Gæsaveiðar í Eyjafjarðarsveit
Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er ástæða til að vekja máls á mikilvægi þess að ganga um náttúruna af virðingu og hafa skynsemi að leiðarljósi við skotveiðarnar. Sérstaklega ber að nefna mikilvægi þess að gera allt til þess að fanga særða fugla sem oft hrekjast langar leiðir áður en þeir gefast upp.
Dýravernd er mál alls samfélagsins og full ástæða til að brýna annars vegar landeigendur, sem heimila skotveiði í sínum löndum, sem og veiðimennina sjálfa til að umgangast þessa auðlind svo sómi sé að þar sem saman fer skynsamleg nýting veiðistofna og ábyrg umgengni við náttúruna. Meðferð skotvopna á þéttbýlum svæðum krefst þess að fyllsta öryggis sé gætt sem og tillitssemi vegna hávaða sem veiðunum óhjákvæmilega fylgir.
Sveitarstjóri
Frá Kirkjukór Laugalandsprestakalls
Fyrsta söngæfing starfsársins verður í Laugarborg mánudagskvöldið 18. september kl. 20:30.
Nýir söngfélagar hjartanlega velkomnir.
Stjórnin
Kæru sveitungar
Pönnukökudagur á Smámunasafninu.
Laugardaginn næsta, 16. september, verður hinn árlegi pönnuköku- og markaðsdagur á safninu milli kl. 13:00 og 17:00. Er þetta jafnframt síðasti opnunardagur hjá okkur þetta sumarið.
Leiðsögn verður um Saurbæjarkirkju milli kl. 14:00 og 17:00.
Ýmsir aðilar verða með vörur sínar til sölu t.d. grænmeti, kex, sultur, kort, dagatöl, smá dót og fl. Ath. það er ekki posi á markaðnum.
Að sjálfsögðu verðum við með ljúffengar pönnukökur í ýmsum útgáfum og heitt á könnunni á Kaffistofunni.
Verið hjartanlega velkomin. Stúlkurnar á Smámunasafninu.
Týnd læða frá Kaupangi
Steingrá læða með hvítan háls, maga, afturlappir og framtær, týndist frá Kaupangi í Eyjafirði um 29. ágúst sl. Eigandi hefur s: 695-8730.
Kæru sveitungar
Við nemendur í 10. bekk Hrafnagilsskóla erum að hefja fjáröflun okkar vegna skólaferðalagsins í vor. Við munum koma til ykkar á næstu dögum og bjóða ykkur klósettpappír, eldhúspappír og hettupeysur til sölu. Við viljum einnig vekja athygli á því að það er dósa- og flöskugámur á gámasvæðinu sem tilheyrir fjáröflun okkar. Endilega farið með dósir og flöskur þangað ef þið viljið styrkja okkur.
Með fyrirfram þökk fyrir stuðninginn.
Nemendur 10. bekkjar Hrafnagilsskóla.
Aðalfundur og samlestur
Aðalfundur Freyvangsleikhússins verður haldinn miðvikudaginn 13. september kl. 20:00.
Venjuleg aðalfundastörf þar sem fortíðin verður gerð upp til framtíðar.
Allir áhugasamir hvattir til að mæta.
Jafnvel þeir sem hafa takmarkaðan áhuga.
Freyvangsleikhúsið heldur upp á afmæli leiklistar í Freyvangi með afmæliskabarett þar sem valin verk úr sögu félagsins verða sett saman í óborganlega skemmtun (það mun samt vera tekið gjald í miðasölunni!).
Fyrsti samlestur og kynningafundur verður í Freyvangi, nema hvað, mándaginn 18. september kl. 20:00. Allir hjartanlega velkomnir.