Skólanefnd

245. fundur 19. mars 2019 kl. 14:43 - 14:43 Eldri-fundur

245. fundur skólanefndar Eyjafjarðarsveitar
haldinn í fundarstofu 1, Skólatröð 9, 19. mars 2019 og hófst hann kl. 12:00.

Fundinn sátu:
Anna Guðmundsdóttir, Baldur Helgi Benjamínsson, Hafdís Inga Haraldsdóttir, Eiður Jónsson, Sunna Axelsdóttir, Hrund Hlöðversdóttir, Erna Káradóttir, Hans Rúnar Snorrason, Ingibjörg Ósk Pétursdóttir, Bjarkey Sigurðardóttir, Þorbjörg Helga Konráðsdóttir og Finnur Yngvi Kristinsson.
Fundargerð ritaði: Baldur Helgi Benjamínsson Ritari.

Dagskrá:

1. Leikskólinn Krummakot - Fjölskylduvænt samfélag - 1902010
Erna Káradóttir leikskólastjóri kynnti erindi frá leikskólanum Krummakoti um fjölskylduvænt samfélag. Skólanefnd telur að ekki verði horft framhjá mikilvægu þjónustuhlutverki leikskólans við gæslu og umönnun leikskólabarna, þó mikilsverðasta hlutverk leikskólans sé menntun og uppeldi sem hæfir þroska barnanna. Skólanefnd leggur til, í ljósi erindis frá leikskólastjóra og umræðu skólanefndar um málið, að leikskólastjóra verði, til reynslu, veitt heimild til lokunar leikskólans á milli jóla og nýárs 2019, þar sem um tvo virka daga (27. og 30. desember) að ræða sem ekki eru samliggjandi. Verði það niðurstaða í kjarasamningum á vinnumarkaði að fólki verði gert kleyft að taka sér frí til að vera með börnum sínum á frídögum í skólum, væri grundvöllur að taka frekari skref í þessa átt í leikskólastarfi. Til að auka samkeppnishæfni leikskólans um fagfólk þarf einnig að líta í aðrar áttir, t.d. með sveigjanlegum vinnutíma, góðum starfsanda og bættri aðstöðu.

2. Leikskólinn Krummakot - Skóladagatal 2019-2020 - 1903004
Erna Káradóttir leikskólastjóri kynnti skóladagatal leikskólans Krummakots skólaárið 2019-2020. Gerður er fyrirvari um hvort 11. september eða 17. október verði hálfur starfsdagur. Einnig þarf að lagfæra lit á gamlársdegi, þegar leikskóli er lokaður. Þá er vísað til bókunar við 1. lið fundargerðar skólanefndar varðandi lokun milli jóla og nýárs og fyrirvari gerður samkvæmt því. Að öðru leyti samþykkir nefndin skóladagatalið.

3. Hrafnagilsskóli - Skóladagatal 2019-2020 - 1903003
Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri kynnti skóladagatal Hrafnagilsskóla 2019-2020. Nefndin samþykkir skóladagatalið.

4. Minnisblað vegna framkvæmda við skólahúsnæði - 1811015
Anna Guðmundsdóttir formaður skólanefndar kynnti minnisblað vegna framkvæmda við skólahúsnæði og umræður í framkvæmdaráði sveitarfélagsins um málið. Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri sagði frá umræðum um málið í skólaráði Hrafnagilsskóla.

5. Hádegisverðartími yngsta stigs - 1903007
Lagt fram erindi frá Baldri Helga Benjamínssyni varðandi hádegisverðartíma yngsta stigs, þar sem lagt er til að hádegisverðartímanum verði seinkað um hálfa klukkustund, til kl 11.45. Nefndin hafnar erindinu en felur skólastjóra að skoða fyrirkomulag máltíða með hagsmuni nemenda í huga.

6. Foreldrafélag Hrafnagilsskóla - Starfsemi frístundaheimilis Hrafnagilsskóla - 1902016
Lagt fram erindi frá stjórn foreldrafélags Hrafnagilsskóla um starfsemi frístundaheimilis Hrafnagilsskóla. Nefndin felur skólastjóra að taka saman upplýsingar um starfsemi frístundaheimilisins m.t.t. laga og reglugerða. Varðandi einstakar athugasemdir í erindinu hefur verið brugðist við þeim og aðrar úrbætur eru í vinnslu.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:15

Getum við bætt efni síðunnar?