Auglýsingablaðið

774. TBL 18. mars 2015 kl. 15:21 - 15:21 Eldri-fundur

Fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðar
Fundur sveitarstjórnar verður haldinn miðvikudaginn 25. mars kl.15:00 í fundarstofu 2, Skólatröð 9.

Gjöf frá umhverfisnefnd – fjölnota innkaupapokar inn á hvert heimili
Lengi hefur verið vitað um þörf þess að draga úr notkun plasts og er Eyjafjarðarsveit nú komin í hóp þeirra sveitarfélaga sem vill sporna við plastpokanotkun. Þessa dagana eru nemendur 9. bekkjar Hrafnagilsskóla að dreifa fjölnota innkaupapokum inn á öll heimi í sveitinni. Pokarnir eru gjöf umhverfisnefndar Eyjafjarðarsveitar og liður í því að auka vitund fólks um mikilvægi notkunar fjölnota burðapoka í stað plastpoka.
Undanfarið hefur umræða um skaðsemi plasts stóraukist enda veldur það neikvæðum áhrifum á heilsu okkar og umhverfi. Áætlað er að hér á landi falli til um 50 milljónir plastpoka á ári hverju eða um 1.120 tonn af plasti. Langstærstur hluti þessara plastpoka fer til urðunar með öðrum heimilisúrgangi en talið er að niðurbrot plasts taki amk. nokkrar aldir.
Íbúar eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu Eyjafjarðarsveitar í s:463-0600 ef ekki hefur borist poki inn á hvert heimili þann 23. mars. Einnig viljum við benda á að hægt er að kaupa poka á 1.000 kr. á skrifstofunni.
Eitt grænt skref fram á við.
Kveðja frá umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar

Árshátíð miðstigs 2015
Árshátíð miðstigs Hrafnagilsskóla verður haldin í Laugarborg, 
fimmtudaginn 19. mars og hefst kl.20:00. Boðið verður upp á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar og nemendur í 5., 6. og 7. bekk sýna stytta útgáfu af Kardemommubænum eftir Thorbjörn Egner. Að loknum skemmtiatriðum verður boðið upp á hressingu og síðan verður stiginn dans og mun Elín Halldórsdóttir stjórna honum eins og henni er einni lagið. Skemmtuninni lýkur kl.22:30. Aðgangseyrir er 700 kr. fyrir grunnskólanemendur, 1.400 kr. fyrir eldri og frítt fyrir þá sem hafa ekki náð grunnskólaaldri. Allur ágóði rennur til nemenda, bæði til að greiða lyftugjöld í skíðaferð og einnig fá 7. bekkingar niðurgreiðslu þegar þeir fara í skólabúðirnar á Reykjum. Athugið að ekki er posi á staðnum. Veitingar eru innifaldar í verðinu og sjoppa verður á staðnum.
Allir eru hjartanlega velkomnir.
Nemendur 5.-7. bekkjar Hrafnagilsskóla

Faldbúningsnámskeið Heimilisiðnaðarfélags Íslands og Handraðans
Námskeið í faldbúning, þjóðbúninga saumi og balderingsnámskeið 
verður haldið í húsnæði Handraðans á Laugalandi, helgina 25.-26. apríl.
Kennarar eru Oddný Kristjánsdóttir og Inda Benjamínsdóttir.
Áhugasamir skrái sig í gegnum tölvupóst á heimasíðu félagsins www.heimilisidnadur.is eða í s:551-5500.

Freyvangsleikhúsið - Fiðlarinn á þakinu
Næstu sýningar eru sem hér segir:
8. sýning 20. mars kl.20:00 UPPSELT
9. sýning 21. mars kl.20:00 UPPSELT
10. sýning 27. mars kl.20:00 UPPSELT
11. sýning 28. mars kl.20:00 UPPSELT
12. sýning 2. apríl kl.20:00 Skírdagur
13. sýning 4. apríl kl.20:00 Stjánasýning
Miðasla í s:857-5598 kl.18:00-20:00 og sýningardaga kl.17:00-19:00 og einnig á www.freyvangur.net

