Auglýsingablaðið

1120. TBL 09. desember 2021

Auglýsingablað 1120. tbl. 13. árg. 9. desember 2021.



Leikskólinn Krummakot í Eyjafjarðarsveit
vill ráða starfsmann í hlutastarf. Umsóknarfrestur er til og með 10. des. 2021.
Um er að ræða 25% stöðu í eldhús og þrif, öðrum tilfallandi verkefnum sem og afleysingu á deildum.

Leikskólinn er í Hrafnagilshverfi, aðeins tíu kílómetra sunnan Akureyrar.

Við mat á umsóknum er horft til eftirfarandi:

• Lipurðar í samskiptum
• Íslenskukunnáttu
• Reynslu og/eða menntun sem nýtist í starfi

Frekari upplýsingar veitir Erna Káradóttir leikskólastjóri í síma 464-8120, netfang erna@krummi.is.

Umsóknarfrestur er til og með 10. des. 2021. Umsóknum skal fylgja ferilskrá og upplýsingar um meðmælendur. Umsóknir skal senda til leikskólastjóra á netfangið erna@krummi.is


Atvinna

Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar óskar eftir að ráða konu til starfa í vaktavinnu. Um er að ræða afleysingu í eitt ár. Starfshlutfall er 100%, en einnig kemur til greina að ráða 2 í hlutastarf.
Í starfinu felst m.a. sundlaugargæsla, afgreiðsla, þrif og baðvarsla. Starfsmenn íþróttamiðstöðvar sinna einnig verkefnum á tjaldsvæði á opnunartíma þess.

Viðkomandi verður að vera orðinn 18 ára, hafa hreint sakavottorð og geta staðist hæfnispróf sundstaða. Í starfi sundlaugarvarðar er nauðsynlegt að hafa athyglisgáfu í lagi, eiga auðvelt með að taka ákvarðanir og geta brugðist skjótt við ef slys ber að höndum. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð, þjónustulund, stundvísi og jákvæðni.

Næsti yfirmaður er forstöðumaður íþróttamiðstöðvar.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Umsóknarfrestur er til og með 3. janúar 2022.
Umsóknum þarf að fylgja ferilskrá og upplýsingar um meðmælendur.
Tekið er á móti umsóknum á netfangið sundlaug@esveit.is.

Nánari upplýsingar um starfið og fyrirkomulag vakta gefur Erna Lind í síma 895-9611.

 


Ferðaþjónusta á Leifsstöðum 2, Eyjafjarðarsveit – kynning aðal- og deiliskipulagstillögu á vinnslustigi

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 26. nóvember sl. að vísa aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir ferðaþjónustu á Leifsstöðum 2 í kynningarferli skv. 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í aðalskipulagstillögunni felst að verslunar og þjónustusvæði VÞ4 er stækkað úr 0,7 ha í 7,7 ha, íþróttasvæði ÍÞ2 fellt út og frístundasvæði F3b fært inn í skipulag. Deiliskipulagstillagan tekur til byggingar tveggja íbúðarhúsa, 1500 fm viðbyggingar við hótel, þriggja frístundahúsa, tíu gistihýsa, starfsmannahúss og aðstöðuhúss. Auk þess er gert ráð fyrir tjaldsvæði, götum milli húsa og landmótun á svæðinu.

Skipulagstillögurnar eru aðgengilegar á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 8. desember og 22. desember 2021 sem og á heimasíðu sveitarfélagsins, esveit.is. Meðan á kynningu stendur gefst almenningi kostur á að koma ábendingum vegna skipulagstillögunnar á framfæri við skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins.

Opið hús vegna kynningarinnar fer fram á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9, Hrafnagilshverfi, mánudaginn 13. desember milli kl. 12:00 og 15:00. Opið hús fer fram í samræmi við gr. 4.6.1. og 5.6.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og mun skipulags- og byggingarfulltrúi vera viðstaddur og veita upplýsingar um skipulagstillöguna og taka við ábendingum.

Skipulags- og byggingarfulltrúi.



Frá Félagi eldri borgara í Eyjafjarðarsveit
Þriðjudaginn 14. desember verður síðasta samvera okkar í Félagsborg á þessu ári. Þá mun Hrund Hlöðversdóttir, skólastjóri koma til okkar um kl. 15:30 og kynna bók sína Ógn. Einnig mun Hrund koma með harmonikkuna og spila fyrir okkur nokkur lög.
Við byrjum svo félagsstarfið á nýju ári þriðjudaginn 11. janúar.
Að lokum eru félagsmenn minntir á Litlujólin á Brúnum fimmtudaginn 9. des. kl. 19:00.
Stjórnin.

