Auglýsingablaðið

1116. TBL 09. nóvember 2022

Auglýsingablað 1116. tbl. 14. árg. 9. nóvember 2022.


Sveitarstjórnarfundur
599. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 17. nóvember og hefst hann kl. 8:00. Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.


Ölduhverfi í landi Kropps, Eyjafjarðarsveit – kynning aðal- og deiliskipulagstillögu á vinnslustigi
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum 8. september 2022 að kynna drög að aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir Ölduhverfi í landi Kropps fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í aðalskipulagstillögunni felst að byggingarheimildir á íbúðarsvæði ÍB8 í landi Kropps eru auknar úr 80-100 íbúðum í 213 íbúðir. Auk þess koma í aðalskipulagstillögunni fram skilmálar um íbúðargerðir, yfirbragði byggðar og áfangaskiptingu uppbyggingar á svæðinu. Í deiliskipulags-tillögunni eru skilgreindar lóðir fyrir alls 23 fjölbýlishús, 15 raðhús og 8 einbýlishús. Lóðirnar skiptast upp í fjóra framkvæmdaráfanga upp á 50-60 íbúðir. Deiliskipulagstillagan gerir einnig grein fyrir vegtengingu íbúðarsvæðisins við götu- og stígakerfi Hrafnagilshverfis og staðsetningu hreinsivirkis fráveitu.

Skipulagstillögurnar eru aðgengilegar á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 4. nóvember og 1. desember 2022, sem og á heimasíðu sveitarfélagsins, esveit.is. Meðan á kynningartímabilinu stendur gefst almenningi kostur á að koma ábendingum eða athugasemdum vegna skipulagstillögunnar á framfæri við skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins.

Opinn kynningarfundur vegna verkefnisins fer fram í matsal Hrafnagilsskóla, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, kl. 20:00 fimmtudaginn 17. nóvember 2022. Þar munu fulltrúar sveitarstjórnar og aðstandenda verkefnisins kynna skipulagstillögurnar og svara fyrirspurnum um málið frá fundargestum.

Ábendingar og athugasemdir skulu berast skriflega ekki síðar en fimmtudaginn 1. desember 2022 til skipulagsfulltrúa í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is eða með bréfpósti til Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar bs., Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, 605 Akureyri.

Skipulagsfulltrúi.



HÆLIÐ
verður lokað um helgina 12. og 13. nóv. og laugardaginn 19. nóv. en svo verður veisla þann 20. nóv! Við opnum formlega Svanhildarstofu og fögnum útgáfu bókar Ólafs Ragnars Grímssonar „Bréfin hennar mömmu“. Ólafur flytur ávarp og les upp úr bókinni kl. 14:00 og 15:00. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Frítt inn á sýninguna.



Karíus og Baktus í Freyvangsleikhúsinu
Bræðurnir sem allir þekkja, þeir búa í tönnunum á honum Jens og eru honum til mikils ama. En þeim hefnist fyrir þegar Jens gerir eins og mamma hans segir honum.
Frumsýning 26. nóvember kl. 13:00.
Nánar um sýningar og miðasala á tix.is eða í síma 857-5598.



Dagur íslenskrar tungu og afmælishátíð Hrafnagilsskóla
Kæru sveitungar.
Miðvikudaginn 16. nóvember verður Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Hrafnagilsskóla. Hátíðin hefst klukkan 13:00 í íþróttasal skólans og stendur til kl. 15:00. Að þessu sinni verður hátíðin óhefðbundin í tilefni af 50 ára afmæli Hrafnagilsskóla og kemur Tónlistarskóli Eyjafjarðar að skemmtuninni. Þess má til gamans geta að 30 ár eru síðan skólar ,,gömlu hreppanna” sameinuðust.

