Auglýsingablaðið

1078. TBL 04. febrúar 2021

Auglýsingablað 1078. tbl. 13. árg. 4. feb. 2021.



Ferðmálafélag Eyjafjarðarsveitar
heldur félagsfund á zoom miðvikudaginn 10. febrúar kl. 20:30-21:30.
Okkur langar að heyra í ykkur hljóðið og segja aðeins frá því sem stjórnin er að bralla þessa dagana og kynna fyrir ykkur hópfjármögnun á Eddu risakú.
Hlökkum til að sjá sem flesta!
Hér er hlekkur á fundinn:
https://zoom.us/j/93083149958?pwd=cHMzL2ltVUNpb1pNOWxOT0VHQldNQT09
Stjórnin.



Árshátíð miðstigs

Fimmtudaginn 11. febrúar næstkomandi verður árshátíð miðstigs Hrafnagilsskóla. Nemendur völdu að gera stuttmynd þar sem ekki er hægt að halda hefðbundna sýningu sökum samkomutakmarkana. Stuttmyndin er byggð á myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga (sem gerist að hluta til á Húsavík og skartar Will Ferrell og Racher McAdams í aðalhlutverkum) en stuttmynd miðstigsins fékk nafnið Hrafnagilsvision: Eldsaga.
Allir nemendur miðstigs taka þátt í myndinni því auk þess að leika, dansa og syngja sjá nemendur miðstigs um búninga, förðun, leikmynd, leikskrá, allar upptökur og tæknivinnu.
Nemendur miðstigs bjóða til sölu ,,heimabíópakka” sem inniheldur slóð á stuttmyndina, rafræna leikskrá, hugmyndir að góðu heimakvöldi og óvæntan glaðning. Pakkinn kostar 1.000 krónur og pantanir þurfa að berast til Nönnu á nanna@krummi.is fyrir þriðjudaginn 9. febrúar. Ágóðinn verður nýttur fyrir nemendur miðstigs, t.d. í lyftugjöld í skíðaferð, Reykjaskólaferð, dagsferð nemenda í 4. bekk og fleira skemmtilegt.
Við þökkum stuðninginn, nemendur miðstigs Hrafnagilsskóla.



Neyðarkall
Árlegri neyðarkallasölu var frestað í nóvember en nú látum við slag standa!
Við leggjum af stað með Neyðarkall 2020 núna 4.-7. febrúar.
Vopnuð grímum, hönskum, spritti, hæfilegri fjarlægð og góða skapinu keyrum við galvösk um sveit og þorp með kallinn og hundinn hans.

Kallinn kostar 2.500 kr. og hver króna skiptir gríðarlegu máli fyrir litla sveit.
Hvetjum alla til að versla við sína heimasveit þar sem ágóðinn rennur til þeirrar sveitar sem selur, en ekki í heildarsjóð Landsbjargar.

Með von um góðar móttökur úr hæfilegri fjarlægð.
Hjálparsveitin Dalbjörg

Getum við bætt efni síðunnar?