Brjóstakrabbamein – Hjálpin
Þann 24. mars kl.20.00 verður haldinn fyrirlestur og fræðsla í Funaborg um brjóstakrabbamein. Þar ætlar Dóróthea Jónsdóttir að ræða um reynslu sína af brjóstakrabbameini en árið 2012 gaf hún út bókina „Bleikur barmur – barátta mín við krabbamein“ og er bókin nú í notkun hjá brjóstakrabbameinsteymi Landsspítalans. Jóhanna Júlíusdóttir hjúkrunarfræðingur sem starfar hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis ætlar að koma með brjóstavesti og sýna okkur meðal annars hvernig á að þreifa brjóstin.
Þetta er þörf og góð fræðsla sem við hvetjum konur til að mæta á og taka með vinkonu því þetta snertir okkur allar. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið í konum á Íslandi eða tæplega þriðjungur tilfella. Árlega greinast um 200 konur með sjúkdóminn hér á landi. Þessi fyrirlestur er opinn öllum og hlökkum við til að sjá þig. Á boðstólnum verður kaffi og súkkulaði.
Kvenfélagið Hjálpin

Orgeltónleikar í Grundarkirkju
Fimmtudagskvöldið 26. mars kl.20:00 verða síðari tónleikar „Tóna á Grund“ sem haldnir eru til heiðurs nýja Klop orgelinu sem kom í Grundarkirkju í haust. Á þessum tónleikum verður orgelið sjálft í aðalhlutverki. Flytjendur á tónleikunum verða orgelleikararnir Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, Björn Steinar Sólbergsson, Eyþór Ingi Jónsson og Daníel Þorsteinsson. Lára Sóley Jóhannsdóttir leikur á fiðlu, Ásdís Arnardóttir á selló og Kirkjukór Laugalandsprestakalls syngur í einu verkanna.
Flutt verða orgelverk frá ýmsum tímum, íslensk og erlend, með áherslu á tónlist frá endurreisnar- og barokktímanum en einnig tríósónata fyrir fiðlu, selló og orgel.
Þá verður frumflutt „Hugleiðing um sálm“ eftir Daníel Þorsteinsson sem samin var fyrir þetta tilefni. Verkið er byggt á sálminum „Maríusonur, mér er kalt“ eftir Sigríði Schiöth, samið með áðurnefnda flytjendur í huga og tileinkað Kirkjukór Laugalandsprestakalls. Menningarráð Eyþings studdi Kirkjukór Laugalandsprestakalls til tónleikahaldsins. Tónleikarnir eru öllum opnir og er aðgangur ókeypis en tekið er á móti framlögum þeirra sem styðja vilja framtakið og starf kirkjukórsins.
Kirkjukór Laugalandsprestakalls

Slökun – friður - gong
Verð með dásamlega friðarstund í Laugarborg föstudagskvöldið 20. mars. kl.20:00. Njótum heilandi tóna gong-sins og gleymum okkur í djúpri slökun. Húsið opnar kl:19:30 og þátttaka kostar 2.000 kr. sem greiðist við komu (enginn posi). 
Hlakka til að taka á móti ykkur.
Kveðja, Rósa Matthíasdóttir Henriksen (á Höskuldsstöðum)

Hestamannafélagið Funi auglýsir TREC námskeið
Námskeiðið er fyrir alla krakka sem geta mætt með eigin hest og reiðtygi. Skipt verður í hópa eftir reynslu hesta og knapa. Kennsla hefst með bóklegum tíma þann
1. apríl en verklegir tímar verða 3. apríl, 4. apríl, 11. apríl, 25. apríl, 9. maí,
16. maí, 30. maí og 5. júní. Þann 6. júní er svo stefnt að smá lokakeppni til að ljúka námskeiðinu. Mögulegt er að bæta krökkum inn í námskeiðið eftir að það byrjar en nánari upplýsingar gefur kennari námskeiðsins Anna Sonja Ágústsdóttir. Hún tekur jafnframt við skráningu fram til 31. mars í s:846-1087 og 463-1262.
Námskeiðið er ókeypis fyrir alla krakka í Funa.
Barna- og unglingaráð Funa

