Skipulagsnefnd

344. fundur 03. maí 2021 kl. 08:00 - 09:30 fundarstofa 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Jóhannes Ævar Jónsson
  • Hermann Ingi Gunnarsson
  • Sigurlaug Hanna Leifsdóttir
  • Ásta Arnbjörg Pétursdóttir
  • Sigurgeir B Hreinsson
Starfsmenn
  • Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi
  • Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Vigfús Björnsson ritari

Dagskrá:

1. Ytri-Varðgjá - baðstaður og skipulag - 2010045
Athugasemdafrestur vegna aðal- og deiliskipulagstillaga fyrir baðstað í landi Ytri-Varðgjár rann út 9. apríl sl. og bárust 8 erindi vegna málsins auk umsagnar fiskifræðings Erlends Steinars Friðrikssonar. Skipulagsnefnd fjallar um innkomin erindi í þeirri röð sem á eftir fer.
1. erindi. Sendandi: Norðurorka
Athugasemd a) Sendandi bendir á að í gr. 2.5.1 í greinargerð deiliskilpulagstillögu sé ranghermt sé að baðstaðurinn muni fá kalt vatn úr vatnslindum Ytri-Varðgjár heldur sé ráðgert að Norðurorka miðli bæði köldu og heitu vatni úr Vaðlaheiðargöngum til baðstaðarins.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að orðalag skipulagsgreinargerðar verði lagfært í samræmi við athugasemd sendanda.
2. erindi, sendandi Náttúrufræðistofnun Íslands
Athugasemd a) Sendandi telur að áform sem lýst er í deiliskipulagstillögu muni ekki hafa áhrif á svæði nr. 510 á náttúruminjaskrá (Hólmana) og að innan framkvæmdasvæðisins verði óveruleg umhverfisáhrif þar sem svæðið er nú þegar raskað.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Athugasemd b) Sendandi telur að affallsvatn frá baðstaðnum sem ráðgert er að hleypa út í lónið geti haft veruleg áhrif á lífríki þess.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd er ekki kunnugt um lífríki lækjar sem áformað er að veita affallsvatni í eða hvort þar séu hrygningarstöðvar fiska. Með vísan til óvissu um staðbundin áhrif affallsvatns á vistkerfi leggur skipulagsnefnd til við sveitarstjórn að gerð sé krafa um að affallsvatni frá baðlaugum verði veitt með röri norður fyrir þjóðveg 1.
Athugasemd c) Sendandi bendir á að 15 ár séu frá því að úttekt var gerð á því hvernig fuglar nýta sér leiru í lóninu og telur fulla ástæðu til að endurtaka úttektina, þannig að til séu sambærileg gögn fyrir og eftir framkvæmdir.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur einsýnt í ljósi þess að affallsvatni frá laugum verður veitt út fyrir þjóðveg að ekki verði breyting á lífríki og vistkerfi í Varðgjárlóni vegna framkvæmdarinnar og því sé ekki sérstök þörf á fuglatalningu vegna hennar.
Athugasemd d) Sendandi telur að affall frá baðstaðnum sem veitt er í lónið geti haft veruleg áhrif á leirurnar sérstakleg er varðar seltu- og hitastigsbreytingar. Útfrá þessu styður stofnunin það að affallslögn sé leidd út um ræsið til að lágmarka áhrif affallsvatnsins á lífríkið innan lónsins. Sendandi bendir einnig á að þörf er á frekari rannsóknum á mögulegum áhrifum affallsvatnsins, bæði innan og utan lónsins, og eins til að koma í veg fyrir að óæskileg umhverfisáhrif og rask séu flutt yfir á grunnsævið norðan við ræsið.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd er ekki kunnugt um lífríki lækjar sem áformað er að veita affallsvatni í eða hvort þar séu hrygningarstöðvar fiska. Með vísan til óvissu um staðbundin áhrif affallsvatns á vistkerfi leggur skipulagsnefnd til við sveitarstjórn að gerð sé krafa um að affallsvatni frá baðlaugum verði veitt með röri norður fyrir þjóðveg 1. Skipulagsnefnd telur einsýnt að það magn vatns sem veitt verður óhreinsuðu frá baðstaðnum (um 35 l/s af 25°C heitu vatni án spilliefna), sé svo óverulegt að það geti ekki haft neikvæð áhrif á fjöruna norðan þjóðvegar 1 og lífríki þar.
Atugasemd e) Sendandi gerir athugasemd við að staðhæft sé í kafla 5 í greinargerð deiliskipulags að heitt vatn sem runnið hafið úr Vaðlaheiðargöngum síðan 2014 hafi ekki haft merkjanleg áhrif á umhverfi og lífríki. Sendanda er ekki kunnugt um fram hafi farið rannsókn á áhrifum heitavatnsins sem um ræðir á vistkerfi sjávar og því sé staðhæfingin ómerk nema hægt sé að sýna fram á annað.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að rökstuðningi fyrir umræddri staðhæfingu sé bætt við greinargerð deiliskipulags eða hún felld burt úr greinagerðinni.
Athugasemd f) Sendandi telur mikilvægt að við gerð bílastæðis og göngustíga sé hugað vel að því að halda náttúrulegum bökkum lónsins óröskuðum og að fjarlægð frá þeim sé nægileg til að tryggja að ekki verði röskun á fuglalífi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að mjög hafi verið dregið úr umfangi bílastæðis frá fyrstu áformum og að fallið hafi verið frá landfyllingu út í lónið. Bílastæðið sem gert er ráð fyrir í auglýstri skipulagstillögu er aðeins lítillega stærra en stæðið sem þegar er á staðnum og skipulagsnefnd telur að með því móti sé áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfi sitt still í lágmark.
Athugasemd g) Sendandi telur að íbúðarsvæði ÍB22 og ÍB13 í aðalskipulagi muni líklega einnig hafa áhrif á umhverfið og ógna lífríki lónsins í framtíðinni.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að íbúðarsvæði ÍB22 og ÍB13 séu nú þegar og hafi verið um langt skeið í aðalskipulagi sveitarfélagsins og áformin sem lýst er í auglýstri deiliskipulagstillögu auki ekki við byggingarheimildir á þessum svæðum.
3. erindi, sendandi Veiðifélag Eyjafjarðarár
Athugasemd a) Sendandi vísar í umsögn Erlends Steinars Friðrikssonar fiskifræðings um áhrif af baðstað á fiskgengd og bendir á að mikilvægt sé að hiti á frárennsli fari ekki yfir þau mörk sem eru í gögnum málsins og að það innihaldi ekki klór eða önnur skaðleg efni.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Athugasemd b) Sendandi gerir að öðru leyti ekki athugasemd við framkvæmdir og frágang frárennslis frá Skógarböðum við
