Sveitarstjórnarfundur
484. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í Félagsborg, Skólatröð 9, miðvikudaginn 24. ágúst og hefst hann kl. 15:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar sem og á heimasíðu sveitarfélagsins. Sjá nánar hér.
Sveitarstjóri
Félag aldraðra í Eyjafirði
Haustferðin er ákveðin fimmtudaginn 8. september. Farið verður frá Félagsborg
kl. 9.00. Ekið verður um Suður-Þingeyjarsýslu. Farið verðu í Út-Kinn og skoðuð Vélsmiðjan í Árteigi. Súpa í hádeginu á Húsavík og þar skoðað Hvalasafnið og Safnahúsið. Farið verður að Þeistareykjum og ekið þaðan í Mývatnssveit og kvöldverður snæddur á Hótel Laxá. Í heimleið verður komið við í Kvígindisdal hjá Guðrúnu og Jóni. Kostnaður ferðar á mann er 15.000 kr. (allt innifalið). Greiðist í rútunni (ekki posi).
Þátttaka tilkynnist til einhvers undirritaðs í síðasta lagi miðvikudaginn 31. ágúst.
Reynir Schiöth s. 862-2164
Ólafur s. 894-3230
Jófríður s. 846-5128
Frá Hrafnagilsskóla
Hrafnagilsskóli verður settur mánudaginn 22. ágúst kl. 13:00 í íþróttahúsinu. Eftir skólasetninguna kynna umsjónarkennarar starf skólaársins í heimastofum bekkjanna. Mikilvægt er að foreldrar mæti með börnum sínum. Nemendur 1. bekkjar verða boðaðir í viðtöl með foreldrum/forráðamönnum en mæta einnig á skólasetninguna.
Þeir foreldrar sem ætla að nýta sér pláss í frístund á komandi skólaári eru beðnir að sækja um eða staðfesta eldri bókanir fyrir 19. ágúst hjá ritara í síma 464-8100 eða með því að senda póst á nanna@krummi.is.
Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 23. ágúst og starf frístundar sama dag.
Innkaupalistar eru aðgengilegir á heimasíðu skólans.
Skólastjórnendur
Hjólakraftur í Eyjafirði
Hjólakraftur í samstarfi við Umf. Samherja verða með hjólaæfingar í vetur og verður fyrsta æfingin fimmtudaginn 25. ágúst. Allt ungt fólk á aldrinum 11-18 ára er meira en velkomið og foreldrar mega að sjálfsögðu mæta með, en bara ef unga fólkið kærir sig um. Hér ráða krakkarnir nefnilega og það kostar alls ekkert að prófa. Öll hjól ganga í þetta en það er algjört skilyrði að vera með hjálm!
Mæting er í anddyri sundlaugar Eyjafjarðarsveitar kl. 18:00 fimmtudaginn 25. ágúst.
Stjórn Umf. Samherja
Ákall til lesenda blaðsins
Svo sem kunnugt er liggur Sölvadalsvegur um heimaland Gnúpufells frá velmertktu hliði sunnan bæjar að vegrist við Sölvahlíð. Engir lækir eru á svæðinu en tvær uppsprettur og þarf búfé yfir veg til að ná í vatn.
Laugardag 13. ágúst s.l. fann ég tvö lömb hér í brekku ofanvið ekki langt frá vegi líklega dauð fyrir u.þ.b. viku rifin af vargi og ummerki hjá öðru sýndu að eitthvað var brotist um í lokin. Móðurina hef ég ekki fundið. Sama kvöld kom hér ábyrgur aðili og sagðist hafa séð nýdautt lamb í vegkanti við Bjarkarmel sunnan við skógarreit. Þar er hitt vatnsbólið. Um afdrif hins lambsins og móðurinnar veit ég ekkert.
Kæru Sölvadalsfarar, ég bið ykkur að sýna þann drengskap ef óhöpp verða að láta a.m.k. vita. Það er óbærileg þjáning ef varnarlaust, sært dýr er rifið sundur af vargi áður en líf er slokknað.
Kveðja, Ingibjörg