Sá fjögurra ára tínir glerbrot og geymir sem gersemar í vasa, unglingurinn eftirlætur vini sínum tölvuleik í skiptum fyrir áritaðan tónlistardisk meðan aðrir gamna sér við verk þekktra listamanna, penna og borðbúnað – já jafnvel tappatogara og títuprjóna. Samt þykist enginn vera sá sem á fullar hirslur af alls konar dóti en öllum er þetta tamt og því er þetta er missýnilegt. Í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit finnum við allar þessar gersemar samankomnar á einum stað í frábærlega framsettu safni Sverris Hermannssonar húsasmíðameistara. Sverrir fór aldrei leynt með söfnunaráhuga sinn og í gegnum líf sitt og starf við að gera upp gömul hús og kirkjur hafði hann safnað allt að þúsund hlutum hvert ár, í heil fimmtíu ár.
Smámunasafnið eins og það hefur verið nefnt hefur þá sérstöðu að vera ekki safn einhverra ákveðinna hluta heldur allra mögulegra hluta. Hversdagslegir hlutir eru þar mitt á meðal afar óhefðbundinna hluta. Því hefur safnið stórkostlegt menningarlegt gildi fyrir okkur og komandi kynslóðir. Það voru þeir Þórarinn Blöndal og Finnur Arnar Arnarsson myndlistarmenn sem höfðu veg og vanda af uppsetningu safnsins og hefur þeim tekist einstaklega vel að varðveita sérkenni þess, eins og þau birtust áhorfandanum meðan það var enn í vörslu safnarans sjálfs.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin