Menningararfur Eyjafjarðarsveitar
Fundur verður haldinn í Félagsborg laugardaginn 11. febrúar kl. 10:00. Aðalumræðuefni fundarins verður rafvæðingin í hreppunum framan Akureyrar.
Allir eru alltaf velkomnir á fundi um menningararfinn.
Fundarstjóri
Frá Félagi aldraðra í Eyjafirði
Aðalfundur félagsins verður haldinn í Félagsborg, laugardaginn 18. febrúar kl. 13:30. Venjuleg aðalfundarstörf. Kaffiveitingar í boði félagsins.
Nýir félagar velkomnir, endilega koma og kynna sér starfsemi félagsins.
Stjórnin
Aðalfundur
Kvenfélagið Hjálpin heldur aðalfund sinn í Sólgarði föstudaginn 10. febrúar kl. 20:00. Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf og að sjálfsögðu glæsilegar veitingar í boði hóps 1. Konur sem langar að taka þátt í skemmtilegum og gefandi félagsskap eru hvattar til að mæta og kynna sér starfsemina.
Sjáumst sem flestar.
Stjórnin
Minnum á aðalfund kvenfélagsins Iðunnar
Laugardaginn 11. febrúar 2017 kl. 11:00 í Laugarborg. Venjuleg aðalfundarstörf. Boðið verður uppá folaldagúllassúpu, salat, brauð og marengsbombu með kaffinu. Nýjar konur ávallt velkomnar.
Stjórnin
Kæru sveitungar
Undanfarna mánuði höfum við verið að nýta mikið af garnafgöngum í smíðastofunni í Hrafnagilsskóla. Við búum til sippubönd, vinabönd og fleira úr þeim. Nú er svo komið að allir afgangar eru að klárast og þess vegna leitum við til ykkar kæru sveitungar. Ef einhver á garnafganga (allt kemur til greina) og vill gefa okkur þá getur sá hinn sami haft samband við ritara skólans í síma 464-8100 eða komið þeim til okkar í skólann.
Það er okkur hjartans mál að geta endurnýtt hluti og ekki skemmir fyrir ef þeir koma úr heimabyggð. :-)
Fyrirfram þakkir og bestu kveðjur,
Hadda smíðakennari
Góðverkin kalla í Freyvangi
Freyvangsleikhúsið setur á svið gamanleikritið Góðverkin kalla eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason úr Ljótu hálvitunum. Leikstjórar eru Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelson, sem sjálfur er Ljótur hálviti í hjáverkum.
Í smábænum Gjaldeyri á Ystunöf starfa ofvirk góðgerðarfélög, Dívans klúbburinn, Lóðarís og Kvenfélagið Sverðliljurnar, sem fyllt hafa sjúkrahús bæjarins með stanslausum tækjagjöfum, lækninum til mikillar armæðu. Góðgerðarkapphlaupið stigmagnast og nær hámarki á 100 ára afmæli sjúkrahússins.
Rómantísk, stór undarleg, en umfram allt bráðfyndin atburðarrás með söngvum sem eru mátulega vel frambornir af góðgerðarfélögunum þremur.
Leikritið var fyrst sýnt hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1993 og sló þar í gegn. Síðan þá hafa mörg áhugaleikfélög tekist á við verkið enda er umfjöllunarefnið íslenskur veruleiki og leikritið kómískt í meira lagi.
Skemmtilegheitin í Freyvangi verða frumsýnd í byrjun mars og sýnt föstudags- og laugardagskvöld í mars og apríl.
Tryggið ykkur miða án tafar á freyvangur@gmail.com
Hjartanlega velkomin í Gaia hofið á fullu tungli föstudaginn 10. febrúar, klukkan 20:00-22:00 í fallega salnum á Knarrarbergi.
Við tengjum inn á við í gegnum hugleiðslu og dönsum það sem er. Svo endum við á djúpri og heilandi slökun með jarðar og sólar Gong og Kristal hljómskálum.
Vinsamlega skráið ykkur í síma 857-6177 eða í gegnum Facebook síðu mína - Thora Solveig Bergsteinsdottir. Kvöldið kostar 2.500 kr., te innifalið. Klæðist þægilegum fötum.
Ég hlakka til að vera með ykkur, bestu kveðjur, Solla
Pizzahlaðborð á Lamb Inn á föstudaginn
Nú kveðjum við þorramatinn og hendum í pizzahlaðborð núna á föstudaginn 10. febrúar.
Hver vill ekki smakka lambapizzu með rauðkáli?
Verð kr. 2.000 en kr. 1.000 fyrir 10 ára og yngri.
Obbosins gott að panta borð í síma 463-1500 eða á lambinn@lambinn.is