Á morgun, laugardaginn 18. maí, koma á safnið góðir gestir, þeir John Bodinger sem er dósent í mannfræði við Susquehanna háskóla í Bandaríkjunum og Sigurjón Baldur Hafsteinsson er prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands.
John og Sigurjón Baldur eru að vinna sameiginlega að verkefni (bók) um Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit, en þeir eru að skoða gildi safnsins fyrir gesti þess og samfélagið. Þeir hafa áhuga á því að ræða við sem flesta sem heimsótt hafa safnið og/eða hafa skoðanir á tilvist þess. Einnig vilja þeir endilega ræða við fólk sem þekkti og/eða vann með Sverri, frændfólk og vini.
John Bodinger hefur skrifað eina grein um safnið sem mun væntanlega birtast á þessu ári í tímaritinu Nordisk Museologi, sem er norrænt tímarit um söfn og safnafræði. Hann hefur undanfarin ár notið þess að koma með nemendur við Susquehanna-háskóla í vettvangsferð á Smámunasafnið. Sigurjón Baldur hefur einnig notið gestrisni safnsins og kom í vetur með hóp af nemendum frá Háskóla Íslands til að kynna sér starfsemina á safninu.
Vonum að sem flestir hafi tök á að koma og eiga gott spjall við þá félaga.
Kær kveðja, stúlkurnar á Smámunasafninu.