Varðgjártjörn eins og þeim er lýst í gögnum frá Eflu og tölvupósi frá Snævarri.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
4. erindi, sendandi Vegagerðin
Athugasemd a) Sendandi bendir á að sækja þurfi um leyfi Vegagerðarinnar við tengingu og öðrum framkvæmdum og mannvirkum innan veghelgunarsvæðis (30 m frá miðlínu til beggja átta). Sama á við um lagnir og skilti innan veghelgunarsvæðis.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Athugasemd b) Ef óskað er eftir því að vegurinn fari inn á vegaskrá sem héraðsvegur að atvinnustarfsemi og kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar í veginum, þarf útfærsla og bygging að vera í samráði við Vegagerðina.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
5. erindi, sendandi Minjastofnun
Athugasemd a) Sendandi ítrekar athugasemd sem sett var fram vegna skipulagslýsingar þess efnis að skrá þarf svæðið þar sem lögnin verður lögð frá Vaðlaheiðargöngum að skipulagssvæðinu, en ekki er að sjá að það hafi verið gert. Sú framkvæmd þarf að koma til umsagnar sendanda áður en veitt verður framkvæmdaleyfi fyrir henni.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsverkefnið sem hér um ræðir tekur ekki til lagnaframkvæmdarinnar en nefndin mun taka tillit til athugasemdarinnar þegar sótt verður um framkvæmdaleyfi vegna hennar.
6. erindi, sendandi Óshólmanefnd
Athugasemd a) Nefndin telur varhugavert að hleypa frárennsli frá laugunum út í lónið. Jafnvel þótt hitastig verði komið niður í 10-12 gráður þegar vatnið fer út í lónið gæti það valdið breytingum á örverum og trúlega aukið bakteríulíf sem aftur hefði neikvæð áhrif á fuglalífið. Leirurnar framan við lækjarósinn þar sem mætast ferskvatn og saltvatn eru einmitt mjög mikilvægur fæðustaður en þar yrðu neikvæð áhrif útrennslisins hvað mest.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd er ekki kunnugt um lífríki í leirum framan við lækjarósinn þangað sem áformað er að veita affallsvatni úr baðlaugum. Með vísan til óvissu um staðbundin áhrif affallsvatns á vistkerfi leggur skipulagsnefnd til við sveitarstjórn að gerð sé krafa um að affallsvatni frá baðlaugum verði veitt með röri norður fyrir þjóðveg 1.
Athugasemd b) Fullyrðing um að heita vatnið úr Vaðlaheiðargöngum hafi ekki valdið skaða þar sem það rennur nú er órökstudd. Vitað er að örverulíf í læknum hefur breyst en ekki hafa verið gerðar nákvæmar rannsóknir á þessu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að rökstuðningi fyrir umræddri fullyrðingu sé bætt við greinargerð deiliskipulags eða hún felld burt úr greinagerðinni.
Athugasemd c) Sendandi telur mikilvægt að yfirborðsvatn af bílastæði fari ekki út í lónið þar sem það getur verið verulega mengað. Í deiliskipulagstilögunni er ekki gerð grein fyrir hvernig þessu verður háttað. Hið sama á við með snjómokstur af plani og stígum að varhugavert er vegna hugsanlegrar mengunar að flytja snjóinn út í lónið eða norður fyrir hringveginn nálægt ræsi þar sem gætir flóðs og fjöru inn í lónið.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að í ljósi þess að bílastæði og götur innan skipulagssvæðis séu lítil að flatarmáli og bílaumferð lítil samanborið við t.d. götu innanbæjar megi álykta að yfirborðsvatn af bílastæði og götum á skipulagssvæðinu sé ekki verulegur mengunarvaldur fyrir lífríki í lóninu.
Athugasemd d) Í deiliskipulagstillögunni er í lið 5 um umhverfisáhrif sagt að fuglalíf sé "líklega nokkuð í fjörunni". Til er skýrsla um fuglalífið á og við lónið unnin 1994-2004 af Sverri Thorsteinssen og Jóni Magnússyni fyrir Björgun ehf. Frá því hún var gerð hefur fuglalíf aukist á svæðinu. Það væri mjög jákvætt að framkvæmdaaðili léti gera nýja fuglatalningu á svæðinu, bæði hvað varðar varp en ekki síður fæðuöflun, nú áður en framkvæmdir hefjast og síðan aftur eftir að starfsemin er hafin. Það gæti, ef vel er að öllu staðið, orðið staðfesting á að tilkoma baðstaðarins hafi ekki skaðað fuglalíf á svæðinu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur einsýnt í ljósi þess að affallsvatni frá laugum verður veitt út fyrir þjóðveg að ekki verði breyting á lífríki og vistkerfi í Varðgjárlóns vegna framkvæmdarinnar, og því sé ekki sérstök þörf á fuglatalningu vegna hennar.
Athugasemd e) Í skipulagstillögunni er ekki tilgreint hvenær árs hver verkþáttur er áætlaður en mikilvægt er að tímasetning framkvæmdanna taki sem mest tillit til fuglalífsins.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur viðbúið að framkvæmdir vegna byggingar baðstaðarins geti valdið staðbundnu ónæði fyrir fuglalíf. Nefndin telur þó að áhrifanna muni ekki gæta svo langt út fyrir framkvæmdasvæðið að fuglavarp í Vaðlareit sé í uppnámi meðan á framkvæmdum stendur.
7. erindi, sendandi umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar
Umhverfisnefnd fjallaði um þær hugmyndir sem liggja fyrir um baðstaðinn og deiliskipulag í kringum hann. Fyrirliggjandi gögn gefa nefndinni ekki ástæðu til athugasemda.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
8. erindi, sendandi Fiskistofa
Athugasemd a) Frágangur skólphreinsivirkis skal vera vandaður í alla staði þannig að engin mengun stafi af. Ef tryggt verður að fyrirkomulag fráveitu verði með því móti að ekki sé hætta á því að mengun berist frá starfseminni fær sendandi ekki séð að fráveita hafi áhrif á lífríki á vatnasvæði Eyjafjarðarár.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skv. deiliskipulagstillögu skal fráveita vera í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.