Nemendur flytja atriði í tali og tónum sem tengjast þema dagsins sem að þessu sinni er ,,tíminn“. Nemendur í 7. bekk hefja formlega undirbúning fyrir ,,Stóru upplestrarkeppnina” og lesa upp ljóð eftir Emilíu Baldursdóttur á Syðra-Hóli. Nemendur í 5.-10. bekk sýna dansa sem þeir hafa lært hjá Elínu Halldórsdóttur danskennara nú á haustönn og tengjast þeir einnig þemanu.

Að skemmtidagskrá lokinni verður gestum boðið upp á afmæliskökur. Kaffihúsastemning verður í Hjartanu og stofum 6, 7 og 9 og þar verður hægt að tylla sér niður með bakkelsið, hlusta á tónlistaratriði og fá sér kaffisopa eða ávaxtasafa. Afrakstur þemadaganna verður til sýnis víða um skólann.

Nemendur 10. bekkjar ætla að selja fallegar gjafavörur frá Vorhús og henta þær vel t.d. sem jólagjafir. Vörurnar kosta frá 1.000 til 4.000 kr. Athugið að enginn posi er á staðnum.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
Við hvetjum sveitunga til að heimsækja okkur í skólann þennan dag.
Nemendur og starfsfólk Hrafnagilsskóla

 


Fiskikvöld
Karlakór Eyjafjarðar stendur fyrir Fiskikvöldi í Skeifunni, sal Hestamannafélagsins Léttis í reiðhöllinni, föstudaginn 18. nóv. kl. 19:00. Boðið verður uppá siginn fisk, Þórustaða kartöflur, hamsatólg og heimabakað rúgbrauð. Þá verða drykkjarföng við hæfi til sölu. Kaffi og konfekt á eftir. Kórinn syngur nokkur lög og eins verður fjöldasöngur og kannski fleira skemmtilegt. Verð. 3.500 kr.



Leiðarlýsing 2022
Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi stendur fyrir leiðarlýsingu í kirkjugörðunum í Eyjafjarðarsveit eins og undanfarin ár.
Krossar eru settir upp fyrsta sunnudag í aðventu. Þeir sem hafa leigt krossa undanfarin ár þurfa aðeins að tilkynna ef þeir hyggjast hætta lýsingu, annars eru krossar settir á sömu leiði og síðast. Gjald fyrir hvern kross er kr. 3.800.- Panta skal leigu á nýjum krossum hjá Hirti í síma 894-0283 eða Stefáni í síma 864-6444. Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi.




Sumri hallar - kvöldstund í Laugarborg í tali og tónum
Sunnudagskvöldið 13. nóvember kl. 20:00 mun róleg stemning ríkja í Laugarborg. Þá ætlar Hrund Hlöðversdóttir að syngja íslensk dægurlög og leika undir á harmonikku. Einnig mun hún kynna nýútkomna skáldsögu sína, ÓRÓI, krunk hrafnanna. Um er að ræða ungmennabók sem byggir á þjóðsagnaarfi Íslendinga.
Boðið verður upp á veitingar. Allir eru velkomnir og frítt inn.
Upplýsingar um nýju bókina má finna á heimasíðunni www.hrund.net



Iðunnarkvöld – handavinna og spjall í góðra kvenna hópi
Miðvikudaginn 16. nóv. kl. 20:00 verður Iðunnarkvöld í fundarherberginu í Laugarborg.
Nýjar konur velkomnar.
Kvenfélagið Iðunn.



Dagbókin Tíminn minn 2023
Kvenfélagið Iðunn er með dagbókina Tíminn minn 2023 til sölu á 4.000 kr.
Allur ágóði rennur í hjálparsjóð Iðunnar.

Dagbókin er fallega myndskreytt eftir íslensku listakonuna Björgu Þórhallsdóttur og er full af jákvæðni og góðum ráðum. Tilvalin í afmælis- og/eða jólagjöf handa ömmum, mömmum, dætrum, frænkum og vinkonum.

Nánari upplýsingar og pantanir hjá Hrönn í síma 866-2796 eða á idunnhab@gmail.com.

Getum við bætt efni síðunnar?