Auglýsingablaðið

909. TBL 18. október 2017 kl. 12:00 - 12:00 Eldri-fundur

KJÖRFUNDUR VEGNA ALÞINGISKOSNINGA 28. OKTÓBER 2017
Kjörstaður í Eyjafjarðarsveit verður í Hrafnagilsskóla. Kjörfundur hefst kl. 10:00 og lýkur kl. 22:00.
Þeir sem eiga erfitt með gang mega aka að inngangi skóla.
Á kjörstað gerir kjósandi grein fyrir sér með framvísun skilríkja eða á annan fullnægjandi hátt.
Á kjördegi hefur kjörstjórn aðsetur í Hrafnagilsskóla, sími 464-8100 eða 899-4935.
Kjörstjórnin í Eyjafjarðarsveit 15. október 2017; Emilía Baldursdóttir, Ólafur Vagnsson og Níels Helgason.

Framlagning kjörskrár
Kjörskrá, vegna alþingiskosninga 28. október 2017, liggur frammi á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar á almennum skrifstofutíma frá og með 18. október 2017. Almennur skrifstofutími er alla virka daga frá kl. 10:00 til 14:00. Kjörskráin mun liggja frammi til kl. 14:00 föstudaginn 27. október 2017.
Bent er á upplýsingavef innanríkisráðuneytisins www.kosning.is en þar er að finna hagnýtar upplýsingar um framkvæmd kosninganna og þar geta kjósendur einnig kannað hvort og hvar þeir eru á kjörskrá.

Afmælishátíð í Freyvangi
Nú fer að styttast í afmælishátíð húss og leiklistar í Freyvangi en stefnt er að frumsýningu í byrjun nóvember, nánari dagsetning auglýst síðar. Húsið ómar enn á ný af leik og söng en góður hópur eldri og yngri félaga undir styrkri stjórn Vandræðaskálda munu stíga á stokk og leiða ykkur í gegnum brot af því besta úr ýmsum sýningum. Dramatísk, fyndin, skrýtin og skemmtileg atburðarás ásamt safaríkum sögum af baksviðinu og uppákomum á sýningum. Ætli ræningjarnir ræni sýningunni með Heródes í broddi fylkingar? Hvað verður þá um Dýrin í Hálsaskógi, ætli þau geti sótt um hæli í Kvennaskólanum?
Hlökkum til að sjá ykkur.
Freyvangsleikhúsið

FRÁ LAUGALANDSPRESTAKALLI:
Messa í Hólakirkju sunnudaginn 22. október kl. 11:00.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Prestakallinn

Takið eftir, takið eftir!!
Fyrsti vetrardagur nálgast hratt!
Er ekki súrinn klár?
Takið frá laugardaginn 27. janúar 2018!
Þorrablótsnefndin

Kallað eftir verkefnum á dagskrá afmælisársins
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands verður fagnað á næsta ári með fjölbreyttri dagskrá um land allt.
Dagskrá afmælisársins mótuð af landsmönnum
Kallað er eftir frumkvæði og virkri þátttöku landsmanna við mótun dagskrár afmælisársins og lögð er áhersla á að ná til sem flestra landsmanna. Opnað hefur verið fyrir tillögur að verkefnum á dagskrá afmælisársins og skal þeim skilað rafrænt gegnum vefsíðuna www.fullveldi1918.is fyrir kl. 16, 22. október nk.

Haustfundur kvenfélagsins HJÁLPARINNAR
verður haldinn á Akureyri að þessu sinni, í fundarsal á Búgarði, Óseyri 2, miðvikudaginn 25. okt. nk. klukkan 20:30. Við minnum þær sem eiga ógreitt árgjald ársins að gera það upp, hægt er að greiða inn á reikning félagsins nr. 0162-26-7760, kennitalan er 540607-0440. Árgjaldið er 2.500 krónur.
Til er reyktur silungur, flatbrauð, kex og sulta fyrir áhugasama félaga að kaupa.
Nýir félagar velkomnir!
Stjórnin

Kæru bændur og aðrir sveitungar
Kaffi kú bíður bændum og öðrum sveitungum sérstakt tilboð í október
Sérstakt sveitatilboð
15% afslátt af hádegismatseðli
120 gr hamborgari hlaðinn osti á fimmtudögum á 1.500 kr. með gosi.
Almennt októbertilboð
Í október erum við með vöfflutilboð.
Vaffla með sultu og rjóma á aðeins 500 kr.
Kaffi kú er opið alla virka daga frá kl. 10 til 18 og 12 til 18 um helgar í allan vetur.
Gerðu þér dagamun og kíktu í fjós
kær kveðja
Kaffi kú