Athugasemd b) Sendandi bendir á að frárennslisvatn frá baðstað verði 25°C þegar því er veitt í læk vestan við baðstað. Þar er óljóst hver áhrif af því gætu orðið, en ekki liggur fyrir hvort þar kunni að vera uppeldissvæði fyrir bleikju eða aðra laxfiska. Fiskistofa varar við því að vatni sé veitt í lækinn, nema fyrir liggi nánari upplýsingar um lífríki í læknum. Til að tryggja að heitt vatn spilli ekki lífríki á vatnasvæði Eyjafjarðarár mætti leiða affallið út í sjó, eins og Erlendur Steinar Friðriksson bendir á í sinni umsögn.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd er ekki kunnugt um lífríki í leirum framan við lækjarósinn þangað sem áformað er að veita affallsvatni úr baðlaugum. Með vísan til óvissu um staðbundin áhrif affallsvatns á vistkerfi leggur skipulagsnefnd til við sveitarstjórn að gerð sé krafa um að affallsvatni frá baðlaugum verði veitt með röri norður fyrir þjóðveg 1.
Athugasemd b) Ákveði leyfisveitandi að veita sem raskar vistkerfum leyfi þrátt fyrir framangreint skal hann, með vísan í 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu. Einnig skal gera grein fyrir fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum, sem og mögulegri endurheimt náttúruverðmæta þegar það á við.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur einsýnt í ljósi þess að affallsvatni frá laugum verður veitt út fyrir þjóðveg að ekki verði breyting á þeim vistkerfum Varðgjárlóns sem vernd náttúruverndarlaga tekur telur.
Athugasemd c) Í skipulagsáætluninni er ekki fjallað sérstaklega um framkvæmdir sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Umhverfisstofnun lítur því svo á að umsögn þessi uppfylli ekki umsagnarskyldu skv. 2. mgr. 68. gr., sbr. 3. mgr. 61. gr. og áskilur sér rétt til umsagnar áður en veitt er leyfi vegna framkvæmda sem kunna að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. 61. gr. laganna.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur einsýnt í ljósi þess að affallsvatni frá laugum verður veitt út fyrir þjóðveg, og þess að bílastæði skarist samkvæmt auglýstri skipulagstillögu að óverulegu leyti við bakkagróður, að framkvæmdin hafi ekki teljandi áhrif á þau vistkerfi Varðgjárlóns sem vernd náttúruverndarlaga tekur til.
Athugasemd d) Tillagan gerir ráð fyrir töluverðu raski á bakkagróðri að mati Umhverfisstofnunar vegna bílastæðis og ekki hafi verið leitað leiða til að viðhalda náttúrulegum bakkagróðri sbr. 62. gr. náttúruverndarlaga.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að fallið hafi verið frá áformum um landfyllingu út í lónið, sem valdið hefðu talsverðu raski á bakkagróðri, og að framkvæmdir skv. auglýstri skipulagstillögu felist í raun ekki annað en að eldra bílastæði er stækkað um 5 m til vesturs á um 45 m kafla. Utan þessa kafla mun bakkagróður ekki verða fyrir áhrifum af framkvæmdinni. Skipulagsnefnd telur þetta fela í sér hóflega röskun á núverandi ástandi svæðisins og að með þessu móti sé komið á fullnægjandi hátt til móts við kröfu náttúruverndarlaga um vernd bakkagróðurs.
Athugasemd e) Í greinargerð kemur fram að ef umsögn Fiskistofu er á þá leið að áhrif frárennslis á fisk í lóninu séu neikvæð er mögulegt að leggja fráveituvatn í rör frá baðstaðnum til norðurs á haf út norðan þjóðvegar nr. 1. Umhverfisstofnun bendir á að áhrif frárennslis í lónið getur haft áhrif á aðra þætti lífríkisins í lóninu en einungis fiska og því mikilvægt að litið sé til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands við ákvarðanatöku.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Vísað er til afgreiðslu á erindi frá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Athugasemd f) Í greinargerð kemur fram að gert er ráð fyrir að heitt vatn verði leitt að staðnum með lögn frá Vaðlaheiðargöngum. Auk þess segir að mögulegt sé að leggja fráveituvatn í rör frá baðstaðnum til norðurs á haf út norðan þjóðvegar nr. 1. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að fjallað verði um umhverfisáhrif lagnanna í tillögunni.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að fyrirhuguð aðveituæð að baðstaðnum liggi ekki um svæði sem njóti sérstakar verndar og telur ekki að umhverfisáhrif lagnanna verði neikvæð. Skipulagsnefnd telur einsýnt að það magn vatns sem veitt verður óhreinsuðu frá baðstaðnum (um 35 l/s af 25°C heitu vatni án spilliefna), sé svo óverulegt að það geti ekki haft neikvæð áhrif á fjöruna norðan þjóðvegar 1 og lífríki þar.
Athugasemd g) Umhverfisstofnun vill vekja athygli á að ef um náttúruböð er á ræða ætti tillagan að taka tillit til reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni, en markmið reglugerðarinnar er að stuðla að öryggi notenda og bættum hollustuháttum á baðstöðum í náttúrunni.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að baðstaðurinn flokkist ekki undir náttúruböð í skilningi reglugerðar nr. 460/2015.
Fyrir fundinum liggja einnig undanþáguheimild umhverfisráðherra vegna fjarlægðar baðstaðar frá strandlínu og undirritað samkomulag Skógræktarfélags Eyfirðinga og Skógarbaða ehf. vegna trjáa sem fella þaft vegna framkvæmdarinnar.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að auglýstri skipulagstillögu sé breytt eins og fram kemur í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 1 a), 2 b), 2 d), 2 e), 6 a), 6 b), 8 b) og ennfremur að göngu- hjólastígar að baðstaðnum séu merktir inn á deiliskipulagsuppdrátt. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að svo breyttar aðal- og deiliskipulagstillögur séu samþykktar skv. 1. gr. 32. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslagslaga nr. 123/2010 og að skipulagsfulltrúa sé falið að fullnusta gildistöku þeirra.
Samþykkt

