Auglýsingablað 1104. tbl. 13. árg. 19. ágúst 2021.
Sveitarstjórnarfundur
570. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 26. ágúst og hefst hann kl. 8:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Gangnadagar 2021
1. göngur verða gengnar 3.-5. september.
2. göngur verða tveim vikum síðar þ.e. 17.-19. september.
Hrossasmölun verður föstudaginn 1. október. Stóðréttir verða 2. október.
Álagning fjallskila 2021
Þeir sem halda allt sauðfé og öll hross heima eru beðnir að tilkynna það til skrifstofu Eyjafjarðarsveitar í seinasta lagi sunnudaginn 22. ágúst með tölvupósti á póstfangið esveit@esveit.is eða í síma 463-0600. Lagt verður á eftir forðagæsluskýrslum þeirra sem sleppa á afrétt. Þá verður lagt á eftirgjald í fjallskilasjóð kr. 60 fyrir hverja kind og hvert hross sömu aðila.
Upphaf kirkjustarfs í Eyjafjarðarsveit í haust
Þótt enn ríki einmuna sumarblíða hér í sveit horfum við í kirkjunni til nýs misseris og er það einlæg von mín og trú að hægt verði að halda úti hefðbundnu helgihaldi og safnaðarstarfi hér í sveit í vetur, ólíkt síðasta vetri. Sjálf verð ég í barnsburðarleyfi en sný aftur til starfa 1. mars 2022. Sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur leysir mig af og netfangið hjá honum er: gudmundur.gudmundsson@kirkjan.is og síminn: 897-3302. Nánari upplýsingar um helgihald í haust verða birtar með góðum fyrirvara.
Eydís Ösp Eyþórsdóttir djáknakandídat og verkefnastjóri í Glerárkirkju mun annast fermingarfræðslu og barnastarf. Netfangið hjá henni er: eydisosp@glerarkirkja.is. Nánari upplýsingar um fermingarfræðsluna ættu nú þegar að hafa borist til foreldra barna fædd 2008. Hópastarf fyrir tíu til tólf ára börn hefst í byrjun október. Að lokum vil ég minna á að prestar Akureyrarkirkju eru einnig til þjónustu reiðubúnir og hægt að leita til þeirra vegna athafna, sálgæslu sem og annarra erinda.
Bestu kveðjur, Jóhanna prestur.
Frá Félagi eldri borgara í Eyjafjarðarsveit
Haustferð Félags eldri borgara í Eyjafjarðarsveit verður farin fimmtudaginn 2. september nk. með fyrirvara um hugsanlegar breytingar vegna Covid 19.
Farið verður um Suður-Þingeyjarsýslu. Viðkomustaðir eru m.a. Gallerí Surtla á Stórutjörnum, Stöng í Mývatnssveit, en þar verður borðuð súpa og Svartárkot í Bárðardal. Þá verður ekið að Aldeyjarfossi og Hrafnabjargafossi. Miðdegiskaffi og kvöldverður verður í Kiðagili. Leiðsögumaður verður Sigurður Pálsson bóndi á Lækjarvöllum. Áætlað verð á mann er kr. 10.000,-. Tilkynning um þátttöku þarf að berast fyrir 21. ágúst til Reynis, sími 862-2164, Jófríðar, sími 846-5128 eða Ólafs, sími 894-3230.
Ferðanefndin.
Kleinupoki í verðlaun!
Nú þegar haustið er á næsta leyti þá er komið að því að kenna réttu handbrögðin við ýmsa matreiðslu og bakstur í Hrafnagilsskóla. Þessi appelsínuguli pottjárnspottur reyndist afar gagnlegur við það og er sárt saknað en hann stakk af úr matreiðslustofunni hérna eitt sumarið fyrir Handverkshátíð.
Finnandi er vinsamlega beðinn um að koma pottinum til Þóru Víkings í Hrafnagilsskóla svo hægt sé allavega að steikja kleinur í fundarlaun.