Auglýsingablað 1257. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 3. september 2024.
Sveitarstjórnarfundur
638. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 5. september og hefst hann kl. 8:00. Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Gangnadagar 2024
Fyrri göngur fara fram 5. - 8. september.
Seinni göngur fara fram 20. - 22. september.
Hrossasmölun verður 4. október og stóðréttir 5. október.
Gangnaseðlar hafa verið birtir á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar
https://www.esveit.is/is/frettir/gangnasedlar-2024
Talstöðvarásir gangnasvæða koma fram á gangnaseðli.
Bókasafn Eyjafjarðarsveitar
Í dag þann 3. september opnar bókasafnið aftur fyrir almenning.
Þá er safnið opið sem hér segir:
Þriðjudaga frá 14.00-17.00
Miðvikudaga frá 14.00-17.00
Fimmtudaga frá 14.00-18.00
Föstudaga frá 14:00-16:00
Á safninu er fjöldi bóka, tímarita og upplýsingaefnis, bæði til útláns, lestrar og skoðunar á staðnum. Komið við á bókasafninu og kynnið ykkur hvað þar er að finna.
Bókasafnið er staðsett í kjallara íþróttahúss Hrafnagilsskóla og er gengið inn að austan. Ekið er niður með skólanum að norðan. Einnig er hægt að nota sundlaugarinnganga og ganga úr anddyri niður í kjallara.
Upplýsingafundur fyrir foreldra og forráðamenn unglinga í Hyldýpi
Upplýsingafundur um starfsumhverfi Hyldýpis og starfsemina í vetur verður haldinn miðvikudaginn 4. september kl. 20.00 í matsal Hrafnagilsskóla. Þar munu ábyrgðarmenn félagsmiðstöðvarinnar fara yfir það starfsumhverfi sem félagsmiðstöðvar starfa í og segja frá fyrirhugaðri starfsemi í vetur. Fyrirhugað var að framkvæmdastjóri Samfés yrði á fundinum en óvæntir atburðir urðu til þess að hún getur ekki komið að þessu sinni.
Allir foreldrar og forráðamenn sem áhuga hafa á að kynna sér þessi mál eru hvattir til að mæta.
Vaðlaugin lokuð vegna viðgerða
Vegna viðgerða verður vaðlaugin í sundlaug Eyjafjarðarsveitar lokuð eitthvað fram í september. Nánari tímasetningar skýrast síðar.
Við biðjum gesti okkar velvirðingar á óþægindunum en vonumst til að þetta gangi hratt og vel fyrir sig.
Verið velkomin í sund.
Samlestur og vinnustofa hjá Freyvangsleikhúsinu
Aðventuævintýri Freyvangsleikhússins að þessu sinni verður frumsamið jólaævintýri, 14. jólasveininn eftir Ásgeir Ólafsson Lie.
Samlestur á verkinu föstudaginn 6. september kl. 20:00.
Vinnustofa laugardaginn 7. september kl. 14:00.
Þó nokkuð er af hlutverkum í verkinu og eru allir 12 ára og eldri velkomnir.
Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að vera með okkur innann sviðs sem utan að mæta og kynna sér þetta frábæra verkefni.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Kirkjukór Grundarsóknar – Nýir félagar velkomnir
Æfingar eru á mánudagskvöldum kl. 20:00-22:00 í Laugarborg.
Fyrsta æfing vetrarins verður 9. september.
Hlökkum til að hitta reynda sem og nýja kórfélaga.