2. Theodór og Julia - Ósk um leyfi til að láta vinna deiliskipulag í landi Bjarkar - 2010016
Nefndin heldur áfram umfjöllun um erindi frá Theódór Gunnarssyni og Juliu Gunnarsson þar sem þess er óskað að sveitarstjórn falli frá kröfu um að ákvæði um að ónýttar byggingarheimilidir í fyrirhuguðu deiliskipulagi íbúðarsvæðis í landi Bjarkar falli niður að 10 árum liðnum. Fram kemur að önnur lóðanna sem deiliskipulagðar verða sé hugsuð fyrir ungan son þeirra sem muni ekki vera í stakk búinn að nýta heimildina eftir 10 ár. Afgreiðslu erindisins var frestað á 343. fundi nefndarinnar.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði að auglýsa skipulagstillögu fyrir íbúðarsvæði ÍB28 skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en að ákvæði um tímamörk byggingarheimilda verði bætt við að auglýsingu lokinni.
Samþykkt

3. Ósk um leyfi fyrir vinnu við aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagi í landi Leifsstaða II - 1901023
Nefndin heldur áfram umfjöllun um erindi frá Lilju Filippusdóttur hjá Teiknistofu arkitekta sem óskar eftir samþykki sveitarstjórnar við breytingu á aðalskipulagstillögu fyrir verslunar- og þjónustusvæði í landi Leifsstaða II, sem samþykkt var í auglýsingu á fundi sveitarstjórnar 2021-01-14. Breytingin felst í að heimilað byggingarmagn verði 5000 fm en í stað 1000 fm áður og heimildirnar samanstandi af öðru húsnæði en áður hafði verið samþykkt.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði að auglýsa svo breytta skipulagstillögu skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga, en að lausn fráveitumála skuli skilgreina ítarlega í deiliskipulagi og skuli sá búnaður tryggja að fráveita frá starfseminni muni ekki íþyngja notendum lands og umhverfi neðan skipulagssvæðisins.
Samþykkt

