Auglýsingablað 1187. tbl. 15. árg. 5. apríl 2023.
Sveitarstjórnarfundur
608. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar er fyrirhugaður í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 13. apríl og hefst hann kl. 8:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Páskaopnun í Íþróttamiðstöðinni
6.4. Skírdagur kl. 10:00-19:00 9.4. Páskadagur kl. 10:00-19:00
7.4. Föstudagurinn langi kl. 10:00-19:00 10.4. Annar í páskum kl. 10:00-19:00
8.4. Laugardagur kl. 10:00-19:00
Verið velkomin.
Píslarganga á föstudaginn langa 7. apríl
Hin árlega píslarganga á vegum Hjálparsveitarinnar Dalbjargar verður á
föstudaginn langa 7. apríl.
Lagt verður af stað gangandi frá Dalborg kl. 10:00, gengið á bökkunum
inn að Munkaþverárkirkju (4,5 km önnur leið).
Fyrir þau sem vilja ganga hálfa leið verður farið keyrandi frá Dalborg
kl. 11:00 inn að kirkjunni. Þar verður séra Jóhanna Gísladóttir með helgistund kl. 11:30-12:00. Svo verður gengið til baka í Dalborg, þar sem verður vöfflukaffi og kassaklifur fyrir börn kl. 13:00-14:00.
Frjáls framlög í styrktarsjóð Dalbjargar.
Verið velkomin til kirkju um páskana!
Á páskadag 9. apríl fara fram tvær hátíðarmessur í sveitinni.
Komið fagnandi á upprisudeginum kæru vinir.
Grundarkirkja kl. 11:00
Kirkjukór Grundarsóknar syngur undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista.
Prestur Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Hjörtur Haraldsson.
Kaupangskirkja kl. 13:30
Söngfélagar við Kaupangskirkju syngja undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur organista.
Prestur Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Þorbjörg Helga Konráðsdóttir.
Myndlistarsýning Aðalsteins Þórssonar: Game-Far í Brúnir Horse
Laugardaginn 8. apríl kl. 15:00, opnar Aðalsteinn Þórsson sýningu á myndlistarverkum sínum í Brúnir Horse Gallery að Brúnum í
Eyjafjarðarsveit.
Verkin eru teikningar og málverk. Þau eru af ýmsum stærðum það stærsta yfir þrír metrar á lengd en það minnsta u.þ.b. þrír desimetrar. Flest eru verkin frá ´22 og ´23, en nokkur eru eldri, það elsta frá 2006. Sýningin er opin frá 14:00 – 17:00, á páskadag og helgina 22. og 23. apríl. Sími: 782-9015. Vefur: www.steini.art
Fólkið í blokkinni í Freyvangsleikhúsinu – SÍÐUSTU SÝNINGAR
Fimmtudaginn 6.4. kl. 20:00
Laugardaginn 8.4. kl. 20:00
Laugardaginn 15.4. kl. 20:00 Lokasýning
Nánar á tix.is og í síma 857-5598.
Opinn íbúafundur um viðburðahald í Eyjafjarðarsveit
Fundurinn verður haldinn miðvikudagskvöldið 12. apríl kl. 20:00 í mötuneyti Hrafnagilsskóla og er hann opinn öllum.
Stutt könnun er tilbúin fyrir fundinn sem allir mega svara.
Könnunin: https://www.surveymonkey.com/r/GLXS3FV
Farið verður yfir niðurstöðurnar á fundinum.
Allir eru velkomnir á fundinn, hvort sem fólk er nýtt í sveitinni eða hokið af reynslu. Kaffi og gott með því verður á boðstólum.
Með von um góðar undirtektir og umræður, Hjálparsveitin Dalbjörg, Ungmennafélagið Samherjar, Kvenfélögin Aldan, Iðunn og Hjálpin, Hestamannafélagið Funi og Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi.
Iðunnarkvöld - Saltkringlukonfektgerð
Kvenfélagið Iðunn verður með námskeið í saltkringlukonfektgerð fimmtudaginn 13. apríl kl. 20:00 í skólaeldhúsi Hrafnagilsskóla.
Nýjar konur velkomnar en skráning er hjá Hrönn, ritara, í síma 866-2796 eða á idunnhab@gmail.com fyrir 11. apríl. 😊 Iðunnarkonur, þið mætið bara 😉 Sjáumst hressar, bestu kveðjur frá 2. flokki.
Þróun íbúðarbyggðar í Vaðlaheiði – Rammahluti aðalskipulags, samstarfsverkefni Eyjafjarðarsveitar og Svalbarðsstrandarhrepps – auglýsing skipulagslýsingar
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á 607. fundi sínum 30. mars 2023 að vísa skipulagslýsingu fyrir Rammahluti Aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og Aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020, sem felur í sér breytingu á núgildandi aðalskipulögum, í kynningarferli samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Lýsingin er upphaf skipulagsvinnu við rammahluta aðalskipulags fyrir þróun byggðar í Vaðlaheiði. Í lýsingunni koma fram upplýsingar um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugað skipulagsferli og með kynningu á henni gefst íbúum og hagsmunaaðilum kostur á að leggja fram ábendingar og sjónarmið við upphaf skipulagsvinnu.
Skipulagslýsingin er aðgengileg á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 4. apríl og 3. maí 2023 á auglýstum opnunartíma skrifstofu kl. 10:00-14:00, sem og á heimasíðu sveitarfélagsins, www.esveit.is. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri til miðvikudagsins 3. maí 2023. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skulu berast til Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, 605 Akureyri, eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.
Skipulagsfulltrúi.
Garðars-Tónleikar – Laugarborg 13. apríl kl. 20:00
Nú ætla kennarar Tónlistarskóla Eyjafjarðar að bregða á leik og ýta úr vör Garðarstónleikum sem legið hafa í dvala um nokkurt skeið.
Minningarsjóður um Garðar Karlsson er sjóður sem styrkir tónlistarnemendur til dáða á tónlistarbrautinni til frekara náms eða annara góðra verka.
Á tónleikunum koma fram meðal annara: Helga Kvam píanó, Jón Þorsteinn Reynisson harmonika og Tómas Leó Halldórsson bassaleikari, sem leika verk eftir Piazzolla og Granados. Þórarinn Stefánsson píanóleikari leikur verk eftir Schumann. Ásdís Arnardóttir sellóleikari og Steinunn Halldórsdóttir píanóleikari, leika verk eftir Fauré og Carlos Gardel. Petrea Óskarsdóttir leikur á þverflautu af sinni efnisskrá. Karlakór Eyjafjarðar syngur undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar.
Aðgangur er kr. 3.500 og tekið er á móti frjálsum framlögum í sjóðinn.
Hlökkum til að sjá ykkur fylla húsið, hlýða á fagra tóna og styrkja gott málefni.
Stjórnin.
Karlakór Eyjafjarðar verður með tónleika 15. apríl í Laugarborg kl. 16:00
Uppistaða tónleikanna eru lög eftir Magnús Eiríksson sem Pálmi Gunnarsson
hefur sungið. Einnig verða flutt lög úr ýmsum áttum. Einsöngvari verður
Pálmi Óskarsson. Meðleikarar; Eyþór Ingi Jónsson hljómborð, Hallgrímur J.
Ómarsson gítar og Tómas Leó Halldórsson á bassa. Stjórnandi Guðlaugur
Viktorsson. Miðaverð kr. 3.500,-