Skráning nýrra nemenda í Hrafnagilsskóla, vorið 2018
Dagana 23.–27. apríl stendur yfir skráning nýrra nemenda í Hrafnagilsskóla. Foreldrar eða forráðamenn eru beðnir að skrá tilvonandi 1. bekkinga (börn fædd 2012) og einnig eldri nemendur sem væntanlegir eru í skólann næsta haust. Á sama tíma er tekið á móti tilkynningum um flutning nemenda af svæðinu.
Þeir sem ætla að notfæra sér frístund næsta vetur (fyrir nemendur í 1.- 4. bekk) eru beðnir að tilkynna það þessa sömu daga (ekki bindandi skráning).
Skráning fer fram hjá ritara skólans frá kl. 9:00-15:00 í síma 464-8100 eða á staðnum.
Skólastjóri
Handverkshátíð 2018 – opið fyrir umsóknir til 15. apríl
Handverkshátíðin fer fram dagana 9.-12. ágúst.
Umsóknarfrestur rennur út 15. apríl og niðurstaða valnefndar mun liggja fyrir þann 15. maí. Öllum umsóknum verður svarað.
Rafrænt umsóknareyðublað er að finna á
https://www.esveit.is/handverkshatid/umsoknareydubladid
Við minnum á samfélagsmiðlana, við erum á Facebook og Instagram.
Menningararfur Eyjafjarðarsveitar
Fundur verður haldinn í Félagsborg laugardaginn 14. apríl kl. 10. Meðal fundarefna er umfjöllun um lestrarfélög. Allir eru alltaf velkomnir á fundi um menningararfinn.
Fundarstjóri
Frá Laugalandsprestakalli
Sunnudaginn 15. apríl er messa í Munkaþverárkirkju kl. 11:00.
Prestur er sr. Jón Ármann Gíslason prófastur.
Allir velkomnir.
Bestu kveðjur, Hannes
Fuglakabarett í Laugarborg
Kirkjukór Laugalandsprestakalls flytur ásamt hljómsveit, lögin úr Fuglakabarett Daníels Þorsteinssonar og Hjörleifs Hjartarsonar miðvikudaginn 18. apríl, síðasta vetrardag, kl. 20:30 í Laugarborg, Eyjafjarðarsveit.
Stjórnandi og undirleikari: Daníel Þorsteinsson, sögumaður og gestur: Hjörleifur Hjartarson, undirleikarar: Kristján Edelstein, gítar, Rodrigo dos Santos Lopes, trommur, Stefán Daði Ingólfsson, bassi.
Miðaverð kr. 2.500.
Fögnum lóunni, kríunni, Evrópufuglum og öðrum vorboðum á tónleikum með skemmtilegum lögum og bráðsmellnum textum.
Kirkjukór Laugalandsprestakalls
Kæru eldri borgarar Eyjafjarðarsveitar
-Endilega geymið auglýsinguna.
Eftirfarandi tímar eru lausir ykkur til afnota í Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar. Feitletraðir tímar eru sérstaklega fráteknir fyrir ykkur en hinir eru einnig í boði.
Verið velkomin í hlýjuna þar sem þið getið gengið, styrkt ykkur og jafnvel kíkt í sund að því loknu.
Hlökkum til að sjá ykkur, starfsfólk Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar.
Aðalfundur Hjálparsveitarinnar Dalbjargar 2018
Aðalfundur Hjálparsveitarinnar Dalbjargar 2018 verður haldinn fimmtudagskvöldið 19. apríl, sumardaginn fyrsta, kl. 20:30 í Dalborg. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Kaffiveitingar verða í boði og vonumst við til að sjá sem flesta. Nýir félagar eru boðnir velkomnir.
Kær kveðja, Hjálparsveitin Dalbjörg.
Sumardagurinn fyrsti
Fögnum sumarkomu á Melgerðismelum fimmtudaginn 19. apríl frá kl. 13:30 til 17:00. Stórglæsilegt kaffihlaðborð að hætti Funamanna. Húsdýrasýning, búvélar og teymt verður undir yngstu börnunum. Dalbjörg verður á staðnum.
