Auglýsingablaðið

1035. TBL 26. mars 2020

Auglýsingablað 1035. tbl. 12. árg. 26. mars 2020.



Heimsending á matvörum til áhættuhópa á tíðum Covid-19

Kæru sveitungar, á fundi sínum ákvað sveitarstjórn að sveitarfélagið muni sjá til þess að þeir sem í áhættuhópi eru geti leitast eftir að fá aðstoð með heimsendingu á matvælum. Hér eru frekari upplýsingar um útfærsluna og hvernig hægt er að sækja um þjónustuna.

Sótt er um þjónustuna með því að hringja á skrifstofuna í síma 463-0600 eða senda tölvupóst á esveit@esveit.is.

Sveitarfélagið mun sjá um að sækja matarpantanir í matvöruverslanir fyrir þá sem það þurfa og senda það heim til þeirra. Sendingar verða þá skildar eftir við útidyrahurð viðkomandi og hann látinn vita.

Viðkomandi sér sjálfur um að panta vörurnar á vefsíðu viðkomandi verslunar og greiðir fyrir þær í leiðinni. Að svo stöddu er eingöngu ein matvöruverslun á Akureyri sem býður uppá pantanir á netinu og er það Nettó en vefslóðin er www.aha.is/verslun/netto-akureyri.

Eigi viðkomandi aðili í erfiðleikum með að nota netið til þessa verks er hægt að hringja á skrifstofu sveitarfélagsins eftir aðstoð.

Heimsendingar verða til að byrja með einu sinni í viku, á þriðjudögum.

Til að tryggja að vörurnar séu tilbúnar til afhendingar á réttum tíma er æskilegt að panta þær með nokkurra daga fyrirvara og velja afhendinguna kl. 11:00 á þriðjudegi.

Ekkert er greitt fyrir þjónustu sveitarfélagsins í þessum efnum, eingöngu fyrir vörurnar sjálfar við pöntun.

Hér er nánari útskýring á ferlinu til að framkvæma pöntun:

1. Panta vörur í vefverslun Nettó og greiða fyrir þær.
a. Velja að fá pöntun afhenta klukkan 11:00 á þriðjudagsmorgni.
2. Láta sveitarfélagið vita á esveit@esveit.is eða í síma 463-0600 að pöntun hafi átt sér stað.
3. Taka á móti pöntunum við útidyrnar heima.

Bestu kveðjur, Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri.



Sumarstarf - Flokkstjóri vinnuskóla
Eyjafjarðarsveit óskar eftir starfsmanni í stöðu flokkstjóra vinnuskóla í sumar.
Starf flokkstjóra felst í að stjórna starfi nemenda vinnuskólans, leiðbeina nemendum og fræða þá um rétt vinnubrögð og verkþætti í starfinu, halda skýrslu um mætingar og ástundun nemenda og vinna markvisst að því að efla liðsheild og góða líðan nemenda í vinnuskólanum.
Starfstími vinnuskólans er 9 vikur, frá byrjun júní fram í ágúst.
Leitað er að einstaklingi sem er góð fyrirmynd, stundvís og vinnusamur, sjálfstæður, skipulagður og sýni frumkvæði í starfi.
Reynsla af starfi með unglingum er kostur. Bílpróf er skilyrði.
Umsóknarfrestur er til og með 12. apríl 2020. Umsóknir sendist á esveit@esveit.is eða í bréfpósti á Eyjafjarðarsveit, Skólatröð 9, 605 Akureyri.



Bókasafn Eyjafjarðarsveitar

Eins og staðan er í dag er bókasafnið eingöngu opið á þriðju-, miðviku- og fimmtudögum frá kl. 16:00-19:00. Þetta getur þó breyst með mjög stuttum fyrirvara og verður þá auglýst á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar: esveit.is. Að sjálfsögðu ber að viðhafa þær varúðarráðstafanir sem mögulegt er, t.d. handþvott og sprittun áður en komið er inn á safnið og áður en farið er út aftur. Þær bækur sem koma inn eru sótthreinsaðar eins og kostur er og fara ekki í útlán strax. Síðasti dagur fyrir páskalokun er fimmtudagurinn 2. apríl og safnið opnar aftur að öllu óbreyttu þriðjudaginn 14. apríl.



FRESTAÐ - Aðalsafnaðarfundi Saurbæjarsóknar
sem fyrirhugaður var fimmtudaginn 26. mars, hefur verið frestað.
Fyrir hönd stjórnar, Auður Thorberg.



Matjurtir í vannýtt land

Matarstígur Helga magra hefur áhuga á því að kortleggja möguleika sveitunga á því að rækta matjurtir í sumar í tengslum við bændamarkaði matarstígsins.
Matarstígurinn opnar tækifæri til að koma uppskerunni í verð og tækifæri til að glæða samfélagið lífi.
Þeir landeigendur sem hyggjast rækta matjurtir í sumar og hafa áhuga á samstarfi við Matarstíg Helga magra, eða hafa land aflögu til láns eða leigu til áhugasamra aðila, eru beðnir um að hafa samband við Kalla á netfanginu matarstigur@simnet.is eða í síma 691-6633 fyrir kl. 16:00 á daginn.
Við teljum að auka megi matvælaframleiðslu í sveitinni allnokkuð með þessu móti auk þess sem þetta gæti gefið smá aur í aðra hönd fyrir viðkomandi.
Einnig er möguleiki á því að selja afurðirnar til veitingaaðila og jafnvel framleiða sérstaklega fyrir þá þær matjurtir sem þeir þurfa.
Rófur, grænkál, hvítkál, blómkál, rauðkál, salat og fleira og fleira.
Þá er ekki úr vegi að dusta rykið og snjóinn af vannýttum gróðurhúsum og hefja þar ræktun á nytjajurtum og berjum jafnvel og nýta bændamarkaðina sem söluvettvang.



Snyrtistofan Sveitasæla

Því miður hefur snyrtistofan þurft að skella í lás um óákveðinn tíma.
Þetta er ekki auðvelt, en við stöndum saman og komumst í gegnum þetta skrítna tímabil.
Alltaf hægt að ná í mig í síma 833-7888 ef þið viljið versla vörur eða gjafabréf.
Vonum að þetta tímabil vari ekki lengi svo ég geti haldið áfram að dekra við ykkur og látið ykkur líta vel út.
Farið vel með ykkur. Bestu kveðjur, Elín.

Getum við bætt efni síðunnar?