Auglýsingablaðið

816. TBL 08. janúar 2016 kl. 08:55 - 08:55 Eldri-fundur

Fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar
Fundur sveitarstjórnar verður haldinn miðvikudaginn 13. janúar kl.15.00 í
fundarstofu 2, Skólatröð 9.

Bóndadagsgleði
Hin árlega Bóndadagsgleði er á dagskrá í fjórða sinn þann 22. janúar næstkomandi. Að venju fer skemmtunin fram í
félagsheimili okkar Funaborg og opnar húsið kl 20:00. Stundvíslega kl. 20:30 verður fögnuðurinn settur með pompi og prakt án þess að nokkru verði til sparað.
Skemmtiatriði verða með hefðbundnum hætti og má þar nefna uppboð á flottum sauðfjármörkum
• - Tætt&rottuétið‘hægra, stíft vinstra.
• - Uppáskrúfað,sílt hægra, naglbitið vinstra.
• - Tvísílt í Giljagaur hægra, Rósstúfrifað vinstra
• - Sílt í blaðstíft hægra, miðhlutað hitt hægra.
Allur ágóði af uppboðinu rennur í Hljómsveitarsjóð Birgis Arasonar sem hyggur á aukna sauðfjárrækt.
Matur verður á staðnum en drykkjarföng þurfa að berast meðferðis góða
skapinu. Aldurstakmark er 16 ára á árinu, ofangreind hljómsveit leikur fyrir dansi.
Tekið er við miðapöntunum í síma 848-4672 hjá Þórólfi þegar hann er ekki á tali við óánægða bændur útaf búvörusamningum, Reyni í síma 8660921, Lilju í síma 8678104 og einnig má
senda Hafdísi póst á netfangið hafdisds@simnet.is
ATH Takmarkað húsrými og miðafjöldi eftir því - Allir velkomnir -
Uppselt í fyrra og öll árin þar áður - Tryggðu þér miða í tíma!

Skemmtimafían þarna fremra.

Reiðskóli í Ysta-Gerði fyrir byrjendur og minna vana
Vorönnin er 10 skipti frá 3.–15. viku. Kennt er í reiðskemmunni í Ysta-Gerði. Kennari er Sara Arnbro, menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Reiðskólinn er í samstarfi við Hestamannafélagið Funa sem greiðir niður þátttökugjaldið um 10.000 kr. fyrir hvert barn sem er í Funa (hægt að gerast félagi í Funa endurgjaldslaust). Fullt verð á vorönn er 35.000 kr. Fyrir Funafélaga er gjaldið 25.000 kr. Innifalið er hestar, reiðtygi og hjálmar. Foreldrar eru velkomnir inn í kaffistofu á meðan, ávallt heitt á könnunni.
Hópaskipting:
Stubbar 1 3-5 ára þriðjudagar kl. 17.00
Stubbar 2 3-5 ára miðvikudagar kl. 17.00
Börn 1 6-9 ára þriðjudagar kl. 17.45
Börn 2 6-9 ára miðvikudagar kl. 17.45
Unglingar 1 10-15 ára þriðjudagar kl. 18.30
Unglingar 2 10-15 ára miðvikudagar kl. 18.30
Skráninginn er bindandi: Netfang: sara_arnbro@hotmail.com sími: 845 2298

Frá Félagi aldraðra í Eyjafirði
Gleðilegt ár. Fyrsta samvera í Félagsborg á nýju ári, er þriðjudaginn 12. janúar kl.13.
Þá hefst námskeið í útskurði. Og ýmislegt annað er í boði eins og venjulega.
Stjórnin

Kótilettukvöld Lamb Inn
Okkar árlega Kótilettukvöld verður haldið laugardaginn 16. janúar n.k. Skemmtiatriði, stuð og stemning og gómsætar kótilettur.
Norðlenskt búðinga¬hlaðborð í eftirrétt.
Miðaverð kr. 4.400.- Miðapantanir í síma 463 1500 eða á lambinn@lambinn.is.
Athugið að þegar er þriðjungur miða seldur.
Lamb Inn, Öngulsstöðum

Hross í afrétt
Vakin er athygli á því að óheimilt er að hafa hross í afrétt eftir 10. janúar. Samkvæmt búfjársamþykkt Eyjafjarðarsveitar er vörsluskylda á öllu búfé neðan fjallsgirðingar allt árið. Allt búfé er á ábyrgð umráðamanns sem er skylt að sjá til þess að búfé sé haldið innan afmarkaðs svæðis og gangi ekki laust utan þess, sbr. reglugerð nr. 59/2000, um vörslu búfjár.
Sveitarstjóri

Þorrablót Eyjafjarðarsveitar
Þorrablót Eyjafjarðarsveitar verður haldið í íþróttahúsi Hrafnagilsskóla laugardaginn 30. janúar næstkomandi. Húsið verður opnað kl. 19.45 og
blótið sett kl. 20.30.
Að vanda mæta gestir með trogin sín full af dýrindis kræsingum, bæði vel og illa lyktandi! Glös verða á staðnum en gestir hafa með sér annan borðbúnað.
Miðapantanir og miðasala verður auglýst síðar.
Mætum öll og fögnum þorranum saman eins og okkur einum er lagið
Þorrablótsnefnd Eyjafjarðarsveitar 2016

Sorphiðurdagatal 2016
Meðfylgjandi í auglýsingablaði vikunnar er sorphirðudagatal fyrir árið 2016. Athygli er vakin á þeirri breytingu sem átt hefur sér stað á tæmingardögum norðan Miðbrautar en almennt sorp og endurvinnslutunnan verður framvegis tekin á miðvikudögum í stað mánudaga áður. Áfram verður sorpið sótt á mánudögum sunnan Miðbrautar.
Jafnframt er minnt á mikilvægi þess að starfsmenn Gámþjónustunnar eigi greiðan aðgang að sorpílátum.

Getum við bætt efni síðunnar?