Smámunasafn Sverris Hermannssonar áfram í Sólgarði

Fréttir
Kristján Vilhelmsson, Kolbrún Ingólfsdóttir og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsv…
Kristján Vilhelmsson, Kolbrún Ingólfsdóttir og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar við undirritun samnings.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og Fjárfestingafélagið Fjörður, í eigu Kristjáns Vilhelmssonar og Kolbrúnar Ingólfsdóttur, hafa gert með sér samkomulag þess efnis að Smámunasafn Sverris Hermannssonar verði áfram hýst í Sólgarði og haldið opnu á sambærilegan máta og verið hefur fram til dagsins í dag. Með opnun sýningarinnar fyrir sjónum þá lána hjónin sveitarfélaginu aðstöðu undir safnið og sýningu þess í Sólgarði en skrifað var undir kaup félagsins á húsinu í dag.


Fyrir skömmu viðraði Kristján þá hugmynd við sveitarstjóra, Finn Yngva Kristinsson, og oddvita listanna í sveitarstjórn, þau Hermanni Inga Gunnarsson og Ástu Arnbjörgu Pétursdóttur, að festa kaup á Sólgarði með það fyrir augum að Smámunasafn Sverris Hermannssonar hafi samastað í húsinu ásamt því að tryggja öðrum aðilum áframhaldandi afnot af því. Vel var tekið í hugmyndina þar sem sveitarstjórn hafði lagt nokkra áherslu á að safnið gæti verið áfram í Sólgarði að loknum eigendaskiptum og gefið sér góðan tíma við meðferð sölunnar. Í kjölfarið barst sveitarstjórn tilboð í eignina með samkomulagi um áframhaldandi afnot sveitarfélagsins af henni undir safnið sem sveitarstjórn gekkst að með eftirfarandi orðum:


„Í ljósi mikils velvilja kaupanda af Sólgarði í garð Smámunasafns Sverris Hermannssonar og samfélagsins í Eyjafjarðarsveit samþykkir sveitarstjórn samhljóða að stuðla áfram að opnun sýningar Smámunasafns Sverris Hermanssonar áhugasömum til fróðleiks og gamans frá 1.júní til 10 september á árinu 2023. Þá felur sveitarstjórn sveitarstjóra jafnframt, í samstarfi við velferðar- og menningarnefnd, að leita skynsamlegra leiða til að halda sýningunni opinni á sambærilegan máta á ári hverju auk þess að tryggja aðgengi fræðimanna og skólahópa að sýningunni og safninu eftir því sem við á hverju sinni allt árið um kring“.


„Sveitarstjórn vill koma sérstökum þökkum til þeirra Kristjáns V. Vilhelmssonar og Kolbrúnar Ingólfsdóttir vegna þeirrar miklu velvildar sem þau sýna í garð samfélagsins með fyrirliggjandi samkomulagi um afnot af húsinu undir Smámunasafn Sverris Hermannssonar og þeirri sýn sem þau hafa um áframhaldandi nýtingu hússins fyrir samfélagið á komandi árum“.