Auglýsingablað 1108. tbl. 13. árg. 16. september 2021.
Sveitarstjórnarfundur
572. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 23. september og hefst hann kl. 8:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Kjörfundur vegna Alþingiskosninga 25. september 2021
Kjörskrá Eyjafjarðarsveitar
Kjörskrá fyrir Eyjafjarðarsveit, vegna Alþingiskosninga 25. september 2021, liggur frammi frá 15. september, almenningi til sýnis, á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar að Skólatröð 9, á venjulegum opnunartíma skrifstofunnar, sem er frá kl. 10:00-14:00.
Einnig er bent á vefinn www.kosning.is en þar er á auðveldan hátt hægt að nálgast upplýsingar um hvort og hvar einstaklingar eru á kjörskrá.
Kjörfundur í Eyjafjarðarsveit
Kjörfundur verður í Hrafnagilsskóla þann 25. september og hefst hann kl. 10:00 og lýkur kl. 22:00.
Á kjörstað gerir kjósandi grein fyrir sér með framvísun skilríkja eða á annan fullnægjandi hátt.
Á kjördegi hefur kjörstjórn aðsetur í Hrafnagilsskóla, sími 464-8100 eða 894-1372.
Þeir sem eiga erfitt með gang mega aka að inngangi skóla.
F.h. kjörstjórnar, Einar Grétar Jóhannsson.
Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna Eyjafjarðarsveitar 2021
Umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar hefur reglubundið veitt verðlaun fyrir framúrskarandi umgengni og snyrtimennsku. Nefndin óskar hér með eftir tilnefningum frá íbúum Eyjafjarðarsveitar fyrir annars vegar fyrirtæki eða bújörð og hins vegar fyrir íbúðarhús og nærumhverfi þess. Einnig má gjarnan koma ábendingum á framfæri til nefndarinnar um einstaklinga sem hafa beitt sér sérstaklega í þágu umhverfismála í Eyjafjarðarsveit. Tilnefningar og ábendingar þurfa að berast fyrir 1. október til skrifstofu Eyjafjarðarsveitar, í síma 463-0600 eða á esveit@esveit.is.
Umhverfisnefndin.
BREYTTUR OPNUNARTÍMI Á GÁMASVÆÐI !!
Frá og með 4. október breytist opnunartími gámasvæðisins. Verður þá opið á fimmtudögum í stað föstudaga og er með því verið að tryggja að mögulegt sé að tæma gámana fyrir opnun svæðisins á laugardögum.
Opnunartími gámasvæðisins frá 4. október verður því eftirfarandi:
Þriðjudagar 13:00-17:00
Fimmtudagar 13:00-17:00
Laugardagar 13:00-17:00
Sveitarstjóri.
Leikskólinn Krummakot - Afmælissýning í Aldísarlundi
Í tilefni af 34 ára afmæli leikskólans Krummakots verður afmælissýning í Aldísarlundi dagana 14.-17. september sem ber heitið: Skordýrin í skóginum.
Frá Félagi eldri borgara í Eyjafjarðarsveit
Fyrsta samvera okkar verður þriðjudaginn 21. sept. kl. 13:00 í Félagsborg.
Nýir félagar 60 ára og eldri eru hjartanlega velkomnir. Komið endilega og kynnið ykkur fjölbreytt starf félagsins.
Íþróttatímar falla niður meðan viðgerð stendur yfir í íþróttahúsi – nánar auglýst síðar.
Stjórnin.
Kyrrðarstund í Saurbæjarkirkju
- að kvöldi dags við íhugun og bæn 19. sept. kl. 20:00.
Sungnir verða Taizé söngvar og aðrir íhugunarsöngvar og leiðbeint um kyrrðarbæn til að fá næði í sál og sinni. Sr. Guðmundur flytur hugvekju um íhugunaraðferðir kirkjunnar og leiðbeinir hvernig nota má þær í daglegu lífi. Þorvaldur Örn Davíðsson organisti ásamt kórfélögum leiða sönginn.
Birkifræsöfnun í Kristnesskógi – opinn viðburður í dag 16. sept. kl. 17:00-19:00
Í dag fimmtudaginn 16. september á degi íslenskrar náttúru, kl. 17:00-19:00, mun Lionsklúbburinn Sif standa fyrir birkifræsöfnun í Kristnesskógi og í boði verður að kaupa hressingu á Hælinu.
Söfnunarbox verða afhent við innganginn hjá Kristnesspítala og Hælisins og tekið við þeim aftur þar að söfnun lokinni. Við hvetjum fjölskyldur, vini og vandamenn til að gera sér glaðan dag í Kristnesskógi.
„Birkifræsöfnun, landsátak í söfnun birkifræs“ á vegum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Samstarfsaðilar þeirra í birkisöfnunarverkefninu eru Terra, Prentmet Oddi, Bónus, Landvernd, Skógræktarfélag Íslands, Kópavogsbær, Skógræktarfélag Kópavogs, Heimilistæki, Tölvulistinn, Kvenfélagasamband Íslands og Lionshreyfingin.
Nýir kórfélagar hjartanlega velkomnir
Á mánudagskvöldum í vetur æfir kirkjukórinn frá kl. 20:00-22:00 í Laugarborg.
Við getum bætt við okkur í allar raddir þó sérstaklega karlaraddir.
Allir áhugasamir hafi samband við Þorvald Örn kórstjóra í síma 846-9202.
Fjallahjólanámskeið fyrir krakka 23.september klukkan 17:00-19:00
Lýðheilsunefnd stendur fyrir og býður áhugasömum grunnskólanemendum í Eyjafjarðarsveit á fjallahjólanámskeið fyrir krakka í samstarfi við hjólreiðafélag Akureyrar (HFA) fimmtudaginn 23. september klukkan 17:00-19:00.
Námskeiðið hefst við Hrafnagilsskóla.
Lýsing: Farið verður yfir grunnatriði fjallahjólreiða. Byrjað á yfirferð á hjólinu sjálfu og hvaða atriði þurfa að vera í lagi þannig að hjólið sé öruggt. Síðan verða verklegar æfingar undir leiðsögn á plani, farið yfir rétta stöðu á hjólinu, hvernig farið er í gegn um beygjur og hvernig á að bremsa. Að því loknu verður farið yfir þrautir sem finnast í nærumhverfinu.
Kennarar: Elín Auður Ólafsdóttir, Magnús Smári Smárason, Sara Ómarsdóttir.
Hámarksfjöldi þátttakenda 21.
Aukanámskeið verður í boði ef fjöldi áhugasamra fer umfram hámarksfjölda.
Skráning á esveit@esveit.is með yfirskriftinni Fjallahjólanámskeið.