Auglýsingablað 1177. tbl. 15. árg. 25. janúar 2023.
Leiðrétting - Sveitarstjórnarfundur
603. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar er fyrirhugaður fimmtudaginn
2. febrúar kl. 8:00 í fundarherbergi sveitarstjórnar að Skólatröð 9.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Ágætu sveitungar!
Við ritvinnslu tímaritsins Eyvindar féll niður hluti texta í grein Gunnars Jónssonar um Hrafnagilsskóla 50 ára. Neðst í mið dálki á bls. 7 á framhaldið að vera eftirfarandi:
.... þeirri 20. kenndu margir í sveitum landsins, sem hlotið höfðu einhverja framhaldsmenntun, unglingum / ungmennum hluta úr vetri án þess að um formlegt skólastarf væri að ræða og það var líka gert í Framfirðinum. Magnús Sigurðsson bóndi og kaupmaður á Grund var mjög framfarasinnaður og hafði mörg járn í þeim eldi. Fyrir aldamótin 1900 hóf hann umræðu um nauðsyn þess að byggja skólahús fyrir hreppana þrjá, bauð land undir það á Grund og veglega fjárhæð frá sér. En ekki varð af byggingunni, jafnvel þótt Magnús byðist 1907 eða 1908 til að greiða um það bil 2/3 af byggingarkostnaðinum á móti landssjóði með því skilyrði að hver búandi í héraðinu legði fram 3-5 dagsverk við bygginguna. Síðan liðu rúm 60 ár þar til fyrstu nemendurnir gengu inn í unglingaskóla í sinni heimabyggð. Velta má fyrir sér hvaða áhrif skóli á Grund eða annarsstaðar í sveitinni hefði haft á menntun og mannlíf í Framfirðinum ....
Greinarhöfundur Gunnar Jónsson frá Villingadal er beðinn velvirðingar á þessum mistökum. Fyrir hönd ritnefndar, Benjamín Baldursson.
Sameining sókna í Eyjafjarðarsveit
Þann 1. desember s.l. sameinuðust með formlegum hætti fimm af sex kirkjusóknum hér í sveit. Það eru: Grundarsókn, Saurbæjarsókn, Hólasókn, Möðruvallasókn og Munkaþverársókn. Nýja sameinaða sóknin ber heitið Grundarsókn.
Á stofnfundi hinnar nýju sóknar sem fram fór 8. desember s.l. var kosið í stjórn og Hjörtur Haraldsson, fulltrúi Grundarkirkju, valinn formaður. Aðrir aðalmenn eru: Auður Thorberg fyrir Saurbæjarkirkju, Sveinn Sigmundsson fyrir Hólakirkju, Guðmundur Óskarsson fyrir Möðruvallakirkju og Benjamín Baldursson fyrir Munkaþverárkirkju.
Varamenn eru: Ármann Helgi Guðmundsson, Lilja Sverrisdóttir, Anna Þórsdóttir, Ólafur Thorlacius og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
Allar bókanir og annað er snýr að hverri kirkju fyrir sig annast fulltrúar hverrar kirkju í sóknarnefnd. Þessi sameining hefur lítið annað í för með sér en aukna hagræðingu í rekstri og skipulagi fyrir sóknarnefndarfólk en ætti ekki að hafa nein áhrif á sóknarbörn að öðru leyti. Helgihald og önnur starfsemi kirkjunnar hér í sveit helst óbreytt með öllu.
Hafi einhver spurningar, ábendingar eða óskar nánari útskýringa á þessum breytingum þá er velkomið að hafa samband við sóknarnefndarfólk eða Jóhönnu prest í síma 696-1112.
Kæru sveitungar, vegna þorrablótsins laugardaginn 28. janúar, lokar sundlaugin kl. 17:00 þann dag.
Opnum kát og hress kl. 10:00 á sunnudagsmorgninum og hlökkum til að taka á móti ykkur.
Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar.
Miðaafhending og sala þorrablótsmiða
Í dag, miðvikudaginn 25. jan. og á morgun fimmtudaginn 26. jan. fer fram afhending og sala þorrablótsmiða í anddyrinu í íþróttahúsinu.
Miðvikudag á milli kl. 16-20
Fimmtudag á milli kl. 18-22
Posi verður EKKI til staðar, en hægt verður að fá reikningsupplýsingar og millifæra á staðnum fyrir þá sem það kjósa. Einungis greiddir miðar verða afhentir.
ATH! Ef ske kynni að einhver hefur gleymt sér og ekki pantað miða, þá eru örfáir miðar eftir til sölu. Hafið samband við formann í síma 863-1271.
Söfnun fyrir fjölskyldu í sveitinni
Komið þið sæl.
Í upphafi árs fór Sigurbjörn Árni Guðmundsson til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni og gekkst Sigurbjörn, eða Bubbi eins og hann er alltaf kallaður, undir opna hjartaaðgerð þar sem skipt var um lungnaæð.
Bubbi fæddist með hjartagalla og þurfti að fara í flóknar aðgerðir sem lítill drengur. Fyrir áramót glímdi hann við bakteríusýkingu í blóði sem erfitt var að uppræta. Hann dvaldi því meira og minna á Barnaspítala Hringsins og barnadeild SAk.
Nú er fjölskyldan komin heim og við tekur endurhæfing með öllu því sem henni fylgir.
Við minnum á söfnun sem er í gangi en henni lýkur í byrjun febrúar.
Þeir sem vilja leggja málefninu lið eru beðnir um að leggja inn á reikninginn
565-14-209, kt. 691018-0320.