Auglýsingablað 1129. tbl. 14. árg. 9. febrúar 2022.
Hrafnagilshverfi, Eyjafjarðarsveit – kynning aðal- og deiliskipulagstillögu á vinnslustigi
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum 13. janúar sl. að kynna drög að aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir Hrafnagilshverfi fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsverkefnið hófst sumarið 2020 og er markmið þess að marka heildstæða stefnu fyrir uppbyggingu og þróun Hrafnagilshverfis til lengri tíma litið. Í aðalskipulagstillögunni felst að í landi Grísarár eru skilgreind ný íbúðarsvæði meðfram Eyjafjarðarbraut og í brekkunni ofan núverandi byggðar auk þess sem athafnasvæði er skilgreint á lóð Gömlu Garðyrkjustöðvarinnar á Grísará. Auk þess er skilgreint íbúðarsvæði á óbyggðu svæði milli Laugarborgar og Reykár. Í deiliskipulagstillögunni eru skilgreindar íbúðarlóðir fyrir 85 til 98 nýjar íbúðir sem skiptast í 33 einbýlishús, 29 til 42 íbúðir í raðhúsum og 23 íbúðir í fjölbýlishúsum, þar af níu íbúðir fyrir aldraða í viðbyggingu við fyrrum heimavist Hrafnagilsskóla. Í deiliskipulagstillögunni er einnig mörkuð stefna um yfirbragð byggðar, stíga- og götukerfi og útivistarsvæði. Gert er ráð fyrir nýrri íbúðargötu sunnan Skólatraðar auk þess sem ráðgert er að breyting verði á tengingu Ártraðar, Bakkatraðar og Meltraðar við götukerfi hverfisins.
Skipulagstillögurnar eru aðgengilegar á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 1. febrúar og 18. febrúar 2022 sem og á heimasíðu sveitarfélagsins, esveit.is. Meðan á kynningartímabilinu stendur gefst almenningi kostur á að koma ábendingum eða athugasemdum vegna skipulagstillögunnar á framfæri við skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins.
Kynning á skipulagstillögunum verður send út með beinu streymi á Facebook síðu sveitarfélagsins þriðjudaginn 15. febrúar nk. klukkan 17:00. Þar munu fulltrúar sveitarstjórnar kynna skipulagstillögurnar auk þess sem áhorfendum gefst kostur á að spyrja spurninga gegnum spjallþráð. Ábendingum og athugasemdum skal komið á framfæri í kjölfar kynningarinnar.
Ábendingar og athugasemdir skulu berast skriflegar ekki síðar en föstudaginn 18. febrúar 2022 til skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, Hrafnagilshverfi, 605 Akureyri eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.
Skipulags- og byggingarfulltrúi.
Land fyrir athafnasvæði norðan Miðbrautar
Sveitarfélagið leitar eftir að fá keypt land undir athafnasvæði. Leitað er eftir hið minnsta 10 hekturum á svæðinu norðan Miðbrautar, mikilvægt er að gott aðgengi sé að landinu frá Eyjafjarðarbraut.
Áhugasamir landeigendur hafi samband við sveitarstjóra í síma 463-0600 eða með tölvupósti á sveitarstjori@esveit.is.
Finnur Yngvi Kristinsson
Sveitarstjóri
Lamb Inn – Við höldum áfram með þriðjudagshádegin
Þriðjudaginn 15. febrúar kl. 12:00 mætir Sigurður Ingi Friðleifsson frá Orkusetri og ræðir um orkuskipti í samgöngum og landbúnaði.
Hvaða eldsneyti knýr landbúnaðinn í framtíðinni?
Léttur hádegisverður, kaffi og kökur á 2.500.
Gott er að panta fyrir fram í síma 463-1500 eða á lambinn@lambinn.is.
Iðunnarkvöld
Miðvikudaginn 16. febrúar nk. kl. 20:00 verður Iðunnarkvöld í fundarherberginu í Laugarborg.
Rædd verður Glasgowferðin sem farin verður í haust á ACWW þingið.
Nýjar konur velkomnar.
1. flokkur Kvenfélagsins Iðunnar.
Aðalfundur Kirkjukórs Laugalandsprestakalls
Aðalfundur Kirkjukórs Laugalandsprestakalls verður haldinn þann
28. febrúar kl. 21:30 í Laugarborg.
Stjórnin.