277. fundur skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar
haldinn í fundarstofu 2, Skólatröð 9, 27. nóvember 2017 og hófst hann kl. 15:00.
Fundinn sátu:
Anna Guðmundsdóttir, formaður, Jóhannes Ævar Jónsson, aðalmaður, Sigurgeir B Hreinsson, aðalmaður, Sigurlaug Hanna Leifsdóttir, aðalmaður, Hákon Bjarki Harðarson, varamaður, Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri og Vigfús Björnsson, embættismaður.
Fundargerð ritaði: Ólafur Rúnar Ólafsson Sveitarstjóri.
Dagskrá:
1. Holtsel - Ósk um leyfi til að stofna lóð/landspildu úr landi Holtsels f.nr. 152634 og afturköllun á máli nr. 1711004 - 1711019
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.
2. Heimavöllur ehf - umsókn um framkvæmdaleyfi, endurbætur á landbúnaðarlandi og stækkun á túni - 1709011
Umsækjandi hefur áform um landfyllingu á spildu fyrir landi Hvamms austan Eyjafjarðarbrautar og vestan Eyjafjarðarár.
Af gögnum máls verður ráðið að frekari gagna og upplýsinga er þörf frá umsækjendum í málinu áður en því verði ráðið til lykta.
Málinu frestað ótiltekið.
3. Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna lagningar heimreiðar að heilsárshúsi í landi Eyrarlands - 1711002
Fyrir fundinn er lagt bréf Hverfisfélags Brúnahlíðar dags. 15. nóvember 2017 til skipulagsnefndar, þar sem hverfisfélagið samþykkir einróma að hafna lagningu þess vegar sem erindi umsækjanda fjallar um. Kemur þar fram að vegir í Brúnahlíðahverfi séu í einkaeigu lóðarhafa, sem jafnframt eru félagsmenn í hverfisfélaginu.
Við þessar aðstæður eru ekki skilyrði fyrir því fyrir skipulagsnefnd að mæla með því að erindi umsækjenda um framkvæmdaleyfi verði samþykkt. Rétt er að kynna umsækjendum framkomið bréf hverfisfélagsins og óska sjónarmiða þeirra vegna þess.
Málinu frestað.
4. Tjarnavirkjun ehf. Umsókn um heimild til deili- og aðalskipulagsbreytingar - 1608005
Gögn lögð fram til kynningar.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að kynning á aðal- og deiliskipulagstillögu á vinnslustigi fari fram samkvæmt 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og 3. mgr. 40. gr. sömu laga. Skipulagsnefnd bendir á að umsögn Fiskistofu hafi mikið vægi varðandi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og sé mikilvægt gagn við kynningu tillögunnar.
5. Fífilgerði - grenndarkynning - 1711031
Málið var áður tekið fyrir á 272. fundi skipulagsnefndar 4. september 2017, mál nr. 1709001, þar sem kallað er eftir hnitsettri afstöðumynd. Fyrir skipulagsnefnd liggur nú fyrir umbeðin afstöðumynd frá umsækjendum.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna erindið í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
6. Hranastaðir - Beiðni um leyfi til að reisa hænsnahús í landi Hranastaða - 1711006
Málið var ekki á dagskrá fundarins, þar sem umsagnarbeiðni barst ekki áður en fundarboð var sent út. Málið var fyrir á síðasta fundi skipulagsnefndar. Fyrir fundinum liggur nú umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar, dags. 24.11.2017. Formaður óskar afbrigða til að fjalla megi um erindið og er það samþykkt af öllum nefndarmönnum.
Í bréfi sínu óskar Skipulagsstofnun eftir umsögn sveitarfélagsins vegna tilkynningar um framkvæmd sem kann að vera háð mati á umhverfisáhrifum, þ.e. beiðni um leyfi til að reisa tvö hús fyrir varphænur í landi Hranastaða í Eyjafjarðarsveit.
Fyrir liggur að fyrirhuguð framkvæmd er í samræmi við aðalskipulag, bæði varðandi landnotkun og markmiðum aðalskipulags um eflingu landbúnaðar með nýjum búgreinum. Umsækjendur gera grein fyrir framkvæmdinni í greinargerð sem fylgdi erindi Skipulagsstofnunar, þar sem fyrirhugaðri starfsemi er lýst og mögulegum áhrifum hennar á næsta umhverfi.
Skipulagsnefnd er hlynnt fyrirhuguðum framkvæmdum og telur að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa veruleg umhverfisáhrif.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:25