Auglýsingablað 1216. tbl. 15. árg. 8. nóvember 2023.
Lokað á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar
Föstudaginn 10. nóvember verður lokað á skrifstofunni. Opið frá og með mánudeginum 13. nóvember á auglýstum opnunartíma kl. 10:00-14:00.
Skrifstofa Eyjafjarðarsveitar.
Ytri-Varðgjá Vaðlaskógur, Eyjafjarðarsveit - aðal- og deiliskipulagstillögur
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 31. ágúst 2023 að vísa aðal- og deiliskipulagstillögu vegna breytingar á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og vegna breytingar á deiliskipulagi baðstaðar í landi Ytri-Varðgjár í auglýsingu skv. 31. gr. og 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Aðalskipulagsbreytingin lýtur að því að verslunar- og þjónustusvæði VÞ22 stækkar til suðurs og nær yfir svæði sem í núverandi aðalskipulagi eru skilgreind sem íbúðarsvæði (ÍB22) og skógræktar- og landgræðslusvæði. VÞ22 verður eftir breytinguna 3,5 ha að stærð og íbúðarsvæði ÍB22 fellur út. Breytingin miðar að því að innan svæðis VÞ22 verði heimilt að reisa hótel. Breyting á deiliskipulaginu felur í sér að skipulagssvæðið stækkar úr 2,6 ha í 5,3 ha, þannig að það nær yfir fyrirhugað hótel og aðkomusvæði. Á hótellóðinni verði heimilt að reisa allt að 5 hæða hótel með allt að 120 herbergjum, auk bílgeymslu og þjónusturýmis. Bílastæði og aðkomusvæði yrðu vestan og sunnan byggingarreits auk þess sem gert er ráð fyrir nýrri laug sem næði frá núverandi laug Skógarbaða að hóteli.
Skipulagsverkefnið tekur til framkvæmda sem tilgreindar eru í 12.04 viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og fylgir skipulagstillögunum umhverfisskýrsla.
Skipulagstillögurnar eru aðgengilegar á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 9. nóvember og 21. desember 2023, á heimasíðu sveitarfélagsins, www.esveit.is og á vefsíðu Skipulagsgáttar, www.skipulagsgatt.is undir málsnúmerum 805/2023 og 807/2023. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugsemdir við skipulagstillögurnar til 21. desember 2023. Hægt er að koma athugasemdum á framfæri undir málinu á vef Skipulagsgáttar með innskráningu rafrænna skilríkja. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, 605 Akureyri, eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.
Skipulags- og byggingarfulltrúi.
Jódísarstaðir íbúðarsvæði, Eyjafjarðarsveit – kynning skipulagslýsingar
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 26. október 2023 að vísa skipulagslýsingu vegna breytingar á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 vegna stækkunar íbúðarsvæðis við Jódísarstaði í Eyjafjarðarsveit í kynningarferli skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin felst í því að íbúðarsvæðið ÍB25 við Jódísarstaði stækkar til norðurs um 4 ha, inn á svæði sem er í dag skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Íbúðarsvæðið ÍB25 er 13,5 ha að stærð skv. gildandi aðalskipulagi en verður 17,5 ha. Vegna stækkunar svæðisins fjölgar íbúðum á svæðinu úr 10 í um 20.
Skipulagslýsingin er aðgengileg á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 8. og 22. nóvember 2023, á heimasíðu sveitarfélagsins, www.esveit.is og á vef Skipulagsgáttar, www.skipulagsgatt.is undir málsnúmeri 787/2023. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri til 22. nóvember 2023. Hægt er að koma athugasemdum á framfæri undir málinu á vef Skipulagsgáttar með innskráningu rafrænna skilríkja. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, 605 Akureyri, eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.
Skipulagsfulltrúi.
Lamb Inn auglýsir
Það verður kótelettukvöld hjá okkur föstudaginn 10. nóvember kl. 19:00.
Eins og venjulega; kóteletturnar okkar með heimalöguðu rauðkáli og öðru meðlæti og norðlenska búðingahlaðborðið í eftirrétt. Músík, glens og samsöngur að venju. Verð 5.900 – 10% afsláttur fyrir íbúa Eyjafjarðarsveitar.
Pantanir í síma 892-8827 eða johannes@lambinn.is
Opinn fundur um fjárhagsáætlun Eyjafjarðasveitar mánudaginn 13. nóvember kl. 20:00 í matsal Hrafnagilsskóla
Sveitarstjórn býður íbúum sveitarfélagsins til opins fundar um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Fundurinn er áhugasömum til upplýsingar um fjárhag og fjárfestingar sveitarfélagsins á næstu árum. Þar gefst gestum kostur á að varpa fram spurningum og til og með 16. nóvember verður tekið við ábendingum frá íbúum í tengslum við fjárhagsáætlun á netfanginu esveit@esveit.is.
Iðunnarkvöld – jólaföndur
Þriðjudaginn 14. nóvember kl. 20:00 í fundarherberginu í Laugarborg verður jólaföndur í umsjón 1. flokks.
Nýjar konur velkomnar.
Framundan:
*Opnar dyr 3. des. kl. 13:00-17:00 Vöfflukaffi og KÖKUBASAR í Laugarborg 😊
*Jólafundurinn okkar – 11. des. kl. 19:30 í Laugarborg – Iðunnarkonur takið daginn frá 😊
Kvenfélagið Iðunn, netfang idunn@kvenfelag.is.
Kæru sveitungar
Fimmtudaginn 16. nóvember verður Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Hrafnagilsskóla. Hátíðin hefst kl. 13:00 í íþróttasal skólans og stendur til kl. 15:00. Nemendur flytja atriði í tali og tónum sem tengjast þema dagsins sem að þessu sinni er álfar, huldufólk og íslenskar kynjaskepnur.
Nemendur 7. bekkjar hefja undirbúning fyrir Stóru upplestrarkeppnina og lesa upp sögur og ljóð sem tengjast þjóðsagnaarfi okkar Íslendinga.
Nemendur í 10. bekk standa fyrir kaffisölu að lokinni dagskrá. Þar verður standandi hlaðborð og eru verð eftirfarandi:
• 0-5 ára ókeypis
• 1.-10. bekkur 1.000 kr.
• Þeir sem lokið hafa grunnskóla 2.000 kr.
Einnig verða nemendur 10. bekkjar með söluborð og munu selja þar m.a. merkta taupoka, buff og boli.
Allur ágóði rennur í ferðasjóð bekkjarins. Athugið að enginn posi er á staðnum.
Allir eru hjartanlega velkomnir, nemendur og starfsfólk Hrafnagilsskóla.
Happdrætti
Umf. Samherjar verða með happdrætti til fjáröflunar fyrir barna- og unglingastarf félagsins. Það eru margir glæsilegir vinningar en heildarverðmæti vinninga er 1.086.663 kr. Stjórn Umf. Samherja vill koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra fjölmörgu einstaklinga og fyrirtækja sem gáfu vinninga í happdrættið, það er ómetanlegt að finna slíkan stuðning úr nærsamfélaginu. Miðasala hefst föstudaginn 10. nóvember en vinningar verða dregnir út að viðstöddum fulltrúa sýslumanns föstudaginn 17. nóvember. Miðaverð er 3.500 kr. Við hvetjum íbúa til að freista gæfunnar og styrkja um leið frábært barna- og unglingastarf Umf. Samherja.
Stjórn Umf. Samherja.