Sveitarstjórnarfundur
509. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 30. nóvember og hefst hann kl. 15:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 er í vinnslu
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar boðar til almenns kynningarfundar um skipulagsdrögin í matsal Hrafnagilsskóla að Skólatröð 9 (þar sem skrifstofur Eyjafjarðarsveitar eru) næstkomandi þriðjudagskvöld, 28. nóvember kl. 20:15. Þar verða fyrirliggjandi drög kynnt. Fundurinn er öllum opinn.
Íbúum og öðrum hagsmunaaðilum er gefinn kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir á þessu stigi skipulagsvinnunnar. Frestur til þess rennur út 12. desember 2017 og skal skilað skriflega á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar eða með tölvupósti á netfangið esveit@esveit.is með efnislínu (e. subject) Aðalskipulag. Gögn verða aðgengileg á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar, esveit.is, frá 24. nóv.
Endanleg aðalskipulagstillaga verður kynnt síðar og verður það auglýst sérstaklega.
F.h. sveitarstjórnar, Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri.
Fullveldishátíð í Laugarborg
Kæru sveitungar. Okkar árlega 1. des hátíð nálgast óðfluga. Ýmislegt skemmtilegt verður í boði fyrir augu, eyru, munn og maga. Meðal annarra koma fram mæðginin Elvý og Birkir Blær með tónlistaratriði, María Pálsdóttir fræðir okkur um Hælið og Brynjar Karl Óttarsson kynnir bækur sínar. Kvenfélagið Hjálpin selur gómsætar veitingar. Aðgangseyrir kr. 500.- Húsið verður opnað kl. 19:30. Dagskráin byrjar kl. 20:00. Allir hjartanlega velkomir.
Menningarmálanefndin
Frá Laugalandsprestakalli
Sunnudaginn 26. nóvember nk. er messa í Saurbæjarkirkju kl. 11:00.
Allir velkomnir. Bestu kveðjur í sveitina, sóknarprestur.
Danssýning í Hrafnagilsskóla
Senn lýkur danskennslu hjá nemendum í 5.-10. bekk í Hrafnagilsskóla. Af því tilefni verður danssýning í íþróttahúsi skólans mánudaginn 27. nóvember kl. 13:00. Þar sýna nemendur hvað þeir hafa lært undanfarnar vikur hjá Elínu Halldórsdóttur danskennara.
Allir hjartanlega velkomnir.
Kvenfélagið Iðunn boðar til jólafundar sem haldinn verður í Félagsborg fimmtudaginn 7. des. og hefst kl. 19:00.
Flutt verður tónlistaratriði og Kristín Aðalsteinsdóttir kynnir nýútkomna bók sína Innbær. Húsin og fólkið.
Þar sem í boði er 3ja rétta máltíð þarf að skrá sig fyrir 1. des. nk. á facebook-síðu félagsins eða hjá formanninum Sigríði Ásnýju, netfang: sigridurasny@gmail.com/sími 863-6912. Munið eftir pakka í pakkaleikinn.
Jólatré úr Reykhúsaskógi
Við eigum enn fallegt rauðgreni í skóginum. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa tré geta haft samband með tölvupósti anna.gudmundsd@gmail.com eða í síma 848-1888.
Trén verða keyrð heim til kaupenda í vikunni fyrir jól.
Anna og Páll í Reykhúsum.
Snyrtistofan Sveitasæla
Lamb inn, Öngulsstöðum. Allar helstu snyrtimeðferðir í boði í notalegu umhverfi í sveitinni.
Er með hágæðavörur frá Comfort Zone.
Þær vörur eru án parabena, mineral olíu, silikons, litarefna, dýraafurða og MIT (rotvarnarefnis).
Gjafabréf til sölu, þú velur ákveðna meðferð eða upphæð að eigin vali. Tilvalin gjöf við öll tækifæri. Tímapantanir í síma 833-7888 milli kl. 9:00-17:00 á daginn.
Elín Halldórsdóttir snyrtifræðingur og danskennari.
Volare – Ofurtilboð... 😊
Ofurtilboð til og með föstudagsins 24. nóv. eða á meðan birgðir endast.
Með hverri pöntun yfir 5.000 kr. eða bókaðri kynningu, er val um fótaskrúbb eða sturtugel fyrir mjög viðkvæma húð. Sérstök tilboð fyrir þá sem panta fyrir 15.000 kr. eða meira. Auk þess er BB krem, þ.e. litað dagkrem, vara mánaðarins, á kynningarverði. Frábært tækifæri til að panta jólagjafirnar núna. Hafðu samband sem fyrst í síma 866-2796 eða á facebook; Hrönn Volare
Ævar vísindamaður kemur á Kaffi kú!!!
Næstkomandi föstudag þann 24. nóvember les Ævar uppúr nýju bókinni sinni á Kaffi kú kl. 17:00. Notalegur seinnipartur í sveitinni með börnunum ykkar.
Rjúkandi heit matarmikil gúllassúpa með brauði á 20% afslætti.
Jólaferð í Eyjafjarðarsveit
Fyrsta stopp – Kaffi kú: Beint frá býli matur klikkar aldrei og er gott veganesti í góðan dag. Fjölskyldunni býðst að kíkja í fjósið að taka jóla-myndir. Jólahúfur á alla fjölskyldumeðlimi verða á staðnum. Kálfar mega líka bera jólahúfur 😊 Skemmtileg fjölskyldustund þar sem allir leika sér saman.
Annað stopp – Sund í Hrafnagili: Geggjuð rennibraut og æðislegur heitur pottur.
Þriðja stopp – Jólahúsið: Jólagarðurinn er sannkölluð töfraveröld jólanna.
Nú er hægt að fá gjafabréf sem gildir á Kaffi kú og Nautakjöt.is.
Tilvalið í jólapakkann.
Kaffi Kú og Nautakjöt.is, Garður í Eyjafjarðarsveit, sími 867-3826, www.kaffiku.is.
60 ára afmæli leiklistar í Freyvangi
Nú líður að lokum afmælishátíðar í Freyvangi, ertu búin/n að kíkja í heimsókn og fagna með okkur? Næstu sýningar 24. nóvember og lokasýning 25. nóvember. Jörundur stefnir til Vínlands, Lilli klifurmús er í tómu tjóni og sumir vilja bara fá sér kærustu, hvernig endar þetta eiginlega?
Miðasala s. 857-5598, freyvangur@gmail.com og freyvangur.is.
Hlökkum til að sjá ykkur, Freyvangsleikhúsið.