8. fundur
1. október 2019 kl. 16:30-17:45 í Ráðhúsi Akureyrar
Mætt voru Emilía Baldursdóttir, Jón Birgir Gunnlaugsson, Hjördís Þórhallsdóttir, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir og Ólafur Kjartansson. Valdimar Gunnarsson boðaði forföll
Dagskrá:
1.Undirbúningur undir fund með hestamannafélaginu Létti.
Rætt er um þær framkvæmdir sem Léttir fór í síðastliðið sumar á Kaupangsbakka og fjallað var um í Bændablaðinu. Lögð eru fram gögn er varða hverfisverndarsvæðið og skilgreiningu á því. Tekið er fram að deiliskipulag Óshólmasvæðisins er ósamþykkt sem er bagalegt. Rætt er um þau atriði sem mikilvægt er að ræða við forsvarsmenn Léttis á væntanlegum fundi til að halda góðu samstarfi. Félagið á Kaupangsbakka en landið er innan hverfisverndarsvæðisins. Framkvæmdir s.l. sumar voru hvorki tilkynntar eða ræddar fyrirfram og óljóst er hversu umfangsmiklar þær voru sem og hvort þær hafi hugsanlega haft áhrif á vatnsstöðu á svæðinu. Rætt um að eðlilegt sé að gera ákveðnar kröfur varðandi tilkynningaskyldu um framkvæmdir. Hér er um að ræða svæði sem er á lista yfir alþjóðlega mikilvæg fuglaverndarsvæði. Fundarmenn sammála um áherslur í væntanlegu samtali við Léttismenn. Ákveðið að Jón Birgir ýti á Léttismenn varðandi umræddan fund.
2. Fuglatalning:
Rætt um það tilboð sem komið er frá Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi fuglatalningu á hverfisverndarsvæðinu 2020. Búið er að óska eftir leiðréttingu á villu í samlagningu í tilboði og búið að óska eftir því við Náttúrufræðistofnun Íslands að þeir skoði hvort hægt sé að lækka verðið á úttektinni. Akureyrarbær hefur samþykkt sinn hlut með fyrirvara um þáttöku annara í kostnaði. Ekki liggur fyrir samþykki frá Eyjafjarðarsveit og Isavia.
3. Deilisskipulagsdrög:
Rætt um drög að deiliskipulagi. Deiliskipulag fyrir svæðið hefur enn ekki verið samþykkt og því má búast við því að það þurfi núna nánast að byrja upp á nýtt í þessari vinnu. Fyrri gögn geti þó nýst sem stuðningur fyrir þá vinnu. Ítrekuð er nauðsyn þess að deiliskipulagið verði fullklárað og hversu mikilvægt það er að fullt samráð sé haft við landeigendur í þeirri vinnu.
4. Álit skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum Hólasandslínu.
Vakin athygli á því að álitið sé komið og hægt sé að kynna sér það. Fagnaðarefni að í því áliti er tekið fram að tímasetning vinnu við línulögnina um Óshólmasvæðið eigi að ákvarðast með hliðsjón af varp- og ungatíma og að hafa eigi samráði við Óshólmanefnd.
Ennþá er þó óljóst hvernig framkvæmdin verður nákvæmlega.
5. Önnur mál .
Vakin athygli á vatnsstöðunni á Kjarnaflæðunum og Hvammsflæðunum. Ekki hefur staðið við það sem rætt var um varðandi það að skilja svæðið eftir í sama horfi og það var áður en flugbrautin var lengd og gerðar voru breytingar á farvegi Brunnár. Einnig hefur verið grafið fram úr Hvammsflæðum. Nauðsynlegt er að þarna verði unnið að endurheimt votlendisins sem var mjög mikilvægt fæðusvæði fugla sérstaklega snemma vors.
Fleira ekki tekið fyrir
Fundargerð ritaði Gunnfríður Elín