Auglýsingablaðið

964. TBL 07. nóvember 2018 kl. 10:40 - 10:40 Eldri-fundur

 Menningararfur Eyjafjarðarsveitar
Næsti fundur verður í Félagsborg laugardaginn 10. nóvember kl. 10:00. Aðalumræðuefni: Bílasaga sveitarinnar.


 Frá Laugalandsprestakalli
Messa í Saurbæjarkirkju kl. 11:00 sunnudaginn 11. nóvember.
Sr. Jóhanna Gísladóttir , prestur í Langholtskirkju með ættir til Akureyrar, messar. Kórinn, undir stjórn Daníels Þorsteinssonar, syngur m.a. Ég trúi á ljós og gott ef ekki Amazing Grace. Bestu kveðjur, Laugaprestakallinn.

 

 Leikskólinn Krummakot vill benda foreldrum á að sækja um pláss fyrir börn sín í tíma. Umsókn má finna á heimasíðu Krummakots: http://krummakot.leikskolinn.is/
Eins er alltaf velkomið að heyra í leikskólastjóra í síma 464-8120.

 

Eyvindur 2018
Kæru sveitungar, liggur fróðleg frásögn eða skemmtilegt ljóð ofan í skúffu hjá ykkur? Skilafrestur á efni í Eyvind er 15. nóvember. Fyrir hönd ritnefndar Auður s. 660-9034 audur@melgerdi.is


Leiðarlýsing 2018
Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi annast lýsingu leiða í kirkjugörðum í Eyjafjarðarsveit eins og undanfarin ár. Krossarnir eru settir upp fyrsta sunnudag í aðventu. Þeir sem hafa leigt krossa undanfarin ár þurfa aðeins að tilkynna ef þeir hyggjast hætta lýsingu, annars eru krossar settir á sömu leiði og í fyrra.
Gjald fyrir hvern kross er kr. 3.500.- Panta skal leigu á nýjum krossum hjá Hirti í síma 894-0283 eða Stefáni í síma 864-6444. Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi.

 Fimmtudagskvöld kl. 21:00
Komdu taktu þátt eða horfðu á, leikinn, þátttökugjörninginn, uppákomuna, sýninguna "Könnun". Við syðri endann á vegi 822, Kristnesvegi. Í boði Miðstöðvar Einkasafnsins og A! Gjörningahátíðar.
Munið útifötin, leikið verður utandyra. Aðalsteinn Þórsson.

 

Vitundarvakning og forvörn gegn fatasóun
Umhverfisdagur Kvenfélagasambands Íslands er þann 17. nóvember nk. og er tileinkaður forvörnum og vitundarvakningu um fatasóun.
Að því tilefni ætlar Kvenfélagið Iðunn að bjóða ykkur á Iðunnarkvöld þann
14. nóvember í Félagsborg kl. 20:00, þar sem kvenfélagskonur verða með fræðslu um hvernig nýta má gömul og slitin föt og einnig skoða með þér viðgerðir og breytingar á fatnaði.
Á sama tíma verður opinn skiptimarkaður fyrir föt og skó af öllu tagi. Gott tækifæri gefst til að taka til í skápum og skúffum, koma með það sem ekki þarf að nota heima, og taka heim með sér föt sem annar gat ekki notað. Það sem ekki gengur út verður afhent Rauða krossinum á Akureyri.
Léttar veitingar verða í boði.
Hlökkum til að sjá ykkur.

 Miðasala er hafin!
Miðasala fyrir Línu Langsokk hjá Freyvangsleikhúsinu hefur verið opnuð svo nú geta allir tryggt sér miða á þessa dásemdar sýningu.
Hægt er að panta miða í síma 857 5598 og á tix.is.
Miðasala í síma er opin mánudaga til föstudaga frá kl. 14:00-18:00 og laugardaga og sunnudaga frá kl. 11:00-13:00. Nánari upplýsingar á freyvangur.is.