Nánar auglýst í næsta sveitapósti.
Hestamannafélagið Funi
Æskulýðsnefnd Hestamannafélagsins Funa boðar til æskulýðsfundar þar sem boðið verður upp pizzu og starfið framundan kynnt. Hvetjum öll börn, unglinga og ungmenni sem hafa áhuga hestum til að mæta og vonumst til að sjá sem flesta foreldra líka. Fundurinn verður í Funaborg á Melgerðismelum kl. 13:00 sunnudaginn 15. apríl.
Nýir félagar velkomnir!
Tónleikar Karlakórs Eyjafjarðar í Hamraborg, Hofi 21. apríl 2018
Karlakór Eyjafjarðar ætlar að taka fyrir lög sem vinsæl voru í flutningi hljómsveita Ingimars og Finns Eydals í Sjallanum á Akureyri. Klæða á lögin nýjum búningi og útsetja þau að nýju fyrir karlakór, ýmist með eða án hljómsveitar. Heiðursgestir tónleikanna verða þau Helena Eyjólfsdóttir (ekkja Finns) landsþekkt söngkona í hljómsveitum Ingimars og Finns Eydals og Grímur Sigurðsson sem var lengi í hljómsveit Ingimars Eydals. Við bjóðum síðan ungum listamönnum þeim Hauki Gröndal klarinett- og saxafónleikara og Söru Blandon söngkonu að bætast í hópinn og setja sitt mark á flutninginn.
Eftir seinni tónleikana ætlum við að slá upp dansleik í Hömrum og endurvekja gömlu Sjallastemminguna, þar munu að mestu leiti sömu tónlistarmenn halda uppi fjörinu fram eftir nóttu. Tónleikar 21. apríl 2018, kl. 16.00. Miðaverð á tónleika kr. 6.900.
Tónleikar 21. apríl 2018, kl. 20.00. Miðaverð á dansleik kr. 2.900.
Miðasala í Hofi, á mak.is og tix.is Miðaverða tónleika og dansleik kr. 9.000.
Karlakór Eyjafjarðar
Snyrtistofan Sveitasæla – er á Lamb Inn, Öngulsstöðum 3 😊
Verið tímanlega að panta snyrtingu fyrir ferminguna.
Allar helstu snyrtimeðferðir í boði í notalegu umhverfi í sveitinni.
Er með hágæðavörur frá Comfort Zone. Þær vörur eru án parabena, mineral olíu, silikons, litarefna, dýraafurða og MIT (rótvarnarefnis).
Gjafabréf til sölu, þú velur ákveðna meðferð eða upphæð að eigin vali. Tilvalin gjöf við öll tækifæri. Best er að hringja í mig ef þið viljið nálgast gjafabréf.
Tímapantanir í síma 833-7888 milli kl. 9:00-17:00 á daginn. Eftir kl. 17:00 svarar símsvari og þá er um að gera að tala inná hann og ég mun hafa samband við fyrsta tækifæri.
Elín Halldórsdóttir, snyrtifræðingur og danskennari.
SÍÐUSTU SÝNINGAR!!! Þrek og tár hjá Freyvangsleikhúsinu!
Freyvangsleikhúsið sýnir nú leikritið Þrek og tár, eitt af ástsælustu verkum Ólafs Hauks Símonarsonar.
Í verkinu göngum við inn í minningar ungs manns í Reykjavík við upphaf sjöunda áratugarins og gleðjumst og syrgjum með fjölskyldu hans í lífi og starfi, vinum þeirra og nágrönnum sem hver og einn á sína sögu.
Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson og tónlistarstjóri Ingólfur Jóhannsson, en tónlistin er í hávegum höfð í verkinu og hér hljóma lög eins og Þrek og tár, Heimþrá og Í rökkurró sem voru vinsæl lög á sjöunda áratugnum.
14. sýning 13. apríl – Uppselt, 15. sýning 14. apríl, 16. sýning 20. apríl, 17. sýning 21. apríl.
Miðasala á tix.is og í síma 857-5598 frá kl. 16:00-20:00 alla daga.