Auglýsingablað 1114. tbl. 13. árg. 28. október 2021.
Sveitarstjórnarfundur
575. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 4. nóvember og hefst hann kl. 8:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Starf í heimaþjónustu
Eyjafjarðarsveit auglýsir eftir starfsmönnum í heimaþjónustu.
Félagsleg heimaþjónusta felur í sér margskonar aðstoð við einstaklinga á heimilum sínum sem geta ekki hjálparlaust sinnt daglegum verkefnum vegna öldrunar, veikinda, álags eða fötlunar. Áhersla er lögð á persónulega þjónustu þar sem samskipti og virðing eru höfð í fyrirrúmi. Aðstoð við þrif og önnur heimilisstörf er stórt verkefni í heimaþjónustu en einnig er um að ræða verkefni tengd félagslegum stuðningi og önnur aðstoð og stuðningur. Starfsmaður í heimaþjónustu þarf að vera hvetjandi og jafnframt sýna umburðarlyndi og skilning á aðstæðum þjónustuþega.
Hæfniskröfur:
• Framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum og jákvæðni
• Áhugi og/eða reynsla af að starfa með öldruðum og fötluðum
• Frumkvæði, sveigjanleiki og geta til að vinna sjálfstætt
• Almenn kunnátta við þrif og önnur heimilisstörf
• Stundvísi og heiðarleiki
• Góð íslenskukunnátta
• Gild ökuréttindi og þarf að hafa bíl til umráða
Til greina kemur að ráða tvo starfsmenn í hlutastarf eða einn í fullt starf. Samið hefur verið um fulla vinnustyttingu og er fullt starf því 36 klst. á viku og getur vinnutími verið sveigjanlegur.
Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og hlutaðeigandi stéttarfélags.
Umsóknarfrestur er til og með 4. nóvember 2021.
Umsóknir ásamt ferilskrá sendist á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar merktar „starf í heimaþjónustu“ á netfangið esveit@esveit.is. Nánari upplýsingar um starfið eru veittar á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar í síma 463-0600 eða esveit@esveit.is.
Guðsþjónusta í Möðruvallakirkju 31. október kl. 11:00
Frelsi nú og þá - Siðbótardagur
Erum við frjáls að gera það sem við viljum? Hvernig getum við gert öðrum gott og verndað náttúruna til dæmis? Um það snérist siðbótin á sínum tíma. Um það ætlar sr. Guðmundur að ræða í hálfkaþólsku kirkjunni á Möðruvöllum í Eyjafirði sem helguð var heilögum Marteini. Þorvaldur Örn Davíðsson organisti leiðir kórinn sem syngur m.a. sálm Marteins Lúthers sibótarmanns: Vor Guð er borg á bjargi traust. Og lag og ljóð Valgeirs Guðjónssonar: Kveiktu á ljósi hvar sem þú ert.
Allir hjartanlega velkomnir.
Íbúar fá frítt í sund í nóvember
Landsátak verður í sundi í nóvember og hefur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar ákveðið í tengslum við það að bjóða íbúum sveitarfélagsins frítt í sund allan mánuðinn. Þeir sem eiga árskort fá kortinu sínu sjálfkrafa framlengt um einn mánuð í tilefni þessa og þurfa því ekki að óska sérstaklega eftir því.
Félag eldri borgara
Kæru félagar. Þriðjudaginn 2. nóv. kl. 14:00 kemur Valdimar Gunnarsson í Rein, til okkar og segir okkur frá ýmsum atburðum hér úr sveit á árum áður. Mætum sem flest. Stjórnin.
Freyvangsleikhúsið - næstu sýningar
Smán verður sýnt föstudaginn 29. október og laugardaginn 30. október - Októberfest og tilboð á barnum.
Miðasala á tix.is og í síma 857-5598.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Allur ágóði rennur til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis
Bleikar laxaflugur frá BM flugum, til sölu út okt. á 1.000 kr./stk.
Ákveðið hefur verið að láta 1.000 kallinn renna óskiptan til styrktar KAON. Pantanir í síma 866-2796 eða hronn1971@gmail.com, Hrönn.
Kvenfélagið ALDAN
Félagsfundur! Loksins!
Staðsetning og tími: Stafn - Jódísarstaðir 4 - miðvikud. 3. nóv. kl. 19:30.
Fundarefni: Hittast og hafa gaman saman, læra að gera súrdeigsbrauð og borða súrdeigsbrauðssnittur.
Hlökkum til að sjá sem flestar. Áhugasamar konur innilega velkomnar að kynna sér starfið okkar. Hannyrðir og bakstur ekki skilyrði til að vera í kvenfélagi.
Time to meet up and we look forward to see you! We are team of women meet up and support the community in all kinds of projects. What do you gain? Good company, more involved in the community, grow your local connection. New members welcome.
Besta kveðja, stjórnin.
Ps: Á árabilinu 2018-2020 hafa kvenfélagskonur á Íslandi lagt til 179 milljónir króna til samfélagsverkefna. Við erum stoltar og flottar kvenfélagskonur sem alltaf má leita til með stórt og smátt.
Opnar dyr í Eyjafjarðarsveit
Ferðamálafélagið auglýsir eftir þátttakendum á Opnar dyr þann 4. des. næstkomandi. Þeir sem ekki geta opnað hjá sér geta annað hvort haft samband við ferðaþjónustuaðila sem hefur opið og athugað með samstarf eða fengið aðstöðu í Laugarborg. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku fyrir 15. nóvember á netfangið ferdamal@esveit.is og tilgreinið hvort þið viljið vera í Laugarborg, hjá öðrum ferðaþjónustuaðila eða heima hjá ykkur. Meðlimir Matarstígs Helga magra hvattir til að taka þátt sem og handverksfólk og aðrir sem vilja kynna og selja vöru sína og gjafabréf
Hlökkum til. Stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar.
Kæru sveitungar
Þetta er að fara að gerast. Við höldum í vonina, þið haldið í vonina og vonandi höldum við svo þorrablót laugardaginn 29. janúar 2022. Það er allavega á stefnuskrá þorrablótsnefndar.
Setjið X við laugardaginn 29. janúar 2022!!!
Kveðja, þorrablótsnefndin.