 


Vakin er athygli á lýðheilsustyrkjum

Frestur til að sækja um styrk er til og með 15. desember 2021.
Nánari upplýsingar um styrkina er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar > Umsóknir > listi yfir umsóknir er hægra megin á síðunni.

Íþrótta- og tómstundastyrkur barna 2021
Lýðheilsustyrkur eldri borgara
Styrkveitingar vegna keppnis- og æfingaferða

 

Jólatré og handverk
Helgi og Beate í Kristnesi verða með jólamarkaðinn sinn heima á hlaði þetta árið. Heima er sem sagt Kristnesbærinn (sem stendur sunnan undir þorpinu, fyrir þá sem ekki eru staðkunnugir). Eins og venjulega er boðið uppá jólatré, greinar og kransa af heimaræktuðum trjám af öllum gerðum. Auk þess allskonar handverk. Beate verður að störfum í smiðjunni um helgar frá kl. 13:00-15:00. Loks má geta þess að jólakanínurnar eru að semja skemmtiatriði fyrir samkomuna. Posi á staðnum. Opið um helgar frá 13:00-18:00 og líka síðustu daga fyrir jól, 20.-23. des. á sama tíma.


Kæru sveitungar

Við höldum enn í vonina og stefnum enn á þorrablót laugardaginn 29. janúar 2022.
Hver veit hvernig sóttvarnarreglur verða þá? Allavega ekki við.
Njótið aðventunnar.
Kveðja, þorrablótsnefndin.


Snyrtistofan Sveitasæla (Lamb Inn, Öngulsstöðum)

Gefðu þeim sem þér þykir vænt um gjafabréf í dekur á Snyrtistofunni Sveitasælu í jólapakkann. Til að kaupa þau eða panta tíma er best að hafa samband í síma 833-7888 eða senda skilaboð gegnum facebook síðu Snyrtistofunnar Sveitasælu.
Nánari upplýsingar um þær meðferðir sem eru í boði og verð eru einnig inná síðunni undir liðnum ÞJÓNUSTUR.
Er með hágæðavörur frá Comfort Zone og Skin Regimen í vinnuvöru og til sölu.
Er með opið til kl. 18:00 á mánudögum og miðvikudögum fyrir þá sem
komast ekki fyrr á daginn. Tímum fer fækkandi fyrir jólin.
Elín Halldórsdóttir snyrtifræðingur.

 


Leiðisgreinar til sölu

Lionsklúbburinn Sif ætlar fyrir jólin að bjóða til sölu fallegar jólaskreytingar á leiði og mun leiðisgreinin kosta 2.500 kr. Áhugasamir vinsamlega hafið samband fyrir 14. desember við undirritaðar fyrir pantanir og frekari upplýsingar. Greinarnar verða afhentar í Félagsborg mánudaginn 20. desember á milli klukkan 15:30 og 20:00.
Kristín Hermannsdóttir, sími: 846-2090, netfang: merkigil10@gmail.com. Elísabet Skarphéðinsdóttir, sími: 894-1303
Með kærri jólakveðju og þökk fyrir stuðninginn á árinu, Lionsklúbburinn Sif.

 

Aðalfundarboð Veiðifélags Eyjafjarðarár
Stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár starfar í samræmi við lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og á grundvelli samþykkta félagsins. Í 9. gr. samþykkta félagsins er kveðið á um hvaða mál skal taka fyrir á aðalfundi:

1. Skýrsla stjórnar fyrir reikningsárið 1/10 2019–30/9 2020 og reikningsárið 1/10 2020-30/9 2021.
2. Reikningar félagsins fyrir reikningsárið 1/10 2019–30/9 2020 og reikningsárið 1/10 2020-30/9 2021.
3. Rekstraáætlun fyrir næsta rekstrarár.
4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna.
5. Önnur mál.

Í samræmi við hlutverk okkar sem stjórnar Veiðifélags Eyjafjarðarár, samanber ofanritað, þá boðum við til aðalfundar í Veiðifélagi Eyjafjarðarár í Funaborg á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit 13. janúar 2022 klukkan 20:00.

Getum við bætt efni síðunnar?