Auglýsingablaðið

881. TBL 05. apríl 2017 kl. 11:14 - 11:14 Eldri-fundur

Auglýsingablaðið – næsta blað þriðjud. 11. apríl
Auglýsingar þurfa að berast skrifstofunni fyrir kl. 10:00 mánudaginn 10. apríl, á esveit@esveit.is eða í síma 463-0600.
Skrifstofan


Sveitarstjórnarfundur
495. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, miðvikudaginn 12. apríl og hefst hann kl. 15:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.


Fundur í kvöld um fjallskil og girðingarmál
Minnum á fundinn í kvöld 5. apríl kl. 20:00 í Félagsborg um fjallskil og girðingarmál í Öngulsstaðadeild, þ.m.t. framtíð varnargirðingar milli Rútsstaða og Bringu, sem og girðingarmál almennt í sveitarfélaginu. Allir velkomnir.
Fjallskilanefnd


Frá Laugalandsprestakalli - Messur um hátíðar verða sem hér segir:
Pálmasunnudag 9. apríl verður messað í Möðruvallakirkju kl. 11:00.
Föstudaginn langa 14. apríl verður föstumessa í Munkaþverárkirkju kl. 11:00
Félagar úr kirkjukór Laugalandsprestakalls lesa píslarsögu Jóhannesarguðspjalls.
Páskadagur 16. apríl: Hátíðarmessa í Grundarkirkju kl. 11:00.
Páskadagur 16. apríl : Hátíðarmessa í Kaupangskirkju kl. 13:30.
Gleðilega páska, Hannes


Umsóknir og aðlögunartímabil í Krummakot
Til að fá sem gleggsta mynd af fjölda leikskólanemenda næsta skólaár, 2017/2018, eru foreldrar sem hyggjast sækja um leikskóla fyrir börn sín hvattir til að gera það sem fyrst. Eyjafjarðarsveit býður upp á leikskóla fyrir börn frá eins árs aldri og gott er að fá umsóknir með góðum fyrirvara upp á skipulag og starfsmannahald að gera.
Í innritunaráætlun leikskólans er gert ráð fyrir fjórum aðlögunartímabilum á hverju skólaári, í ágúst, október, janúar og apríl. Aðlögun í ágúst hefst mánudaginn 14. ágúst.
Umsóknarblöð um leikskólann má finna á heimasíðu Krummakots, http://leikskoli.krummi.is
Bestu kveðjur, Hugrún Sigmundsdóttir leikskólastjóri


Menningararfur Eyjafjarðarsveitar
Fundur verður haldinn í Félagsborg laugardaginn 8. apríl kl. 10. Áfram verður rætt um sveitasímann og svo eru þeir sem luma á skemmtilegum sögum um notkun hans sérstaklega velkomnir til að rifja þær upp. Annars eru allir alltaf velkomnir á fundi um menningararfinn.
Fundarstjóri
 

Árshátíð yngsta stigs Hrafnagilsskóla 2017
Hátíðin verður haldin í Laugarborg fimmtudaginn 6. apríl frá klukkan 14:00—16:00. Nemendur yngsta stigs sýna leikrit um ungfrúrnar og herramennina. Að loknum skemmtiatriðum stjórnar Elín Halldórsdóttir dansi.
Aðgangseyrir er 700 kr. fyrir nemendur á grunnskólaaldri en 1.400 kr. fyrir eldri. Frítt er fyrir börn sem ekki eru byrjuð í grunnskóla. Veitingar eru innifaldar í verði. Ágóði af miðasölu og sjoppu rennur í ferðasjóð nemenda og einnig til að greiða lyftugjöld í skíðaferð. Athugið að ekki er posi á staðnum.
Sjoppan verður opin og þar er hægt að kaupa gos, svala og sælgæti. Skólabílar keyra ekki að árshátíð lokinni. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Nemendur í 1.-4. bekk í Hrafnagilsskóla


Barokktónleikar í Grundarkirkju
Fimmtudagskvöldið 6. apríl kl. 20:00 heldur klassíska söngdeild Tónlistarskólans á Akureyri barokktónleika í Grundarkirkju.
Flutt verður hið magnaða verk Stabat Mater eftir Pergolesi en verkið fjallar um píslargöngu Krists. Þá verða fluttar aríur úr Messíasi eftir Händel, Mattheusarpassíu Bachs og dúett úr Gloríu eftir Vivaldi.
Flytjendur eru kvennakór söngdeildarinnar og einsöngvarar, Daníel Þorsteinson á orgel en stjórnandi er Michael Jón Clarke. Aðgangseyrir er kr. 1.000, frítt fyrir nemendur.
Eigum saman notalega kvöldstund á föstunni í Grundarkirkju.


