10. fundur atvinnumálanefndar Eyjafjarðarsveitar fimmtudaginn 8. maí 2003 kl. 20.00
á fundinn mættu Birgir Arason, Jón Jónsson, Páll Snorrason, Sigríður Bjarnadóttir og Vaka Jónsdóttir auk Bjarna Kristinssonar búfjáreftirlitsmanns sem fór af fundi eftir að hafa fjallað um sín störf tengd nefndinni undanfarið.
Fyrir fundinum lá skýrsla fjallskilastjóra, umfjöllun um verklagsreglur nefndarinnar, bréf frá Landgræðslu ríkisins Húsavík auk annarra mála. Fyrst var þó síðasta fundargerð rædd. Flugferðin sem minnst er á þar var farin í janúarlok en ekki seint um haustið og Birgir Arason er gangnastjóri hluta þess svæðis sem flogið var yfir. Að öðru leyti var hún samþykkt. Auk þessa var lagt fram til kynningar á fundinum lögfræðiálit Arnars Sigfússonar um girðingamál og verkstaða viðfangsefna sem nefndin hefur vísað til sveitarstjóra.
Bjarni hefur lokið sinni yfirreið yfir sveitarfélagið er varðar forðagæsluna og lauk því á tilskildum tíma, forðagæslulögin segja að vorskoðun skuli vera lokið um miðjan aprílmánuð. Heilt yfir telur hann málin vera í ágætu standi í sveitarfélaginu en hann talaði við héraðsdýralækni um tvo bæi þar sem umgengni var ekki ásættanleg en fóðrun hins vegar í lagi.
áður hefur verið rætt um ábyrgð og hlutverk ýmissa aðaila er koma að garnaveikisbólusetningu og hundahreinsun. Bjarni sveitarstjóri og Bjarni búfjáreftirlitsmaður hafa verið í sambandi við Dýralæknaþjónustuna og rætt þar við Aðalbjörgu. Hún hafði ætlað að taka samantekt um hvernig yrði staðið að verkinu, hvað væri hvers o.fl., en ekkert er komið enn. Auk þess hefur enn ekki borist neitt til Bjarna búfjáreftirlitsmanns um bólusetningu og hundahreinsun liðins árs en þar var farið fram á að dýralæknarnir gerðu grein fyrir hundahaldi á þar til gerðum eyðublöðum. Nefndin telur að það verði að ganga á eftir hvoru tveggja og búfjáreftirlitsmaðurinn færi í málið.
Bjarni Kristinsson hefur verið að undirbúa refa- og minkaveiðar sem verða með hefðbundnum hætti, þó verður stefnt að því að fara í fyrra fallinu í minkinn. Hann hefur fengið Hannes og Björn til liðs við sig auk þess sem Sverrir yrði kannski eitthvað líka.
Töluvert mikill tími fundarins fór í umfjöllun verklagsreglna sem Páll og Jón hafa unnið ötullega að auk minnisblaðs um reglurnar frá Bjarna sveitarstjóra. Nokkur umræða spannst um notagildi slíkra reglna sem þurfa að standast öll lög og reglur. Sveitarfélagið getur sett samþykktir varðandi ýmis málefni sem yrðu þá staðfestar af viðkomandi ráðuneyti. Gott væri að hafa þannig verklagsreglur sem atvinnumálanefndin gæti síðan farið eftir komi upp sú staða. Verklagsreglur sem slíkar hljóta að nýtast í mörgum sveitarfélögum sem glíma við sömu mál. Nefndin hvetur því sveitarstjóra til þess að skrifa sérstakt bréf til Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem óskað yrði eftir því að frumvinna og drög að ýmsum verklagsreglum séu unnar og kostaðar af sambandinu, nokkurs konar fyrirmynd sem hægt væri að sækja í.
