Fréttayfirlit

OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR Á HANDVERKSHÁTÍÐ 2018

Nú er hægt að sækja um þátttöku á Handverkshátíð 2018. Handverkshátíðin fer fram dagana 9.-12. ágúst.
20.03.2018

Orðsending frá sýningarstjórn Handverkshátíðar

Handverkshátíð 2018 verður haldin dagana 9.-12.ágúst. Ár hvert streyma til okkar þúsundir gesta af öllu landinu. Við leggjum mikinn metnað í framkvæmd hátíðar og alla umgjörð. Íbúar Eyjafjarðarsveitar leggjast á eitt við framkvæmdina og mikil gleði ríkir. Svo gestir fái notið ár eftir ár þá teljum við nauðsynlegt að þróa sviðsmynd hátíðarinnar. Það laðar fleiri að ef eitthvað nýtt er að sjá. Fyrirkomulag sýningarbása verður því með breyttu sniði þetta árið og viljum við vekja sérstaka athygli á því. Ekki verða lengur ferkantaðir sýningarbásar - veggjum fram á gólf verður fækkað til að auka sýnileika og létta á sýningarsvæðinu. Það er okkar trú að upplifun gesta verði jákvæðari og þeir finni sig enn og meira velkomna þegar sýningarsvæði verði opnara. Við minnum á að verðlaun eru veitt fyrir framúrskarandi handverk og hönnun, ásamt fallegasta sýningarbásnum.
11.03.2018

Framkvæmdastjóri Handverkshátíðar í Eyjafjarðarsveit 2018

Eva Björg Óskarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri "Handverkshátíðar" sem haldin er á hverju sumri í Eyjafjarðarsveit. Eva er 28 ára gömul og lauk námi frá Myndlistarskólanum á Akureyri. Hún hefur starfað við grafíska hönnun hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum. Vann meðal annars kynningarefni fyrir Akureyrarvöku og rak hönnunarverslunina Búðina í Listagilinu á Akureyri síðastliðið sumar. Eva hefur þegar tekið til starfa við undirbúning og skipulagningu og verður vinnan komin á fullt innan skamms. Handverkshátíðin verður haldin í og við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit dagana 9.-12.ágúst n.k.
10.03.2018