Íþróttaskóli barnanna
Íþróttaskóli Umf. Samherja er farinn af stað aftur! Íþróttaskólinn er hugsaður fyrir börn á aldrinum 2-5 ára og er settur upp í leikja- og þrautabrautarformi þar sem foreldrar taka virkan þátt og fylgja sínu barni eftir. Íþróttaskólinn er á laugardögum frá kl. 9:15-10:00 og verður hann áfram í umsjón Sonju Magnúsdóttur. Mikilvægt er að börnin komi í þægilegum fötum og gert er ráð fyrir að þau verði á tásunum.
Námskeiðsgjald er 2.500 kr. fyrir barn og er skráning á netfangið sonja@internet.is þar sem fram þarf að koma fullt nafn og kennitala barns og nafn forráðamanns ásamt símanúmeri. Frekari upplýsingar eru veittar í sama netfangi, sonja@internet.is Sjáumst í íþróttahúsinu :-)


Skammir og Skætingur
Karlakór Eyjafjarðar heldur sína margfrægu hagyrðingaskemmtun í tónlistahúsinu Laugarborg miðvikudagskvöldið 12. apríl kl. 20:30. Hagyrðingarnir Hjálmar Freysteinsson, Jóhannes Sigfússon, Ósk Þorkelsdóttir, Pétur Pétursson
og Reynir Hjartarson undir stjórn Birgis Sveinbjörnssonar láta gamminn geisa. Kórinn syngur nokkur lög. Kaffi og kleinur. Húsið opnað kl. 19:30, aðgöngumiðar seldir við innganginn, verð 3.000 kr. A.t.h. getum ekki tekið við kortum.
Nánari upplýsingar veitir Gunnar í síma 893-7236.


Aðalfundur Hjálparsveitarinnar Dalbjargar 2017 verður haldinn fimmtudagskvöldið 20. apríl, sumardaginn fyrsta, kl. 20:30 í Dalborg. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Kaffiveitingar verða í boði og vonumst við til að sjá sem flesta. Nýjir félagar eru boðnir velkomnir.
Kær kveðja, Hjálparsveitin Dalbjörg


Kótilettukvöld á Lamb Inn
Síðasta kótilettukvöld yfirstandandi kótilettuvertíðar verður haldið miðvikudaginn 12. apríl. Kótilettur af hlaðborði og hið norðlenska búðingahlaðborð í eftirrétt.
Verð kr. 4.600 pr mann.
- Sama góða stuðið og óvænt skemmtiatriði.
Borðapantanir í síma 463-1500 eða á netfanginu lambinn@lambinn.is.
Einnig hægt að skrá sig beint í viðburðadagatali á lambinn.is.


Reiðskólinn í Ysta-Gerði - ný námskeið að hefjast!
Námskeiðið er 6 skipti frá 18.04-24.05, fyrir káta krakka og fullorðna. Árgang 2010 og uppúr. Kennt er í reiðskemmunni í Ysta-Gerði, Eyjafj.sv. Kennari er Sara Arnbro, mentaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Verð á námskeið: 24.000 kr. (skipt í 2 greiðslur). Innifalið er hestar, reiðtygi, öryggisvesti, hjálmar og kennsla. Kennt er í 45 mín/skipti. Fjórir hópar er í boði: Þriðjudagar kl. 17:30-18:15 og kl. 18:30-19:15 og miðvikudagar kl. 17:30-18:15 og kl. 18:30-19:15.
Skráninginn er bindandi: Netfang: sara_arnbro@hotmail.com, sími: 845-2298.


Reið-leikskóli um páskana!
Reiðnámskeið fyrir börn fædd 2010-2013. Við lærum meira um hesta og æfum jafnvægi og stjórnun í gegnum leik (förum í boltaleiki á hestbaki, skjótum með boga á hestbaki ofl.). Fimmtudaginn 13. apríl – laugardaginn 15. apríl kl. 10:00-12:00 eða 13:00-15:00. Verð: 15.000 kr. Gott að koma með nesti.
Skráning er bindandi: Netfang: sara_arnbro@hotmail.com, sími: 845-2298.