Álfagallerýið í sveitinni
Opið frá kl.13:00-17:00 um helgar. Sólin hækkar á lofti og vetrardvalanum er lokið í Álfagallerýinu við Teig. Nú um helgina þann 21. og 22. mars mun álfadrottningin ásamt föruneyti sínu opna gallerýið að nýju og verður opið frá kl.13:00-17:00. Bjóðum upp á fjölbreytt og fallegt handverk af ýmsu tagi. 
Verið velkomin til okkar

Á lífsins veg - samskipti
Fyrirlestur um samskipti. Hvernig hugur, líkami, gjörðir og tilfinningar hafa áhrif á samskipti okkar. Hvers vegna lendum við svona oft í árekstrum við hvert annað? Hafa hugsanir, orð, gjörðir meiri áhrif en við höldum? Hvað getum við gert til þess að bæta samskipti okkar? Fyrilesari: Sigríður Ásný Sólarljós Fire Spirit Ketilsdóttir
aðgangseyrir: kr 500,- engin posi á staðnum sem er Heilsudöggin Furuvöllum 13 e.hæð í kvöld fimmtudag 19. mars kl.20:00

Elskum vatnið - dagur vatnsins - hugleiðsla
Á degi vatnsins þann 22. mars kl.12:00 ætlum við að setjast niður úti í náttúrunni og hugleiða á vatnið. Hvers vegna höfum við hreint vatn? Getum við tekið það sem gilt að alltaf hafa hreint vatn? Hvað getum við gert til þess að aðstoða við að viðhalda hreinu vatni á landinu okkar. Munum við alltaf hafa nægilegt vatn eða er hætta á því að ekki hafa nóg? Staðsetning: Finnastaðir Eyjafjarðarsveit 
Sigríður Ásný Sólarjós Fire Spirit.

Bókasafn Eyjafjarðarsveitar Hrafnagilsskóla
Opnunartímar á næstunni:
Í dimbilviku verður opið mánudaginn 30. mars kl.10:30-16:00 og 
þriðjudaginn 31. mars kl.10:30–12:30
Fyrsti opnunardagur eftir páska er þriðjudagurinn 7. apríl og þá er hefðbuninn opnunartími.
Hefðbundinn opnunartími safnsins: 
Mánudaga kl.10:30-12:30 og 13:00-16:00
Þriðjudaga kl.10:30-12:30 og 16:00-19:00
Miðvikudaga kl.10:30-12:30 og 16:00-19:00
Fimmtudaga kl.10:30-12:30 og 16:00-19:00
Föstudaga kl.10:30-12:30
Best er að ganga um dyr að austan (kjallari íþróttahúss) eða um sundlaugarinnganga og niður á neðri hæð.

Framsóknarfélags Eyjafjarðarsveitar
Kæru félagar í Framsóknarfélagi Eyfjarðarsveitar. Nú styttist í flokksþing Framsóknarflokksins. Það verður haldið í Gullhömrum 10.-12. apríl næst komandi. Ef þú hefur áhuga á að fara á þingið hafðu þá samband fyrir 31. mars við einhvern eftirfarandi:
Helga Örlygsson í s: 862-3800
Ketil Helgason í s: 864-0258
Loga Óttarsson í s: 694-8989
Framsóknarfélag Eyjafjarðarsveitar

Hvetjum íbúa Eyjafjarðarsveitar til að taka þátt í skemmtilegu verkefni
Aðstandendur Handverkshátíðar hvetja ykkur til að útbúa fuglahræður og velja þeim stað hér í sveitinni sem sést frá veginum. Fuglahræðurnar mega vera óhefðbundnar og efnisval er frjálst. Í byrjun sumars (dagsetningin kynnt síðar) þurfa þær að fara á stjá og hápunkturinn verður á Handverkshátíðinni þar sem einhverjum þeirra verður boðið inn á svæðið og í lok hátíðar verða verðlaun veitt. Þetta uppátæki munu án efa kæta gesti sveitarinnar líkt og póstkassarnir, traktorinn og kýrnar á Hvassafelli gerðu um árið og tryggir okkur vonandi enn fleiri gesti í ár en síðustu ár. Með von um góða þátttöku.
Ester Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Handverkshátíðar

Getum við bætt efni síðunnar?