Auglýsingablaðið

1209. TBL 20. september 2023

Auglýsingablað 1209. tbl. 15. árg. 20. september 2023.

 


Sveitarstjórnarfundur
617. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar er fyrirhugaður í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 28. september og hefst hann kl. 8.00. Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.

 


Íþróttavika Evrópu verður haldin 23. – 30. september

Hér í Eyjafjarðarsveit verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í anda vikunnar en líka með sterkum tengingum við verkefnið Heilsueflandi samfélag.

Ungmennafélagið Samherjar koma sterkir inn í dagskrána, Skógræktarfélag Eyfirðinga verður með þrjár skógargöngur með leiðsögn, vatnsleikfimi verður í boði í umsjón Helgu Sigfúsdóttur og Píludeild Þórs á Akureyri ætlar að kynna píluíþróttina.

Ábúendur á Þormóðsstöðum í Sölvadal ætla að bjóða upp á fossgöngu og þegar kemur að andlegri heilsu bjóða Kyrrðarhofið á Vökulandi og Gaia-hofið á Leifsstaðabrúnum m.a. upp á ýmis Jóga afbrigði og slökun og styrk en nauðsynlegt er að skrá sig á þá viðburði vegna fjöldatakmarkana.

Rúsínan í pylsuendanum verður síðan fyrirlesturinn Fimm leiðir að vellíðan frá Sjálfsrækt á Akureyri, en um er að ræða eins og hálfs tíma fyrirlestur þar sem boðið verður upp á súpu og brauð. Nauðsynlegt er að skrá sig á þann fyrirlestur.

Allir viðburðirnir eru án endurgjalds og þá er frítt í sund alla dagana sem íþróttavikan stendur.

Nánari dagskrá og upplýsingar má finna á vefsíðu og samfélagsmiðlum sveitarfélagsins.

 


Messa í Kaupangskirkju sunnudaginn 24. september kl. 13.30

Söngfélagar við Kaupangskirkju leiða safnaðarsöng undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur organista. Prestur er Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Hansína María Haraldsdóttir. Tvö börn verða borin til skírnar í athöfninni.

Verið öll hjartanlega velkomin!

 


Stóri-Hamar 1, Eyjafjarðarsveit – kynning tillögu á breytingu á aðalskipulagi vegna efnistöku

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum 14. september 2023 að vísa tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 vegna efnistökusvæðis í landi Stóra-Hamars 1 (L152778), í kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagsverkefnið snýr að því að skilgreina efnistökusvæði í landi Stóra-Hamars 1 sem í gildandi aðalskipulagi er skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Svæðið sem um ræðir er staðsett vestan Eyjafjarðarbrautar eystri. Þá eru sett ákvæði varðandi stærð svæðisins og magn efnis sem heimilt er að taka úr því.

Skipulagstillögurnar eru aðgengilegar á skrifstofu sveitarfélagsins frá 21. september til 5. október 2023, á heimasíðu sveitarfélagsins www.esveit.is og á vef Skipulagsgáttar www.skipulagsgatt.is undir máli nr. 304/2023. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn frestur til 5. október 2023 til að gera athugasemdir við tillögurnar. Hægt er að koma athugasemdum á framfæri undir málinu á vef skipulagsgáttar með innskráningu rafrænna skilríkja. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, 605 Akureyri eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.

Opið hús vegna kynningarinnar fer fram á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9, 605 Akureyri miðvikudaginn 27. september milli kl. 13:00 og 15:00 og mun skipulagsfulltrúi vera viðstaddur og veita upplýsingar og taka við athugasemdum um tillögurnar.

Skipulagsfulltrúi.

 


Ytri-Varðgjá íbúðarsvæði, Eyjafjarðarsveit – kynning skipulagslýsingar

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 31. ágúst 2023 að vísa skipulagslýsingu, vegna nýs deiliskipulags fyrir íbúðarsvæði í landi Ytri-Varðgjár í Eyjafjarðarsveit, í kynningarferli skv. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagssvæðið nær yfir 16,2 ha svæði í landi Ytri-Varðgjár sem í gildandi Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 er að mestu skilgreint sem íbúðarsvæði ÍB12 og að litlum hluta sem skógræktar- og landgræðslusvæði. Nýja deiliskipulagið gerir ráð fyrir byggingu 30-40 íbúðarhúsa með aðkomu frá Veigastaðavegi.

Skipulagslýsingin er aðgengileg á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 21. september og 5. október 2023, á heimasíðu sveitarfélagsins, www.esveit.is og á vef Skipulagsgáttar, www.skipulagsgatt.is undir málsnúmeri 623/2023. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri til 5. október 2023. Hægt er að koma athugasemdum á framfæri undir málinu á vef skipulagsgáttar með innskráningu rafrænna skilríkja. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, 605 Akureyri, eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.

Skipulagsfulltrúi.

 


Espihóll, Eyjafjarðarsveit - auglýsing aðal- og deiliskipulagstillögu

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 27. júní 2023 að vísa aðal- og deiliskipulagstillögu vegna breytingar á aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og vegna nýs deiliskipulags fyrir fyrirhugað íbúðarhús á lóðinni Espilaut á landareigninni Espihóli, í auglýsingu skv. 31. gr. og 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Aðalskipulagsbreytingin lýtur að því að nýtt 1,5 ha svæði verði skilgreint sem íbúðarsvæði þar sem nú er skilgreint landbúnaðarsvæði í Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030. Skipulagsverkefnið snýr að skipulagi lóðar fyrir íbúðarhús á óræktuðu landi.

Skipulagstillögurnar eru aðgengilegar á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 21. september og 2. nóvember 2023 sem og á heimasíðu sveitarfélagsins, www.esveit.is. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugsemdir við skipulagstillögurnar til fimmtudagsins 2. nóvember 2023. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skulu berast til Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, 605 Akureyri eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.

Skipulagsfulltrúi.

 


Nýir söngfélagar velkomnir

Karlakór Eyjafjarðar er hópur manna sem hittist á miðvikudagskvöldum í Laugarborg og syngur saman allskonar lög, allt frá vinsælum dægurlögum, yfir í hefðbundin karlakórslög. Léttleiki í lagavali er þó alltaf í fyrirrúmi. Við getum bætt við okkur söngmönnum í allar raddir. Eina krafan er að hafa gaman af því að syngja. Við viljum því hvetja áhugasama til að hafa samband við einhvern af neðangreindum, eða mæta og prófa eina söngæfingu.

Formaður: Gunnar Haraldsson, s. 893-7236.
Ritari: Brynjar Skúlason, s. 899-8755.
Söngstjóri: Guðlaugur Viktorsson, s. 898-0525.

 


Er ekki kominn tími til að dansa?
Ég ætla að vera með dansnámskeið í Laugarborg á þriðjudögum (8 skipti) og stefni á að byrja 26. september 💃🕺🏻 Ég mun kenna ýmsa samkvæmisdansa og tjútt og fer aðeins í gömlu dansana svo þið sèuð klár fyrir þorrablótin 🥰 Dansinn er gleðigjafi og rannsóknir hafa sýnt að þeir lifa lengur sem stunda dans. Nánari upplýsingar og innritun eru á netfangið: elindans@simnet.is eða í síma 891-6276 eftir kl. 18:00 á daginn 😁

Getum við bætt efni síðunnar?