Gæsaveiðar í Eyjafjarðarsveit
Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er ástæða til að vekja máls á mikilvægi þess að ganga um náttúruna af virðingu og hafa skynsemi að leiðarljósi við skotveiðarnar. Sérstaklega ber að nefna mikilvægi þess að gera allt til þess að fanga særða fugla sem oft hrekjast langar leiðir áður en þeir gefast upp.
Dýravernd er mál alls samfélagsins og full ástæða til að brýna annars vegar landeigendur sem heimila skotveiði í sínum löndum sem og veiðimennina sjálfa til að umgangast þessa auðlind svo sómi sé að þar sem saman fer skynsamleg nýting veiðistofna og ábyrg umgengni við náttúruna. Meðferð skotvopna á þéttbýlum svæðum krefst þess að fyllsta öryggis sé gætt sem og tillitssemi vegna hávaða sem veiðunum óhjákvæmilega fylgir.
Sveitarstjóri
Messa
Sunnudaginn 18. september kl.11:00 er messa í Grundarkirkju. Hún er sérstaklega ætluð væntanlegum fermingarbörnum og foreldrum þeirra. Mér þætti afar vænt um að sjá sem flesta. Að lokinni athöfn munum við ræða vetrarstarfið og aðrar hugmyndir.
Bestu kveðjur í sveitina
Hannes
Dansnámskeið !
Þá er að styttast í að dansnámskeið hefjist fyrir byrjendur. Kennt verður á fimmtudagskvöldum kl. 20:00 í Laugaborg. Þetta verða 8 skipti, við byrjum 29. september og klárum áður en aðventan byrjar. Kenndir eru hinir ýmsu dansar sem allir þurfa að kunna til að verða ballfærir. Dansar eins og Cha cha, Jive, Tjútt, Samba, Vals o.fl. já og ekki má gleyma gömlu dönsunum Skottís, Ræl, Vínarkrus og Polka. Það er skylda að kunna þá á Þorrablótinu :) Fyrir utan hvað það er hollt að dansa þá er þetta hin mesta skemmtun. Munið að dansinn lengir lífið :)
Nánari upplýsingar og innritun er í síma 891-6276 (á kvöldin).
Danskveðjur, Elín Halldórsdóttir danskennari
Aðalfundur Foreldrafélags Hrafnagilsskóla (FFH)
- ¬verður haldinn þriðjudaginn 20. september 2016 kl. 20:30 í stofum 5. og 6. bekkjar í Hrafnagilsskóla.
Dagskrá:
1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla formanns
3. Skýrsla gjaldkera
4. Kosning stjórnar (allir sitjandi stjórnarmeðlimir ætla að gefa kost á sér áfram)
5. Kaffihlé, veglegar veitingar
6. Kynning á Heilsueflandi sveitarfélagi og Heilsueflandi skóla frá Halldóru Magnúsdóttur formanni íþrótta- og tómstundanefndar og sveitarstjórnarkonu og Hrund Hlöðversdóttur skólastjóra. Umræður og fyrirspurnir í lokin.
7. Önnur mál
Hvetjum alla foreldra til að mæta, kynnast starfinu, þiggja veitingar og ræða málin.
Stjórnin
Námskeið í þjóðbúningasaum
Heimilisiðnaðarfélagið í samstarfi við Þjóðháttafélagið Handraðann, heldur námskeið í þjóðbúningasaum í húsnæði Handraðans að Laugalandi dagana 17.-18. september 15. - 16. október og 19. - 20. nóvember. Þetta er þriðji vetur þessa samstarfsverkefnis og hefur það gefist vel. Nemendur í vetur verða um 15 og enn er hægt að skrá sig á námskeiðið um næstu helgi, hin eru að fyllast, en hægt er að skrá sig á biðlista. Nemendur sinna ólíkum verkefnum og hafa nokkrar konur nú þegar lokið við peysuföt, upphlut eða faldbúning. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Heimilisiðnaðarfélagið. Eins er hægt að hafa samband við Kristínu Völu hjá Handraðanum í gegnum netfangið kristinbreidfjord@gmail.com
Kæru sveitungar
Höfum nú lokað veitingastaðnum okkar fyrir veturinn nema fyrir hópa sem panta fyrirfram. Við þökkum ykkur kærlega fyrir ánægjuleg samskipti og gott sumar.
Í vetur verða það kótilettukvöld, pizzahlaðborð, jólaboð og ýmislegt annað sem verður í boði.
Starfsfólk Lamb Inn Öngulsstöðum
Smámunasafnið auglýsir vetrarlokun
Síðasti opnunardagur sumarsins er fimmtudagurinn 15. september.
Við þökkum góðar viðtökur í sumar og hlökkum til að sjá sem flesta næsta sumar.
Haustkveðja, stúlkurnar á Smámunasafninu
Vinsæli reiðskólinn í Ysta-Gerði heldur áfram í haust 2016!
Þetta verða alls 10 skipti frá 11. október – 14. desember í reiðskemmunni í Ysta-Gerði, Eyjafjarðarsveit. Námskeiðin eru fyrir börn (frá 2012), unglinga og fullorðna á þriðjudögum og miðvikudögum, sjá hópa og tímasetningar hér fyrir neðan. Foreldrum er velkomið að bíða á kaffistofu á meðan, ávallt heitt á könnunni.
Verð á haustönn 35.000 kr. innifalið er hestar, reiðtygi, öryggisvesti, hjálmar og kennsla. Kennari er Sara Arnbro, menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum.
Skráning er bindandi: Netfang: sara_arnbro@hotmail.com sími: 845 2298
Þriðjudagar:
Stubbar 1 4-5 ára kl. 17:00
Börn 1 6-9 ára kl. 17:45
Unglingar 1 10-15 ára, kl. 18:30
Fullorðnir 1 kl. 20:00
Miðvikudagar:
Stubbar 2 4-5 ára kl. 17:00
Börn 2 6-9 ára kl. 17:45
Unglingar 2 10-15 ára kl. 18:30
Fullorðnir 2 kl. 20:00
Dánarfregn og jarðarför
Elskulegur faðir okkar, Sigurður Jósefsson frá Torfufelli sem lést 8. sept. sl. verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju 23. sept. kl. 13:30.
Fyrir hönd fjölskyldunnar,
Sigrún Lilja