilegt til að fylgjast með.
Vægast sagt fjölbreytt hátíð framundan hjá okkur. Allt framkvæmt með ungmennafélagsandanum þar sem hálf sveitin mun leggjast
á eitt við framkvæmdina. Ungmennafélag, Hjálparsveit, Kvenfélög, Hestamannafélag, Lionsklúbbur - það er mögnuð menningin
í Eyjafjarðarsveit....
Minni ykkur á námskeiðin sem haldin eru 10.-12.ágúst : Ölhænur, Flauelsskurður og Næfur. Bókanir standa nú yfir og
það þéttist á námskeiðunum. Sjá nánar um námskeiðin hér á síðunni.