Íþróttaskóli barnanna
Vegna fjölda fyrirspurna förum við af stað aftur með Íþróttaskóla Umf. Samherja. Íþróttaskólinn byrjar laugardaginn 21. október kl. 9:15-10:00 en hann er hugsaður fyrir börn á aldrinum 2-5 ára. Sett verður upp
þrautabraut og taka foreldrar virkan þátt og fylgja sínu barni eftir.
Mikilvægt er að börnin komi í þægilegum fötum en gert er ráð fyrir að þau verði berfætt. Umsjón með íþróttaskólanum hefur Sonja Magnúsdóttir og er skráning í netfangið sonja@internet.is þar sem fram kemur fullt nafn og kennitala barns og forráðamanns ásamt símanúmeri.
Reiknað er með samtals sex skiptum og er kostnaður 3.000 kr. fyrir barn.
Stjórn UMF. Samherja

Haust og jólatré í Reykhúsaskógi helgina 21.–22. október kl. 14–16:30
Við bjóðum fólki að koma og ganga um skóginn eftir skógarstígum og njóta haustlitanna. Í skóginum er rjóður með eldstæði og þar verður boðið upp á kaffi eða kakó og „meððí“.
Þeir sem þess óska geta valið sér jólatré úr útvöldum rauðgrenitrjám og merkt sér. Trén verða höggvin stuttu fyrir jól til að tryggja sem best barrheldni þeirra og er ekið heim til kaupenda í Eyjafjarðarsveit og á Akureyri. Trén sem eru til sölu eru í fjórum stærðum; 1,25/1,5 m, 1,5/1,75 m, 1,75/2 m og yfir 2 metrar og er þá miðað við hæð að efsta greinakransi á trénu. Verð trjánna er 5000, 6000, 7000 og 8000 kr. eftir stærð.
Gengið er upp í skóginn um nokkuð brattann slóða norðan Kristnesspítala. Fólk sem á erfitt með gang eða með lítil börn má aka upp slóðann og leggja ofan við brekkuna.
Þeir sem ekki hafa tök á að koma en vilja tryggja sér jólatré geta haft samband í síma 848 1888 eða sent skilaboð á facebooksíðunni Reykhúsaskógur.
Verið hjartanlega velkomin, Anna og Páll í Reykhúsum

Iðunnarkvöld. Minnum á Iðunnarkvöld í Laugarborg miðvikudagskvöldið 19. október.

Bókasafn Eyjafjarðarsveitar Hrafnagilsskóla
Vegna vetrarleyfis í skólanum er bókasafnið lokað föstudaginn 27. okt. og mánudaginn 30. okt. Annars er opið eins og venjulega.
Safnið er opið:
Mánudaga kl. 10:30-12:30 og 13:00-16:00
Þriðjudaga kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Miðvikudaga kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Fimmtudaga kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Föstudaga kl. 10:30-12:30

Hugmyndasamkeppni um þróun og nýtingu svæðis ofan Hrafnagilshverfis til útivistar
Sveitarfélagið festi nýlega kaup á skóglendi ofan Hrafnagilshverfis, en áður tilheyrði aðeins lítill hluti þess sveitarfélaginu. Á þessu svæði er m.a. Aldísarlundur sem um árabil hefur nýst skólasamfélaginu afar vel. Með stækkun þessa svæðis, ofan Aldísarlundar, opnast ýmsir möguleikar til útivistar, kennslu og leikja bæði fyrir skólasamfélagið og íbúa. Sveitarstjórn hefur áhuga á að útfæra hugmyndir og ráðast í framkvæmdir á svæðinu sem væru til þess fallnar að auka samveru og útivist íbúanna.
Sveitarstjórn leitar því til íbúa sveitarfélagsins eftir hugmyndum um hvernig best væri að nýta svæðið. Sveitarstjórn sér þetta fyrir sér sem tækifæri fyrir einstaklinga, skólana og félög í sveitinni að vinna saman að hugmyndum um svæðið.
Mikilvægt er að hafa í huga jákvæða stefnu sveitarfélagsins í umhverfismálum, heilsueflingu (Heilsueflandi samfélag) og markmið um að hér sé gott að búa og öllum líði vel.
Hugmyndir sendist á netfangið esveit@esveit.is. Skilafrestur er til mánudagsins 6. nóvember.

Hugmyndasamkeppni

Getum við bætt efni síðunnar?