 

Galdranámskeið Einars Mikaels fyrir byrjendur og lengra komna
Á námskeiðinu læra börnin ótrúlega galdra og magnaðar sjónhverfingar. Þau læra undirstöðuatriði í töfrabrögðum eins og einfalda og skemmtilega spilagaldra o.fl.
Horft verður á töfrahetjuþættina, töfradúfan Ásta mætir og allir fá töfradót með sér heim! Kennt er í eitt skipti, verð 4.000 kr., laugardaginn 17. nóvember í Laugarborg kl. 9:00-11:00. Hægt er að skrá sig með því að senda póst, með nafni og aldri, á galdranamskeid@gmail.com. Greiða þarf fyrir námskeiðið fyrir tímann.

 Fiskikvöldið mikla
Karlakór Eyjafjarðar efnir til stórveislu í Skeifunni, sal Hestamannafélags Léttis í reiðhöllinni, föstudaginn 9. nóvember kl. 19.00. Þar munum við bjóða upp á siginn fisk, kartöflur og hamsa ásamt nýbökuðu rúgbrauði. Drykkjarföng verða á staðnum 
gegn vægu gjaldi. Máltíðin kostar kr. 3.000. Kórinn syngur nokkur lög og eitthvað fleira gerum við okkur til gamans. Allir eru velkomnir.
Til hagræðingar óskum við eftir því að fólk boði komu sína fyrir kl. 12.00 föstudaginn 9. nóv. í síma 893-5979 (Hannes Óskarsson).
Ath. Ekki er hægt að greiða með korti. Karlakór Eyjafjarðar.

 Snyrtistofan Sveitsæla – Lamb Inn, Öngulsstöðum
Feðradagurinn er 11. nóvember og því um að gera að gefa öllum feðrum dekur í tilefni dagsins. Gjafabréf er alltaf góð gjöf.
Opið mánudaga og miðvikudaga kl. 12:00-18:00, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 14:00-16:00 og föstudaga kl. 9:00-14:00. 
Tímapantanir í síma 833-7888, milli kl. 9:00-17:00 á daginn og símsvari eftir kl. 17:00. Facebook: Snyrtistofan Sveitasæla. Minni á hágæðavörurnar frá: 
Elín Halldórsdóttir snyrtifræðingur og danskennari.


 Hernámsárin, skemmtun-kaffihús-bíó-dansiball
Kæru sveitungar. Föstudaginn 16. nóvember verður dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Hrafnagilsskóla. Í tilefni af 30 ára afmæli Tónlistarskóla Eyjafjarðar vinna fjórir skólar saman á þemadögum og sýna afraksturinn þennan dag. Skólarnir þrír auk Hrafnagilsskóla eru Þelamerkurskóli, Grenivíkurskóli og Tónlistarskóli Eyjafjarðar. Hátíðin hefst klukkan 13:00 í íþróttasal skólans og stendur til kl. 15:00.

Nemendur flytja í tali og tónum atriði sem tengjast þema dagsins sem að þessu sinni er ,,Hernámsárin – tímabilið 1939 – 1945“. Nemendur í 7. bekk hefja formlegan undirbúning fyrir Stóru upplestrarkeppnina með því að lesa upp ljóð. 

Eftir fyrsta hluta dagskrárinnar verða opnuð þrjú kaffihús á miðstigsgangi þar sem boðið verður upp á lifandi tónlist, kaffi, djús og bakkelsi í anda þessa tímabils. Einnig verður opinn bíósalur, hárgreiðslu- og snyrtistofa og fleira má sjá sem tengist tímabilinu. Að lokum hittast allir aftur inni í íþróttasal þar sem nemendur og kennarar Tónlistarskólans spila tónlist frá þessum tíma og nemendur sýna dansspor. Endað verður á því að frumflytja lagið ,,Allt það sem niðar“ eftir Daníel Þorsteinsson og Hjörleif Hjartarson en það var samið í tilefni afmælisins.

Ágóði af sölu kaffihúsanna fer í ferðasjóð grunnskólanna þriggja, auk þess verða nemendur 10. bekkjar í Hrafnagilsskóla með sölubás þar sem m.a. verða seldar gjafavörur frá Laufabrauðssetrinu og sælgæti.

Athugið að enginn posi er á staðnum.

Allir eru velkomnir og við hvetjum sveitunga til að heimsækja okkur í skólann þennan dag.
Nemendur og starfsfólk Hrafnagilsskóla

Getum við bætt efni síðunnar?