Húsnæði óskast
Par með 1 barn á grunnskólaaldri óskar eftir húsnæði til leigu í sveitinni.
Róleg, reglusöm, snyrtileg og bæði í fastri vinnu.
Úlfhildur, sími: 693-7211, netfang: ulfhildur.ornolfs@gmail.com


 ENJO vörur - einfaldlega snilld:
Sparar tíma, verndar heilsu, sparar peninga, verndar náttúruna.
Vöruflokkar: gluggar, eldhús, bað, gólf, húðumhirða, bíllinn...
Söluráðgjafi á næstu grösum. Endilega látið mig vita ef ykkur vantar ENJO vörur.
Get haft kynningar með stuttum fyrirvara.
B.kv., Auður Guðný Yngvadóttir 869-8430, audurgudny59@gmail.com


Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar verður opin alla páskana
Pálmasunnudag 10.00-17.00
Skírdag 10:00-20:00
Föstudaginn langa 10:00-20:00
Laugardaginn 10:00-20:00
Páskadag 10:00-20:00
Annan í páskum 10:00-20:00
Hlökkum til að sjá ykkur,
starfsfólk Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar
 

Bókasafn Eyjafjarðarsveitar Hrafnagilsskóla
Gott úrval bóka og tímarita til að lesa og skoða á staðnum eða fá lánað með sér heim.
Opnunartímar á næstunni:
Í næstu viku, 10.-14. apríl er safnið lokað.
Safnið opnar aftur þriðjudaginn 18. apríl.
Á sumardaginn fyrsta, 20. apríl er lokað.

Venjulegur opnunartími safnsins:
Mánudaga kl. 10:30-12:30 og 13:00-16:00
Þriðjudaga kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Miðvikudaga kl.10:30-12:30 og 16:00-19:00
Fimmtudaga kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Föstudaga kl. 10:30-12:30
Best er að ganga um dyr að austan (kjallari íþróttahúss) eða um innganga Íþróttamiðstöðvar og niður á neðri hæð.


Góðverkin kalla í Freyvangsleikúsinu
Þó lífið fari úr skorðum á Gjaldeyri við Freyvangsfjörð þá gera leiksýningarnar það ekki. Eldri borgarar á vegum Einingar-Iðju lögðu leið sína í Freyvangsleikhúsið á laugardaginn og skemmtu sér dæmalaust vel, eins og einn glaðhlakkandi gesturinn sagði eftir sýninguna. Annar tók það fram að hláturinn hafi hreinlega tekið í mjöðmina.

Það gefst allavega tækifæri til að liðka hláturtaugarnar og fjölga broshrukkum. Þær eru bara krúttlegar hvort sem er.
Vegna forfalla eru lausir miðar á laugardaginn. Nú ef ekki þá, því ekki um páskana?
Kæru sveitungar þið eruð alltaf velkomnir í Freyvang, ef ekki upp á svið, þá í það minnsta fram í áhorfendasal.

Hlökkum til að heyra í ykkur hláturinn. 
Með bestu kveðju úr Freyvangsleikhúsinu.

 

 

 

Íbúafundurinn – Hvernig er að vera barn í Eyjafjarðarsveit?

Foreldrafélög Hrafnagilsskóla, Krummakots og Ungmennafélagið Samherjar boðuðu til fundar um málefni barna í Eyjafjarðarsveit. Fundurinn var haldinn í Laugarborg 14. mars síðastliðinn og mættu 52 íbúar. Miklar umræður sköpuðust og var almennt góður andi yfir fundinum.

Helstu niðurstöður voru þær að mikil ánægja er með samstarf milli Ungmennafélagsins, leik-, grunn- og tónlistarskóla. Margir kostir felast í litlum skólum og samfélagi. Persónuleg tengsl eru meiri og þjónustustigið hátt. Eitt af því sem var nefnt að betur mætti fara er að fundir með foreldrum og starfsfólki væru fleiri og betur sóttir.

Framboð af íþróttum er gott í sveitinni, æfingagjöld lág og aðstaða til iðkunnar góð. Samherjar standa fyrir öflugu starfi og eru einn af burðarásunum í utanumhald Handverkshátíðar. Áskoranir í íþróttum tengjast því helst að virkja krakka til íþróttaiðkunar þegar unglingsárin færast yfir og að fá þjálfara fyrir þær íþróttir sem fólk vill stunda. Hugmyndir komu upp um bætt aðgengi að æfingasal  og endurnýjun tækja en slík bragabót gæti höfðað til eldri krakka.