Verklagsregla A010: Fyrri hlutinn er í lagi að vinna eftir en í annarri grein má koma fram að nefndin hlutist til um hvort tekin yrðu fyrir einhver ákveðin svæði til eftirlits hverju sinni. Seinni hlutinn er erfiðari vegna takmarkaðra aðgerða til eftirfylgni, það hefur lítinn tilgang að setja eitthvað niður á blað sem ekki er hægt að fara eftir. þær greinar þarf að setja í biðstöðu. það er að sjálfsögðu hægt að skoða girðingar og halda uppi áróðri, senda bréf til áminningar til þeirra er þurfa á að halda ? en hvað svo? á að prófa að ganga lengra og láta reyna á það eða er hægt að fara fram á við Samband íslenskra sveitarfélaga að þrýsta á að girðingarlögunum verði breytt svo hægt sé að taka á vandamálum sem upp kunna að koma ? Til er samþykkt sveitarfélagsins, staðfest af ráðuneytinu, um bann við lausagöngu búfjár á vegsvæðum í sveitarfélaginu (að undanskildum Sölvadal). Með því að gera hana ýtarlegri og fá þar inn eftirfylgni eða verklag við brotum er lagður grunnur að hvernig fást má við brot á viðhaldi fjalls- og/eða afréttagirðinga. Tvær síðustu greinar þessarar reglu fjalla um réttir, gott er að miða við úttekt og áætlanir fyrir 1.október ár hvert, það á einnig við um aðhald við réttirnar. Gott er að hafa lista yfir girðingar og ástand þeirra þar sem Bjarni fyllir út hvað hefur verið gert til úrbóta og á hvern hátt sveitarfélagið ýtir á þá framkvæmd. það skiptir nefnilega miklu máli í svona ferli að hafa allt skriflegt. þá er vert að setja inn skrár yfir réttirnar og upplýsingar um þær.
Verklagsregla A020: Hér er eins vandamál; fyrri parturinn gengur vel upp en atriði frá 6. grein verður að setja í biðstöðu á sömu og forsendum og talað er um í verklagsreglu A010.
Verklagsregla A030: Einróma samþykkt að reglan taki gildi óbreytt.
Verklagsregla A040: Rétt að hafa inni viðmiðunardagsetningar um sleppingar sem eru fengnar frá gróðurverndarnefnd; sauðfé sleppt 20. júní og stórgripum 1. júlí að öllu óbreyttu. þessar dagsetningar eru til komnar vegna ágangs búfjár á afrétt, kvartana vegna gróðurskemmda og tímarýmis til að gera við fjallsgirðingar. þyki ástæða til að hnika til með þessar dagsetningar verður reglan sú að formaður nefndarinnar sendir tölvupóst eða hringir í annað nefndarfólk og ber undir það hvort ástæða sé til að sleppa fyrr/seinna. Sé svo yrði það staðfest á næsta fundi nefndarinnar. Ef nefndarfólk af einhverjum ástæðum er ekki samróma um hnikanir á dagsetningunum yrði að kalla til fundar til að ræða málið. þá þarf að koma inn í þessa verklagsreglu um utansveitarhross; auglýsa að leyfi fyrir uppreksri þeirra sé í höndum sveitarstjórnar og eins umsóknarfrest til að sækja um fyrir þau. Enn fremur þarf að vera þarna inni dagsetning um hvenær hrossaeigendur láti vita hvort og hve mörgum heimahrossum sé sleppt á afrétt. það þarf að gera tímanlega svo gott svigrúm gefist fyrir útreikninga á fjallskilum sem varðar hrossin. Nefndarfólk taldi 15. júní vera til þess hentugan.
Verklagsregla A050: Vegna óvissu um hvernig búfjáreftirlit verður á svæðinu í framtíðinni er hún sett í biðstöðu.
