Fréttayfirlit

23. Handverkshátíðin opnar eftir viku

Við opnum 23. Handverkshátíðina eftir viku. Eitthvað fyrir alla fjölskylduna dagana 6.-9. ágúst. Um 100 sýningarbásar, á útisvæðinu verður fjölbreyttur og spennadi handverksmarkaður, matvælamarkaður, húsdýr, búvélasýning og teymt undir börnunum. Veitingasala og lifandi tónlist. Eigið með okkur góðan dag í Eyjafjarðarsveit. Hlökkum til að taka á móti ykkur.
30.07.2015

Opnunartími Íþróttamiðstöðvarinnar yfir verslunarmannahelgina

Opið verður: Laugardagurinn 1. ágúst kl. 10.00-20.00 Sunnudagurinn 2. ágúst kl. 10.00-20.00 Mánudagurinn 3. ágúst - frídagur verslunarmanna kl. 10.00-20.00
29.07.2015

Fuglahræðum hefur fjölgað í Eyjafjarðarsveit og nú styttist í Handverkshátíðina

Í aðdraganda Handverkshátíðarinnar hafa íbúar Eyjafjarðarsveitar verið iðnir og fuglahræðum hefur fjölgað svo um munar. Form og efnisval er ólíkt og stærsta hræðan er um 6 metra há. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íbúarnir taka þátt í að gleðja gesti sveitarinnar í aðdraganda hátíðarinnar, sem fram fer dagana 6.-9. ágúst, áður hafa þeir á svo eftirminnilega hátt skreytt póstkassana sína og prjónað klæði á kýr. Allt er þetta liður í að gera heimsókn í Eyjafjarðarsveit og á Handverkshátíðina enn skemmtilegri.
24.07.2015

Hálfur mánuður í Handverkshátíð 2015

Nú er aðeins hálfur mánuður í Handverkshátíð 2015. Sýnendur eru í óða önn við undirbúning sinn og í næstu viku leggjum við aðstandendur lokahönd á sýningarsvæðið sjálft. Hátíðin er með síður á Facebook og Instagram þar sem nýtt efni er sett inn á hverjum degi. Vertu vinur okkar þar og fylgstu vel með okkur í aðdragandanum og á hátíðinni sjálfri. Hlökkum til að taka á móti þér dagana 6.-9. ágúst.
22.07.2015

Leikskólinn Krummakot í Eyjafjarðarsveit

Leikskólinn Krummakot í Eyjafjarðarsveit óskar eftir að ráða starfsmann í ræstingar. Um er að ræða 50% starf á dagvinnutíma. Krummakot er þriggja deilda leikskóli staðsettur í Hrafnagilshverfinu, 10 km sunnan Akureyrar. Fjöldi nemenda er rúmlega fimmtíu og deildir aldursskiptar. Verið er að innleiða Jákvæðan aga og markvisst unnið með læsi, dygðir, umhverfisstarf, hreyfingu, myndlist og tónlist. Umsóknarfrestur er til 4. ágúst n.k.
20.07.2015

Fuglahræður komnar á stjá í Eyjafjarðarsveit

Enn eitt árið hafa íbúar Eyjafjarðarsveitar gert sitt til að gleðja gesti sveitarinnar í aðdraganda Handverkshátíðarinnar sem fram fer dagana 6.-9. ágúst. Í ár hafa þeir útbúið fuglahræður og komið þeim fyrir svo þær sjást frá þjóveginum. Það er gaman að sjá hversu fjölbreyttar þær eru. Sjá má litla fjölskyldu sem nýtur veðursins og grillar, ein er við björgunarstörf klædd búningi Hjálparsveitarinnar Dalbjargar í Eyjafjarðarsveit, virðulegir bændur, suðræn og seyðandi dama og svei mér þá ef grýla er ekki þarna einhvernstaðar með óþæg börn í poka og svo er það tröllskessan Kvörn. Tilvalið að keyra í sveitina og reyna að koma auga á fuglahræðurnar 14. Hlökkum til að sjá ykkur.
12.07.2015