Auglýsingablaðið

1269. TBL 26. nóvember 2024

Auglýsingablað 1269. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 26. nóvember 2024.

 


Kjörfundur vegna Alþingiskosninga 30. nóvember 2024 – Athugið ný staðsetning

Kjörstaður í Eyjafjarðarsveit vegna Alþingiskosninganna laugardaginn 30. nóvember 2024 verður í mötuneyti Hrafnagilsskóla, inngangur við skrifstofur Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9.

Kjörfundur hefst kl. 10:00 og lýkur kl. 21:00.
Athugið nýja staðsetningu.

Á kjörstað gerir kjósandi grein fyrir sér með framvísun skilríkja með mynd eða á annan fullnægjandi hátt. Bent er á að ef nota á stafræn ökuskírteini þá þarf að huga að uppfærslu þeirra áður en komið er á kjörstað.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag á kjörstað má finna á https://island.is/hvernig-er-kosid 
Upplýsingar um kosningu utan kjörfundar má finna á https://island.is/s/syslumenn/kosning-utan-kjoerfundar 
Kjörskrá er aðgengileg á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar auk þess sem finna má upplýsingar um sinn kosningarstað á https://www.skra.is/folk/kjorskra-og-kosningar/hvar-a-eg-ad-kjosa/althingiskosningar-2024/ 

Á kjördegi hefur kjörstjórn aðsetur í mötuneytinu.
Símanúmer: Einar 894-1372, Sigríður 866-4741 og Þór 661-0112.

Kjörstjórnin í Eyjafjarðarsveit 12. nóvember 2024.
Einar Jóhannsson, Sigríður Hrefna Pálsdóttir og Þór Hauksson Reykdal.



K³ - Kosningadagskaffi, kökubasar og kjólasala í Laugarborg 30. nóvember

Laugardaginn 30. nóvember verða „Opnar dyr“ í Eyjafjarðarsveit – af því tilefni verður opið upp á gátt í Laugarborg kl. 13:00-17:00.
Kosningadagskaffi – vöfflur með sultu og rjóma, kaffi/te/djús
Kökubasar – þar sem borðin munu svigna undan kræsingum og góðgæti
Kjólasala – Úr mínum skáp í þinn!
Komið og gerið góð kaup. Allur ágóði rennur í hjálparsjóð Iðunnar.
Kvenfélagið Iðunn.



Aðventukvöld í Grundarkirkju fyrsta sunnudag í aðventu kl. 20:00

Fjölbreytt og falleg aðventu- og jólatónlist flutt af Kirkjukór Grundarsóknar ásamt tónlistarkonunni Þórhildi Örvarsdóttur. Stjórnandi er Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti. Sveinn Rúnar Sigmundsson á Vatnsenda flytur hugleiðingu og fermingarbörn flytja bænir sem þau hafa sjálf samið. Prestur Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Hjörtur Haraldsson. Verið hjartanlega velkomin!



Frestur til að sækja um styrk 2024 er til og með 15. desember 2024

• Íþrótta- og tómstundastyrkur barna
• Lýðheilsustyrkur eldri borgara
• Styrkveitingar vegna keppnis- og æfingaferða
Nánari upplýsingar um styrkina er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.

 

Opnar dyr 30. nóvember 2024
Við ætlum að opna upp á gátt og bjóða gestum og gangandi í aðventustemningu í sveitinni. Upplagt að krækja sér í jólagjafir, gjafabréf, matvöru og handverk.

Ath. Grundarkirkja er aðeins sýnd á kortinu til glöggvunar, en er lokuð vegna útfarar.

Getum við bætt efni síðunnar?