Skipulagsnefnd

18. fundur 11. desember 2006 kl. 21:10 - 21:10 Eldri-fundur

18. fundur skipulagsnefndar er haldinn á skrifstofu sveitarstjórnar að Syðra-Laugalandi, þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 08.00 og voru allir nefndarmenn mættir.


 

Dagskrá:
1. Deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð í landi Kaupangs
2. Deiliskipulag smábýlabyggðar í landi Hólshúsa


1. Deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð í landi Kaupangs
Fyrir liggur uppdráttur af skipulagssvæðinu (Teiknistofan Form, Akureyri, og Búnaðarsamband Eyjafjarðar) dags. 02.05.2001 og 14.03.2002 ásamt með greinargerð dags. í apríl 2002. Gert er ráð fyrir 11 lóðum fyrir einbýlishús og athafnasvæði fyrir blandaða starfsemi á lóð þar sem nú er fjós og áföst hlaða. Skipulagsnefnd hefur (á 13. og 16. fundi) gert athugasemd við áður kynnta tillögu m. a. vegna nálægðar við hús bújarðarinnar og athafnasvæði sbr. ákvæði í kafla 4.5 í greinargerð með gildandi aðalskipulagi fyrir Eyjafjarðarsveit. Jarðanefnd og byggingarfulltrúi hafa einnig gert athugasemdir við tillöguna á sömu forsendum. Skipulagsnefnd lítur svo á, að með þeirri tillögu sem nú er lögð fram hafi verið komið til móts við fyrrgreindar athugasemdir með því að skýrgreina sérstaklega í skipulagstillögunni nýtingu umræddra útihúsa og athafnasvæðis umhverfis þau. Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt enda leggi landeigandi fram, áður en framkvæmdir hefjast, hnitsettan uppdráttur, sem sýni legu götu (vegar) innan skipulagsreitsins og hæðarsett mæliblöð. Sama gildi um legu holræsa og frágang þeirra og staðsetningu rotþróar. Gerð verði sú breyting á aðalskipulagi, sem leiðir af samþykkt deiliskipulagsins.

 

2. Deiliskipulag smábýlabyggðar í landi Hólshúsa
Teiknistofa arkitekta, Akureyri, hefur unnið uppdrátt af svæðinu (dags. 15.04.2002) ásamt greinargerð (dags. 16.04.2002). Stærð skipulagssvæðisins er 28.9 ha og þar er gert ráð fyrir 10 lóðum fyrir smábýli (nefnd "sveitasetur" í framlögðum gögnum) og eru lóðirnar frá 1.78 ha til 4.00 ha að stærð. Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við heildarskipulag svæðisins en vekur athygli á kafla 2.6 í greinargerð með tillögunni þar sem fjallað er um byggingarreiti og byggingar. í gr. 2.6.2 er gert ráð fyrir að á hverri lóð megi reisa 3 byggingar þ. e. a. s. eitt íbúðarhús, eina bílgeymslu og eitt útihús þar sem íbúðarhús ásamt bílgeymslu má samtals vera 300 ferm og útihús allt að 200 ferm. í samþykkt sveitarstjórnar frá maí 2000 um skilgreiningu á "smábýli" og viðmiðunarreglur segir m. a. svo:

"Smábýli fylgir lóð sem getur verið allt að 5 ha. á smábýli verður ekki stundaður hefðbundinn búrekstur sem atvinnurekstur né hefur smábýli stöðu bújarðar eða lögbýlis sbr. ábúðarlög, nr. 4/1976, og jarðalög, nr. 65/1976 m. s. br. Smábýlum er ætlað að skapa möguleika fyrir eftirfarandi:

I. garðrækt s. s. ræktun matjurta og/eða skógrækt eða aðra ræktun.
II. takmarkað skepnuhald.
III. minni iðnað (smáiðnað) eða athafnasemi sem ekki krefst mikilla bygginga eða athafnasvæðis.

þá segir einnig í samþykktinni, að "sveitarstjórn geti sett ákveðnar reglur um skepnuhald í smábýlahverfi eða hverfum s. s. um takmarkaðan fjölda sem tilheyrir hverju býli eða hverfi o. s. frv." og að "skepnuhald sé aldrei leyft á smábýli nema umsækjandi hafi umsaminn beitarrétt fyrir fénað sinn ef land smábýlisins er ekki nægilegt til þeirra hluta."

Miðað við hugmyndir að stærð útihúsa, sbr. greinargerð með skipulagstillögunni, má ætla að þar sé fyrirhugað skepnuhald í mun stærri stíl en tilvitnuð samþykkt gerir ráð fyrir. í ljósi þessa virðist nauðsynlegt að sveitarstjórn setji bindandi reglur um búfjárfjölda á hverju býli eins og samþykkt hennar um smábýli heimilar.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 08.50

Getum við bætt efni síðunnar?