Breyting á innheimtu og álagningu fasteignagjalda 2016
Innheimta
Frá og með 1. febrúar verður sú breyting á allri innheimtu hjá Eyjafjarðarsveit að greiðsluseðlar munu birtast á vefsíðunni www.island.is undir „mínar síður“. Þar verður einnig hægt eins og undanfarin ár að nálgast álagningarseðla fasteignagjalda. Aðeins verða sendir út greiðsluseðlar til þeirra sem eru 70 ára og eldri. Hægt er að skrá sig inn á síðuna www.island.is annað hvort með íslykli eða með rafrænum skilríkjum. Góðar leiðbeiningar eru á síðunni varðandi innskráningu og notkun hennar.
Fasteignagjöld
Eins fram kemur hér að ofan þá verða ekki sendir út álagningarseðlar vegna fasteignagjalda 2016.
Gjalddagar fasteignagjalda eru fimm, frá 1. febrúar til 1. júní. Eindagi fasteignagjalda er 30 dögum eftir gjalddaga og fellur allur skattur ársins í gjalddaga ef vanskil verða. Sé fjárhæð fasteignagjalda undir kr. 25.000 er gjalddagi þeirra 1. febrúar.
Afsláttur til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti er reiknaður sjálfkrafa í samvinnu við Þjóðskrá og Ríkisskattstjóra og stuðst er við síðasta skattframtal. Afslátturinn er færður til lækkunar á fasteignagjöldum á álagningarseðli.
Upplýsingar um gjaldskrá og afsláttarreglur má finna á heimasíðu sveitarfélagsins www.esveit.is
Við kynnum nýja jógastöð og dekurspa í Knarrarbergi
Verið öll hjartanlega velkomin á opnunarhátíð laugardaginn 6. febrúar, kl. 14 til 19.
Á laugardaginn bjóðum við ykkur að koma og skoða fallega nýbyggingu á Knarrarbergi og jafnvel prófa með okkur smá jóga og dans. Með okkur verða góðir samstarfsaðilar s.s. Kaffi Ilmur sem býður upp á súpu og Silva veitingahús sem mun bjóða upp á drykk.
Á Knarrarbergi verður hægt að fara í nudd, ástunda ýmis konar jóga og dans o.fl., með aðgangi að glæsilegri aðstöðu með heitum potti og gufu.
Knarrarberg er tilvalið fyrir einstaklinga sem vilja upplifa slökun og vellíðan í nærandi og náttúrulegu umhverfi. Einnig frábært fyrir starfsmannahópa.
Á opnunarhátíðinni verður hægt að kaupa gjafakort í nudd með 10% afslætti og 10 tíma kort með 15% afslætti. Dagskrá má finna inni á www.yogaspa.is
Krummakot býður foreldrum verðandi leikskólanemenda í heimsókn
Föstudaginn 6. febrúar, milli klukkan 9 og 11, verður opið hús í Krummakoti fyrir foreldra barna sem geta hafið leikskólagöngu á þessu ári. Innritun miðast við 18 mánaða aldur og hvetjum við bæði feður og mæður að nýta sér þetta tækifæri og koma í heimsókn, skoða húsnæðið og fá innsýn í leikskólastarfið.
Bestu kveðjur,
starfsfólk Krummakots
Umsóknir í Krummakot
Til að fá sem skýrasta mynd af fjölda leikskólanemenda næsta skólaár, 2016/2017, eru foreldrar sem hyggjast sækja um leikskóla fyrir börn sín hvattir til að gera það sem fyrst. Börn eru tekin inn í leikskólann frá 18 mánaða aldri en gott er að fá umsóknir með góðum fyrirvara upp á skipulag og starfsmannahald að gera. Í ár eins og fyrri ár eru flest börn tekin inn í byrjun skólaárs þ.e. í ágúst þegar elsti árgangurinn færist á næsta skólastig. Umsóknarblöð um leikskóla má finna á heimasíðunni okkar, http://leikskoli.krummi.is
Bestu kveðjur,
Hugrún Sigmundsdóttir leikskólastjórnandi Krummakots
Silva veitingasala opnar á ný
Opið verður föstudaginn 5. febrúar frá kl. 18 - 20 og síðan annan hvern föstudag eftir það.
Fjósafólk- ekkert mál að hringja á undan og láta vita ef ykkur seinkar.
Matarmikla súpan okkar, heitur matur og hráfæðisréttir af matseðli, kökur og gómsætir eftirréttir og nammi. Kaffi/te í boði hússins eftir matinn.
Einnig verða vörurnar okkar til sölu eins og venjulega.
Gott að panta borð.
Kíkið á heimasíðuna eða Silva hráfæði á facebook
Silva veitingahús - sími 851 1360 silva@silva.is
Frá Félagi aldraðra í Eyjafirði
Aðalfundur félagsins verður haldinn í Félagsborg laugardaginn 13. febrúar kl. 13.30.
Venjuleg aðalfundarstörf.
Kaffiveitingar í boði félagsins.
Stjórnin.
Folaldasýning hrossaræktarfélagsins Náttfara
Sunnudaginn 7. febrúar n.k. stendur Hrossaræktarfélagið Náttfari fyrir folaldasýningu í Melaskjóli á Melgerðismelum. Dómari verður Eyþór Einarsson. Fyrirkomulagið verður með svipuðu sniði og verið hefur: Sköpulag folalda dæmt fyrir hádegi (folöldin þurfa að vera komin í hús kl.11 sama dag) og eftir hádegi, kl.13, verður sjálf sýningin. Verðlaun verða veitt fyrir efstu folöld í hryssu- og hestaflokki auk þess sem áhorfendur velja glæsilegasta folaldið. Þá er boðið upp á að skrá til leiks ungfola fædda 2013 og 2014. Veitingasala verður í Funaborg og opið hús í hádeginu.
Skráning fer fram um netfangið holsgerdi@simnet.is eða í síma 857-5457 í síðasta lagi föstudagskvöldið 5. febrúar. Gefa þarf upp nafn, lit, foreldra, ræktanda og eiganda folaldsins/ungfolans.
F.h. stjórnar,
Sigríður í Hólsgerði