Auglýsingablaðið

533. TBL 23. júlí 2010 kl. 08:56 - 08:56 Eldri-fundur


Tvær vikur í Handverkshátíð
Nú eru einungis tvær vikur í Handverkshátíð og uppsetning svæðis er komin í gang.  þó er einungis brot af þeim búnaði komið sem á eftir að koma hingað norður til okkar.  Til gamans þá má nefna að hátíðin er að breytast í skemmtilega blöndu af lífi og fjöri enda veitir ekki af að krydda svona viðburði vel.  Allt gert með það fyrir sjónum að gestir staldri lengur við og koma aftur og aftur og aftur.
Vel á annað hundrað sýnendur undirbúa nú komu sína norður en ásamt þeim verður fjöldinn allur af hópum og félögum sem heimsækja okkur.  það sem ber auk þess að nefna er verksvæði handverksmanna sem nú verður á torginu, tískusýningar, krambúð, sirkushópur, blöðrulist og andlitsmálun fyrir börnin, gríðarlega spennandi söguþorpi verður komið upp og tímavél spunnin með handverksmönnum, landnámsmenn í miðaldatjöldum sýna verklag gamla tímans frá miðöldum til baðstofustemningarinnar og svo til nútímamannsins. Vélrúningur Birgis Arasonar úr Gullbrekku þar sem ullin er svo spunnin í réttinni og nú jafnvel jurtalituð í söguþorpinu verður alveg klárlega áhugavert að sjá.  Félag landnámshænsna verður með sýningu og sína dásamlegu fegurðarsamkeppni. Kajaksmíði og vélasýning eru svo punkturinn yfir i-ið svo allir finni sér eitthvað skemmtilegt til að fylgjast með.
Vægast sagt fjölbreytt hátíð framundan hjá okkur. Allt framkvæmt með ungmennafélagsandanum þar sem hálf sveitin mun leggjast á eitt við framkvæmdina. Ungmennafélag, Hjálparsveit, Kvenfélög, Hestamannafélag, Lionsklúbbur - það er mögnuð menningin í Eyjafjarðarsveit....
Minni ykkur á námskeiðin sem haldin eru 10.-12.ágúst: ölhænur, Flauelsskurður og Næfur.  Bókanir standa nú yfir og það þéttist á námskeiðunum.
Sjá nánari upplýsingar á www.handverkshatid.is  og á Facebook-síðu hátíðarinnar.


Kvenfélagskonur Hjálpinni
Buddu og chillikvöld í Sólgarði næstu fimmtudagskvöld 29 júlí og 6 ágúst milli kl. 20 og 23.
Minnum konur á að koma með efni í öllum regnboganslitum, gömul lök/sængurver, Stanley stál málbönd og litlar krukkur.
Margar hendur vinna létt verk.
Kveðja Stjórnin


Gréta Berg auglýsir
Opna sýningu mína í Blómaskálanum Vín n. k. sunnudag 25. júlí kl. 14 og hún stendur til 16 ágúst. Opið er á opnunartíma Blómaskálans frá 10-22..
Teikna tússmyndir af fólki þegar ég er við. Alltaf þessi notalega hlýja í Blómaskálanum.
Hlakka til að sjá ykkur. - Kær kveðja Gréta Berg


Sumardagur á sveitamarkaði
alla sunnudaga í sumar frá 11. júlí til 15. ágúst
Markaðurinn er opinn öllum sem vilja taka þátt í að skapa skemmtilegan markaðsdag og koma varningi sínum á framfæri. Varningurinn sem boðinn er skal vera heimaunninn og/eða falla vel að umhverfinu þ.e. gróðrinum og sveitalífinu. Markaðurinn er á torgi Gömlu Garðyrkjustöðvarinnar  og opnar kl. 11.
áhugasamir söluaðilar hafi samband við markaðsstjórn í síma 857 3700 (Margrét) eða sendi tölvupóst á sveitamarkadur@live.com
FIMMGANGUR


Förgun á dekkjum
Minnt er á að dekk skulu sett í járnagáma við förgun, en ekki í gáma fyrir almennt sorp.
íslenska gámafélagið.


Kettlingar
3 kettlingar fást gefins á góð heimili. þeir eru 12 vikna og kassavanir. Tveir svarthvítir högnar og ein svört læða. Nánari upplýsingar hjá Sverri í Brekku í síma 8471654


 

Getum við bætt efni síðunnar?