Verklagsregla A060: þarna fer búfjáreftirlitsmaður/fjallskilastjóri eftir því sem nefndin hefur ákveðið hverju sinni. Nokkuð hefur verið rætt um fastsetningu gangnadaga og undanfarin ár hafa a.m.k. fyrstu göngur verið á nokkuð svipuðum tíma. í lögunum eru ákvæði um gangnadagana en þetta verður allt að skoðast í sama ljósinu og jafnframt að vera í sambandi við aðliggjandi sveitarfélög til samræmingar. Vert er að fá hér inn ítrekun um hreinsun heimalanda um aðrar göngur eins og kveður á um í lögunum. þá var aðeins rætt um sumarslátrun og breytta hagi í sauðfjárbúskapnum og þarf því allt að vera opið í þeim efnum. Nefndin telur jákvætt að fá þarna inn eyðublöð fyrir gangnaforingja til að skila inn um tilhögun og framkvæmd gangna hverju sinni.
Verklagsregla A070: Hægt að fylgja eftir, til í nýjum girðingarlögum ? en allar þessar ónýtu girðingar víða ? framkvæmanlegt ???
Verklagsregla A080: í biðstöðu. Hafa hugfast að samstarf þarf milli sveitarfélaga vegna eðlis og hegðan dýranna.
Verklagsregla A090: Geyma þar til samþykktin er orðin að veruleika, þá er hugsanlega hægt að nota hana sem verklagsreglu.
Páli var falið að vinna úr því sem fram kom í umfjöllun um hverja og eina verklagsreglu og hægt er að hefja/fara eftir strax. Hinu er vísað til sveitarstjórnar til frekari vinnu með tilliti til minnisblaðs sveitarstjóra og umfjöllun nefndarinnar sem orðið hefur.
Tekið var fyrir erindi Stefáns Skaptasonar, héraðsfulltrúa landgræðslunnar á Húsavík, sem sveitarstjórn hafði vísað til nefndarinnar. það varðar nýtingu afrétta og hrossabeit, til komið vegna erindis sem Stefáni barst um ágang hrossa í afrétt eftir haustsmölun. ákveðið var að bjóða Stefáni til fundar við nefndina og heyra hvað hann hefur fram að færa og upplýsa hann um hvað við höfum gert sem snertir þessi mál. Jóni var falið að hafa samband við Stefán og skipuleggja fundinn auk þess að fá fram hver ber kostnaðinn af eftirliti með ástandi lands af landgræðslunnar hálfu og hvernig það fer fram. Talað var um að hafa slíkan fund sem fyrst, seinni partinn í maí eða fyrri part júnímánaðar, og þar yrðu eingöngu þessi mál tekin fyrir. Fyrir fundinn þarf síðan að tína til gögn sem snerta málið; álit Langræðslunnar og gróðurverndarnefndar um viðkomandi svæði, fundargerð af fundi landeigenda svæðisins með nefndinni og annað sem fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar í fundargerðum.
þegar komið var að öðrum málum voru rifjaðar upp hugmyndir nefndarinnar um að auglýsa í dreifibréfi sveitarinnar eftir landi fyrir atvinnustarfsemi sem ekki hefur verið gert enn. Nefndin ítrekar þá ósk sína og vísar áfram til sveitarstjóra. þá kom fram að taka þyrfti fyrir á fundi nefndarinnar málefni er varða réttir í sveitarfélaginu í ljósi breytinga sem þar hafa orðið. þar fyrir utan voru uppi hugmyndir um áframhaldandi fundartíma nefndarinnar; stefnt er að því að afgreiða "sleppimál" sumarsins í gegnum síma/tölvupóst og hittast næst mánudaginn 11. ágúst fyrir utan fyrirhugaðan fund með Stefáni. áframhaldandi fundarhugmyndir til ársloka eru 10. sept., 9. okt., 10. nóv. og 10. des. Stefnt er að því að koma þessari fundargerð fyrir sveitarstjórn á n.k. fundi hennar þriðjudaginn 13. maí, ritari sendir hana frá sér til nefndarfólks á laugardegi sem hefur frest til hádegis á mánudag að koma með athugasemdir svo þetta gangi upp.
Fleira ekki rætt og fundi slitið. SB.