Bráðabirgðaviðbygging við Krummakot á leiðinni

Fréttir
Krummakot
Krummakot

Einingar sem setja á upp við leikskólann á Krummakoti til að brúa vilið fram að opnun nýs leikskólahúsnæðis eru nú væntanlegar á svæðið og í uppsetningu dagana 11.-15. september.

Einingarnar sem áttu að fara í uppsetningu í sumar og vera tilbúnar fyrir opnun leikskólans tjónuðust fyrir afhendingu þeirra. Olli það umtalsverðum töfum á verkefninu með tilheyrandi óþægindum fyrir leikskólastarfsemina alla, starfsmenn, foreldra og börn. Er nú stefnt á að hafist verði handa við uppsetningu eininganna í vikunni 11.-15. september.

Búast má við að nokkur tími fari í frágang við einingarnar þar sem tengibyggingu þarf að koma fyrir milli þeirra og núverandi leikskólahúsnæðis. Þá verða settar upp innréttingar og gólfið klætt með parketi svo fátt eitt sé nefnt til að gera rýmið hlýlegt. Hefur verið búið svo um hnútana að verkið vinnist eins hratt og mögulegt er þegar söluaðilar eininganna hafa komið þeim fyrir.

Mikil eftirvænting er eftir einingunum og vonast til að með tilkomu þeirra stórbætist aðstaða leikskólans.