Auglýsingablað 1249. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 25. júní 2024.
Hlutastörf í íþróttamiðstöðinni í Eyjafjarðarsveit næsta vetur
Tvö 20% störf laus í íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar frá 1. september 2024 til 31. maí 2025.
Um er að ræða annars vegar vaktir konu á miðvikudögum kl. 16 - 23 og hins vegar vaktir karls á fimmtudögum kl. 16 - 23.
Hentar skólafólki afar vel. Möguleiki á afleysingum og forgangur fyrir sumarstörf 2025 í boði.
Helstu verkefni:
- Öryggisgæsla
- Þjónusta við viðskiptavini íþróttamiðstöðvar
- Þrif á húsnæði og útisvæði
- Afgreiðsla
Hæfniskröfur:
- Vera orðin 18 ára
- Hafa hreint sakavottorð
- Standast hæfnispróf sundstaða skv. reglugerð um öryggi á sundstöðum
- Geta lokið námskeiði í skyndihjálp og björgun
- Hæfni og sveigjanleiki í mannlegum samskiptum
- Sjálfstæði í vinnubrögðum
- Stundvísi
- Yfirvegun undir álagi
- Rík þjónustulund
- Gott vald á íslensku og ensku
Laun eru skv. kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins.
Umsóknarfrestur er til 1. ágúst. Umsóknir ásamt kynningarbréfi, ferilsskrá og lista yfir meðmælendur skal senda á netfangið karlj@esveit.is. Vegna sumarleyfa verður aðeins tekið á móti fyrirspurnum um störfin á netfanginu karlj@esveit.is
Hælistónar
13. júlí: Erla Mist og Hallgrímur Jónas
28. júlí: Kristjana Arngríms og Kristján Hjartarson
17. ágúst: Bóndi og kerling/Bobbi og Sigga
Allir tónleikarnir hefjast kl. 15:00 í boði Hollvina Hælisins!
Velkomin!
Húsnæði óskast
Góðan dag. Við erum par með einn 6 mánaða strák og óskum eftir að leigja íbúð/hús í sveitinni helst á Hrafnagili en skoðum allt. Óskum eftir 3-4 herbergja.
Ég, Áslaug, vinn á Krummakoti og Sindri er í fastri vinnu á Akureyri.
Okkur langar mikið að hafa strákinn okkar á Krummakoti og síðan í Hrafnagilsskóla og finnst okkur mjög gott að vera í sveitinni Leigugeta er allt að 220.000kr.
Erum reyklaus og ekkert partýstand á okkur.
Kveðja, Áslaug Björk, Sindri Leó og Svavar Helgi.
Íþróttavika Evrópu er haldin árlega í yfir 30 Evrópulöndum vikuna 23.-30. september
Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla álfuna og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Evrópubúar sameinast í vikunni undir slagorðinu #BeActive.
Eyjafjarðarsveit sem Heilsueflandi samfélag, tekur þátt í íþróttavikunni og er undirbúningur viðburðarins hafinn. Líkt og áður verður leitað til einstaklinga og félagasamtaka í Eyjafjarðarsveit um skipulagningu viðburða og eru þeir sem hafa áhuga á því að bjóða upp á viðburði sem falla undir markmið íþróttavikunnar, beðnir um að hafa samband við Karl Jónsson, í gegn um netfangið karlj@esveit.is.