Auglýsingablaðið

1112. TBL 14. október 2021

Auglýsingablað 1112. tbl. 13. árg. 14. október 2021.


 Sveitarstjórnarfundur

574. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 21. október og hefst hann kl. 8:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.


Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar
Hafin er vinna við gerð fjárhagsáætlunar Eyjafjarðarsveitar fyrir árin 2022-2025. Því er auglýst eftir erindum, umsóknum, tillögum og ábendingum íbúa, félagasamtaka og fyrirtækja í Eyjafjarðarsveit um mál sem varða gerð fjárhagsáætlunar.

Þeir aðilar sem vilja koma með erindi, umsóknir, tillögur og/eða ábendingar er bent á að senda þær á esveit@esveit.is í síðasta lagi 28. október 2021.



Uppskeruhátíð í Grundarkirkju við guðsþjónustu sunnud. 17. okt. kl. 11:00
Haustið með litadýrð og uppskeru af jörðum gefur tilefni til þakklætis.
Sr. Guðmundur flytur hugvekju um umhverfi og sköpun Guðs í anda keltneskrar kristni. Kórinn undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar kynnir nýlega sálma um sköpun Guðs og þakklæti.


Snyrtistofan Sveitasæla (Öngulsstöðum)
Er með allar helstu snyrtimeðferðir í boði fyrir konur og kalla.
Minni á að ef þið hafið minnstu kvefeinkenni að afbóka tíma, aðeins hefur borið á því að viðskiptavinir eru að koma með kvef og tilkynna mér að þeir séu ekki með covid. Ég er í mikilli nánd við viðskiptavinina og ef ég fæ venjulegt kvef get ég heldur ekki mætt til vinnu.
Er með gjafabréf sem henta við öll tækifæri, til að nálgast þau eða panta tíma er best að hafa samband í síma 833-7888 eða senda skilaboð gegnum facebooksíðu Snyrtistofunnar Sveitasælu https://www.facebook.com/snyrtistofansveitasaela. Nánari upplýsingar um þær meðferðir sem eru í boði og verð eru einnig á síðunni undir liðnum ÞJÓNUSTUR. Er með hágæðavörur frá Comfort Zone og Skin Regimen í vinnuvöru og til sölu.
Tímapantanir í síma 833-7888 milli kl. 9:00-17:00 á daginn. Símsvari eftir opnunartíma.
Elín Halldórsdóttir, snyrtifræðingur.



Freyvangsleikhúsið lifnar við
Leikritið Smán eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur verður frumsýnt 22. október en verkið er afrakstur handritasamkeppni leikfélagsins vorið 2019. Við kynnumst sex ólíkum einstaklingum og lífi þeirra eina langa helgi á barnum þar sem við rekumst á raunveruleikann svo blæðir undan en höldum samt brjálað kombakkpartí með nýjasta stöddinum á svæðinu.
Miðasala á tix.is og í síma 857-5598.
Nánari upplýsingar á fésbókarsíðu Freyvangsleikhússins og á freyvangur.is.
Hlökkum til að sjá ykkur!

 


Bókasafn Eyjafjarðarsveitar

Vegna vetrarleyfis í skólanum er bókasafnið lokað þriðjudaginn 19. október.

Venjulegir opnunartímar safnsins eru:
Þriðjudaga frá 14:00-17:00
Miðvikudaga frá 14:00-17:00
Fimmtudaga frá 14:00-18:00
Föstudaga frá 14:00-16:00

Á safninu er fjöldi bóka, tímarita og upplýsingaefnis, bæði til útláns, lestrar og skoðunar á staðnum. Komið við á bókasafninu og kynnið ykkur hvað þar er að finna.
Bókasafnið er staðsett í kjallara íþróttahúss Hrafnagilsskóla og er gengið inn að austan. Ekið er niður með skólanum að norðan.



Bleika flugan til styrktar KAON
Er með einstakar bleikar laxaflugur frá BM flugum til sölu á 1.000 kr./stk. 50% af andvirði hverrar seldrar flugu fer til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.
Pantanir í síma 866-2796 eða hronn1971@gmail.com, Hrönn.



Skilaboð til þeirra sem keyptu fisk og pappír af nemendum í 10. bekk
Undanfarna daga hafa nemendur í 10. bekk farið um sveitina og selt pappír og fisk. Hluti nemenda ákvað að bíða með að afhenda pappírinn þar til fiskurinn yrði einnig kominn í hús. Nú er ljóst að ekki er hægt að afhenda fiskinn á allra næstu dögum vegna bilunar í vélum hjá söluaðilum. Nemendur munu því afhenda pappírinn fljótlega og fiskinn um leið og hann kemur.
Bestu kveðjur og þakkir fyrir biðlundina, nemendur í 10. bekk í Hrafnagilsskóla.

 

Getum við bætt efni síðunnar?