4. Hestamannafélagið Funi - Merking reiðvega - 2104035
Fyrir fundinum liggur erindi frá Hestamannafélaginu Funa þar sem óskað er eftir samþykki sveitarstjórnar við því að gefið verði út að almenn umferð vélknúinna ökutækja sé bönnuð á völdum reiðstígum í Eyjafjarðarsveit.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umferð vélknúinna ökutækja verði bönnuð á þeim reiðvegum sem lagðir hafa verið sérstaklega fyrir fjárframlög frá Vegagerðinni og Eyjafjarðarsveit.
Samþykkt

5. Deiliskipulag Stokkahlöðum - 1706002
Skipulagsnefnd frestar erindinu.
Samþykkt

6. Syðri-Tjarnir - byggingarreitur fyrir viðbyggingu - 2105001
Fyrir fundinum liggur erindi frá Vilberg R. Jónssyni þar sem óskað er eftir samþykki sveitarstjórnar við byggingarreit fyrir viðbyggingu við skemmu í Syðri-Tjörnum. Erindinu fylgir uppdráttur frá Jónasi Vigfússyni dags. 2021-04-30.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindinu sé vísað í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta tímabil grenndarkynningar ef allir hagsmunaaðilar lýsa yfir að ekki sé gerð athugasemd við áformin og að ef ekki berast andmæli á grenndarkynningatímabili teljist erindið vera samþykkt.
Samþykkt

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:30

Getum við bætt efni síðunnar?