Nokkrar hugmyndir komu um annarskonar afþreyingu fyrir ungdóminn en íþróttir. Margir nefndu að hægt væri að efla félagsmiðstöðina sem gegnir mikilvægu hlutverki í þroska barna og unglinga. Vert er að skoða hvernig væri hægt að virkja skapandi greinar. Einnig komu upp hugmyndir um skátastarf sem er mjög í takt við góðar viðtökur við útivistarskóla síðasta vor og þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Aldísarlundi. Margir vildu fleiri tækifæri til að fjölskyldur gætu stundað íþróttir og afþreyingu saman.

Talsverður áhugi er á að halda fleiri fjölskylduvæna viðburði í sveitinni eins og Vígaglúm sem eitt sinn var og hátíð Hestamannafélagsins Funa á sumardaginn fyrsta sem er árlegur viðburður. Hægt væri þá að nýta staði sem annars eru vannýttir eins og Leyningshólar og Melgerðismelar.

Varðandi almennt heilsufar og uppeldismál var helst rætt um skjánotkun, svefn, matarræði og hreyfingu, þessi atriði eru að öllu jöfnu í góðu horfi samkvæmt fundarfólki. Flestir voru sammála um að gott væri að gefa út viðmið í þessum efnum og halda á lofti til að auðvelda foreldrum að fást við þessi lýðheilsulegu atriði ef þurfa þykir.

Fundurinn og úrvinnsla upplýsinga var staðfesting á því sem vel er gert og vísbending um það sem betur má fara og var hann ekki síður innblástur til góðra verka. Ungmennafélagið og stjórnir foreldrafélaganna munu nýta sér niðurstöðurnar og hugmyndirnar í sínu starfi á komandi misserum. Vilja stjórnirnar nota tækifærið og þakka öllum sem mættu á fundinn. Til gamans látum við fylgja nokkra punkta sem komu fram á fundinum.

 

Hvað er jákvætt:

  • Að íþróttatímar Samherja séu beint eftir skóla og snúist ekki bara um keppni
  • Hversu dýrmætt einstaklingsframtakið er
  • Valdi kokkur er bestur
  • Handverkshátíðin, stemming og fjáröflun
  • Að tónlistarskólinn sé á skólatíma
  • Unglingastarf Dalbjargar
  • Jákvæður agi stefnan í skólunum
  • Mikið af góðum og gagnlegum leikjum í símum
  • Dagur íslenskrar tungu
  • Aldísarlundur
  • Hátt þjónustustig skólanna
  • Samverustundir í byrjun dags í skólanum
  • Tónlistarstarf í leik- og grunnskóla

Hvað má bæta:

  • Skólalóðin illa búin og einhæf
  • Hafa frítt í sund, heilsueflandi
  • Hjól í tækjasal Íþróttamiðstöðvarinnar
  • Lengri frímínútur
  • Ræða Handverkið fyrr
  • Ungmennaráðið er óvirkt
  • Vantar húsnæði í sveitina
  • Væri hægt að nýta skólabílana betur
  • Hafa aðgengilegri upplýsingar á esveit.is
  • Hvað eru unglingarnir að gera
  • Kynna betur starf Samherja
  • Vantar frjálsar íþróttir
  • Foreldrar fari eftir aldurstakmörkunum á forritum, t.d. facebook, snapchat o.þ.h.
  • Börnin eru oft þreytt eftir helgar
  • Kostnaður að koma börnum heim úr Hyldýpinu
  • Nýta félagsmiðstöðina betur

Hugmyndir að nýjungum:

  • Vera með fjölskylduhitting að hausti þar sem öll félagasamtök kynna sig og sitt
  • Fá þjálfara í tækjasal ÍME
  • Skák
  • Leyfa yngri í félagsmiðstöðina
  • Leyningshólar verði fólkvangur sveitarinnar
  • Bæta í sumardaginn fyrsta
  • Ylströnd
  • Vantar vettvang til tengslamyndunar
  • Setja upp hjólageymslu á skólalóðinni
  • Vantar stað fyrir börnin að hanga
  • Vígaglúmur
  • Heimsókn í sveitina, að einn bekkur á hverju stigi sé með sveitatengt verkefni
  • Skapandi greinar, útilífsnámskeið
  • Samvera foreldra og barna, námskeið
  • Gæðahringur foreldra
  • Snjalltækjalaus tími á heimilinu
  • Skátar
  • Hafa afþreyingu fyrir börn meðan foreldrar mæta á æfingu, fullorðnir sem fyrirmyndir

Stjórnir foreldrafélags Hrafnagilsskóla, Krummakots og Ungmennafélagsins Samherja

Getum við bætt efni síðunnar?