Óshólmanefnd

6. fundur 15. nóvember 2018 kl. 17:00 - 18:00 Eldri-fundur

Þann 15. nóv. 2018 var kl. 17:00 settur fundur í Óshólmanefnd í fundarstofu í Ráðhúsi Akureyrar.

Mætt voru: Emilía Baldursdóttir, Valdimar Gunnarsson, Ólafur Kjartansson og Jón Birgir Gunnlaugsson.

Formaður setti fund og gekk til dagskrár.

1. Erindi frá skipulagssviði Akureyrarbæjar, beiðni um umsögn á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar vegna Hólasandslínu 3.
Óshólmanefnd sér ekki ástæðu til að gera athugasemd við ætlaða færslu línunnar frá upphaflegri áætlun. Nefndin vill hinsvegar leggja áherslu á að aðeins verði einn vegslóði sunnan við flugvöllinn að loknum framkvæmdum og minnir einnig á stefnu þá sem mótuð er í aðalskipulagi Akureyrar um verndun vistkerfa. Á svæðinu sunnan flugvallarins er gulstararengi og leifar af ferginsflóa sem full ástæða er til að varðveita. Minnt skal á að þegar fyrri vatnsstöðu hefur verið náð á svæðinu – eins og lofað var að loknum flugvallarframkvæmdum - má búast við að þessi engi nái fyrri útbreiðslu. Vakin skal athygli á því að miklu skiptir – með tilliti til fuglalífs - hvaða árstími verður valinn til framkvæmdanna.
2. Um breytingar á vatnsstöðu á austurhluta óshólmasvæðisins.
Rætt var um þær breytingar sem hafa orðið á kvíslunum þremur – einkum stækkun vestustu kvíslarinnar á kostnað hinnar austustu. Nefndin telur nauðsynlegt að leita til sérfræðinga, t.d. á Náttúrufræðistofnun Norðurlands til að afla upplýsinga um orsakir og afleiðingar þeirra breytinga sem hafa orðið og verið gerðar. Að slíku starfi loknu væri unnt að ákveða hvort grípa þurfi til einhverra sérstakra ráðstafana. Mögulegt væri að tengja slíka rannsókn þeirri fuglatalningu sem ætluð er árið 2020.
3. Nefndin minnir enn og aftur á að brýnt er að hefja sem fyrst vinnu við deiliskipulag Óshólmasvæðisins.
4. Óshólmanefnd vill minna sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar á að enn er ókomið upp skilti sem gerir grein fyrir óshólmasvæðinu. Auk þess er mjög brýnt að fyrir vorið 2019 verði komin upp skilti til að kynna bann við umferð hunda á svæðinu á varptíma fugla.
Formanni er falið að fylgja þessu máli eftir við sveitarstjórnina.
5. Önnur mál
Rætt var um Kaupangsbakka og nýtingu jarðarinnar. Formanni var falið að ræða við sveitarstjórn um þau mál og hugsanlegar framkvæmdir.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 18:00

Fundargerð ritaði Valdimar Gunnarsson

Getum við bætt efni síðunnar?